Prenta hluta
1
Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst:
  • Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggur.
  • Leiktu samkvæmt reglunum og í anda leiksins.
  • Þú ert ábyrgur fyrir að beita sjálfan þig vítum ef þú brýtur reglu, þannig að þú getir ekki hagnast gagnvart mótherja þínum í holukeppni eða gagnvart öðrum leikmönnum í höggleik.
1
Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
1.1

Golfleikurinn

Golf er leikið í umferð sem er 18 (eða færri) holur á velli með því að slá bolta með kylfu. Leikur á hverri holu hefst með höggi frá teignum og leiknum lýkur þegar boltinn fer í holu á flötinni (eða þegar holunni lýkur á annan hátt samkvæmt reglunum). Í hverju höggi leikur leikmaðurinn:
  • Leikur völlinn eins og hann kemur að honum og
  • boltanum eins og hann liggur.
Þó eru undantekningar þar sem golfreglurnar heimila leikmanninum að breyta aðstæðum á vellinum og leyfa eða ætlast til að leikmaðurinn leiki boltanum af öðrum stað en þar sem hann liggur.
1.2

Viðmið um hegðun leikmanna

1.2a

Hegðun sem ætlast er til af öllum leikmönnum

Ætlast er til að allir leikmenn leiki í anda leiksins, með því að:
  • Koma fram af ráðvendni, til dæmis með því að fylgja reglunum, beita öllum vítum og vera heiðarlegir í öllu sem snýr að leiknum.
  • Sýna öðrum tillitssemi, til dæmis með því að leika rösklega, vera vakandi fyrir öryggi annarra og trufla ekki leik annars leikmanns. Slái leikmaður bolta þannig að hætta geti verið á að boltinn hitti einhvern ætti leikmaðurinn að kalla samstundis viðvörun, svo sem hið hefðbundna orð „fore“.
  • Ganga vel um völlinn, til dæmis með því að leggja torfusnepla á sinn stað, slétta glompur, lagfæra boltaför og valda ekki óþarfa skemmdum á vellinum.
Það er vítalaust samkvæmt golfreglunum þótt ekki sé farið eftir þessu, en nefndin getur veitt leikmanni frávísun fyrir óviðeigandi háttsemi sem er gegn anda leiksins, telji nefndin hegðunina alvarlega. „Alvarleg óviðeigandi hegðun“ er hegðun sem er svo fjarlæg því sem ætlast er til í golfi að sú hámarksrefsing að fjarlægja leikmanninn úr keppninni er réttlætanleg. Vítum, öðrum en frávísun, má einungis beita leikmann vegna óviðeigandi hegðunar ef slík viðurlög eru hluti hegðunarreglna samkvæmt reglu 1.2b.
1.2b

Hegðunarreglur

Nefndin má setja eigin viðmið um háttsemi leikmanna, í hegðunarreglum sem útfærðar eru sem hluti staðarreglna.
  • Hegðunarreglurnar geta kveðið á um víti fyrir brot á þessum viðmiðum, svo sem eins höggs víti eða almenna vítið.
  • Nefndin má einnig veita leikmanni frávísun fyrir alvarlega óviðeigandi hegðun sem brýtur í bága við hegðunarreglurnar.
Sjá Verklag nefnda,hluta 5I (þar sem útskýrð eru þau viðmið sem setja má um hegðun leikmanna).
1.3

Leikið samkvæmt reglunum

1.3a

Merking hugtaksins „reglurnar“. Keppnisskilmálar

Hugtakið „reglurnar“ merkir:
  • Reglur 1-25 og skilgreiningarnar í þessum golfreglum, og
  • Sérhverjar „staðarreglur“ sem nefndin setur fyrir keppnina eðavöllinn.
Leikmenn eru einnig ábyrgir fyrir að fylgja öllum „keppnisskilmálum“ eins og þeir eru ákveðnir af nefndinni (svo sem um þátttökuskilyrði, form og dagsetningar keppninnar, fjölda umferða og fjölda og leikröð hola í umferð) Sjá Verklag nefnda, hluta 5C og hluta 8 (staðarreglur og fyrirmyndir að leyfilegum staðarreglum); hluta 5A(keppnisskilmálar).
1.3b

Að beita reglunum

(1) Ábyrgð leikmanns á að beita reglunum. Leikmenn eru ábyrgir fyrir að beita reglunum gagnvart sjálfum sér:
  • Ætlast er til að leikmenn viti hvenær þeir hafa brotið reglu og séu heiðarlegir við að beita sjálfa sig vítum.
    • Ef leikmaður veit að hann hefur brotið reglu sem felur í sér víti og ákveður að yfirlögðu ráði að beita ekki vítinu hlýtur leikmaðurinn frávísun.
    • Ef tveir eða fleiri leikmenn sammælast vísvitandi um að hunsa einhverja reglu eða víti sem þeir vita að er viðeigandi, og einhver þeirra hefur byrjað umferðina, hljóta þeir frávísun (jafnvel þótt ekki hafi enn reynt á samkomulagið).
  • Þegar nauðsynlegt er að ákvarða staðreyndir er leikmaðurinn ábyrgur fyrir að taka mið af eigin vitneskju um staðreyndir ásamt öðrum upplýsingum sem tiltækar eru án óhæfilegrar fyrirhafnar.
  • Leikmaður má óska eftir aðstoð dómara eða nefndarinnar vegna reglnanna, en ef aðstoð er ekki fáanleg innan hæfilegs tíma verður leikmaðurinn að halda leik áfram og bera málið upp við dómara eða nefndina þegar þau eru tiltæk (sjá reglu 20.1).
(2) Að samþykkja „skynsamlegt mat“ leikmannsins við að ákvarða staðsetningu þegar reglunum er beitt.
  • Margar reglur krefjast þess að leikmenn ákvarði stað, línu, jaðar, svæði eða aðra staðsetningu samkvæmt reglunum, svo sem við að:
    • Áætla hvar bolti skar síðast jaðar vítasvæðis,
    • Áætla eða mæla þegar bolti er látinn falla eða er lagður við að taka lausn,
    • Leggja bolta aftur á upphaflegan stað (hvort sem sá staður er þekktur eða áætlaður).
    • Ákvarða á hvaða svæði vallarins bolti liggur, þar á meðal hvort bolti sé innan vallar, eða
    • Ákvarða hvort bolti snerti eða sé í eða á óeðlilegum vallaraðstæðum
  • Slíkar ákvarðanir um staðsetningu þarf að taka án tafa og af vandvirkni, en oft geta þær ekki verið nákvæmar.
  • Svo framarlega sem leikmaðurinn gerir allt sem eðlilegt er að ætlast til af honum, miðað við kringumstæður, til að meta eða mæla af nákvæmni verður það mat samþykkt, jafnvel þótt myndbandstækni eða aðrar upplýsingar leiði í ljós, eftir að höggið er slegið, að ákvörðunin var röng.
  • Uppgötvi leikmaður, áður en höggið er slegið, að ákvörðunin var röng verður að leiðrétta hana (sjá reglu 14.5).
1.3c

Víti

(1) Athafnir sem leiða til víta. Beitt er víti þegar brot á reglu orsakast af athöfnum leikmannsins sjálfs eða athöfnum kylfubera hans (sjá reglu 10.3c). Víti er einnig beitt þegar:
  • Annar einstaklingur aðhefst eitthvað sem hefði leitt til vítis ef það væri gert af leikmanninum eða kylfubera hans og einstaklingurinn gerir það að beiðni leikmannsins eða með hans leyfi, eða
  • Leikmaðurinn sér annan einstakling um það bil að aðhafast eitthvað í tengslum við bolta eða útbúnað leikmannsins sem leikmaðurinn veit að leiðir til reglubrots ef gert af leikmanninum eða kylfubera hans og leikmaðurinn gerir ekki eðlilegar ráðstafanir til að mótmæla eða stöðva viðkomandi.
(2) Stig víta. Vítum er ætlað að eyða öllum hugsanlegum ávinningi leikmannsins. Stig víta eru í aðalatriðum þrjú:
  • Eins höggs víti. Þetta víti á bæði við í holukeppni og höggleik samkvæmt ákveðnum reglum þar sem annaðhvort (a) hugsanlegur ávinningur af broti er lítill eða (b) leikmaður tekur lausn gegn víti með því að leika bolta frá öðrum stað en þar sem upphaflegi boltinn liggur.
  • Almennt víti (holutap í holukeppni, tveggja högga víti í höggleik). Þetta víti á við um brot á flestum reglum þar sem hugsanlegur ávinningur er meiri en þar sem viðurlögin felast í einu vítahöggi.
  • Frávísun. Bæði í holukeppni og í höggleik kann leikmaður að hljóta frávísun frá keppninni fyrir ákveðnar athafnir eða reglubrot sem fela í sér alvarlega óviðeigandi hegðun (sjá reglu 1.2) eða ef hugsanlegur ávinningur er of mikill til að hægt sé að telja skor leikmannsins gilt.
(3) Óleyfilegt að breyta vítum. Vítum skal einungis beitt eins og mælt er fyrir um í golfreglunum:
  • Hvorki leikmaður né nefndin hafa leyfi til að beita vítum á annan hátt, og
  • Röng beiting vítis eða að víti sé ekki beitt skal aðeins gilda þegar of seint er að leiðrétta það (sjá reglur 20.1b(2), 20.1b(3), 20.2d og 20.2e).
Í holukeppni mega leikmaðurinn og mótherji hans komast að samkomulagi vegna ágreinings um reglurnar, svo fremi að þeir sammælist ekki vísvitandi um að beita reglunum á rangan hátt (sjá reglu 20.1b(1)). (4) Að beita vítum á endurtekin reglubrot. Hvort leikmaður fái margföld víti fyrir að brjóta margar reglur eða sömu regluna endurtekið ræðst af því hvort atburðarásin hafi verið rofin og hvað leikmaðurinn gerði. Með tilliti til beitingar þessarar reglu getur tvennt rofið atburðarásina:
  • Leikmaðurinn slær högg, og
  • Leikmanninum er ljóst eða verður ljóst að um reglubrot kann að vera að ræða (þar á meðal þegar leikmaðurinn veit að hann braut reglu, þegar leikmanninum er sagt að um reglubrot sé að ræða eða þegar leikmaðurinn er óviss um hvort hann hafi brotið reglu).
Vítum er beitt þannig:
  • Einföldu víti beitt á endurtekin brot á milli þess að atburðarásin er rofin: Ef leikmaður brýtur margar reglur eða sömu regluna endurtekið á milli þess að atburðarásin er rofin fær hann einungis eitt víti. Ef reglurnar sem voru brotnar hafa ólík vítaákvæði fær leikmaðurinn eingöngu alvarlegasta vítið.
  • Margföldum vítum beitt fyrir brot fyrir og eftir að atburðarásin er rofin: Ef leikmaður brýtur reglu og brýtur síðan sömu reglu eða aðra reglu eftir að atburðarásin hefur verið rofin fær leikmaðurinn margföld víti.
Undantekning – Að leggja ekki aftur bolta sem hefur hreyfst: Ef leikmaður á að leggja aftur bolta sem hefur hreyfst, samkvæmt reglu 9.4, en gerir það ekki og leikur af röngum stað fær hann einungis almenna vítið samkvæmt reglu 14.7a. Hins vegar bætast öll vítahögg sem leikmaðurinn hlýtur við að taka lausn gegn víti (svo sem eins höggs víti samkvæmt reglum 17.1, 18.1 og 19.2) alltaf við önnur víti.
SKOÐA FLEIRA
Regla 2Völlurinn
Tilgangur reglu: Í reglu 2 eru kynnt þau grunnatriði sem hver leikmaður ætti að þekkja um völlinn: Á vellinum eru fimm skilgreind svæði, og Á vel...
Lesa meira