Tilbaka
14

Ferli vegna bolta: Að merkja, lyfta, hreinsa og leggja aftur. Að láta falla innan lausnarsvæðis. Leikið af röngum stað

Fara í kafla
Opinberu reglurnar
Prenta hluta
14
Ferli vegna bolta: Að merkja, lyfta, hreinsa og leggja aftur. Að láta falla innan lausnarsvæðis. Leikið af röngum stað
Tilgangur reglu: Regla 14 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má merkja staðsetningu kyrrstæðs bolta, lyfta boltanum og hreinsa hann og hvernig eigi að setja boltann aftur í leik þannig að honum verði leikið af réttum stað.
  • Þegar leggja á aftur bolta sem hefur verið lyft eða verið hreyfður verður að leggja sama boltann aftur á upphaflegan stað.
  • Þegar tekin er lausn, með eða án vítis, verður að láta skiptibolta eða upphaflega boltann falla á tilteknu lausnarsvæði.
Mistök við beitingu þessara aðferða má leiðrétta vítalaust áður en boltanum er leikið, en leikmaðurinn fær víti ef hann leikur boltanum af röngum stað.
14
Ferli vegna bolta: Að merkja, lyfta, hreinsa og leggja aftur. Að láta falla innan lausnarsvæðis. Leikið af röngum stað
14.1

Að merkja, lyfta og hreinsa bolta

Þessi regla nær til þess að „lyfta“ vísvitandi kyrrstæðum bolta leikmannsins. Það má gera á hvaða hátt sem er, til dæmis með því að lyfta boltanum upp með höndinni, snúa honum eða valda því vísvitandi á annan hátt að boltinn hreyfist af upphaflegum stað sínum.
14.1a

Merkja verður staðsetningu bolta sem á að lyfta og leggja aftur

Áður en bolta er lyft samkvæmt reglu sem krefst þess að boltinn sé lagður aftur á upphaflegan stað verður leikmaðurinn að merkja staðinn, með því að:
  • Leggja boltamerki rétt fyrir aftan eða rétt við boltann, eða
  • Halda kylfu á jörðinni rétt fyrir aftan eða rétt við boltann.
Ef staðurinn er merktur með boltamerki verður leikmaðurinn að fjarlægja boltamerkið eftir að boltinn hefur verið lagður aftur og áður en leikmaðurinn slær högg. Ef leikmaðurinn lyftir boltanum án þess að merkja staðsetningu hans, merkir staðsetninguna á rangan hátt eða slær högg án þess að fjarlægja fyrst boltamerkið fær leikmaðurinn eitt vítahögg. Þegar bolta er lyft til að taka lausn samkvæmt reglu er leikmaðurinn ekki skyldugur til að merkja staðsetningu boltans áður en honum er lyft.
14.1b

Hver má lyfta bolta

Bolta sem má lyfta samkvæmt reglunum má bara vera lyft af:
  • Leikmanninum sem á boltann, eða
  • Einhverjum sem leikmaðurinn heimilar það. Þó verður leikmaðurinn að gefa slíkt leyfi í hvert sinn áður en boltanum er lyft, ekki má gefa almennt leyfi fyrir alla umferðina.
Undantekning – Hvenær kylfuberi má lyfta bolta leikmannsins án leyfis: Kylfuberinnmá lyfta bolta leikmannsins án leyfis þegar:
  • Bolti leikmannsins liggur á flötinni, eða
  • Eðlilegt er að álykta (svo sem af orðum eða athöfnum) að leikmaðurinn muni taka lausn samkvæmt reglu.
Ef kylfuberinn lyftir boltanum þegar hann má það ekki fær leikmaðurinn eitt vítahögg (sjá reglu 9.4). Sjá reglur 25.2g, 25.4a og 25.5d (vegna leikmanna með tilteknar fatlanir er reglu 14.1b breytt til að leyfa aðstoðarmanni að lyfta bolta leikmannsins á flötinni án leyfis).
14.1c

Hreinsa bolta

Alltaf má hreinsa bolta sem hefur verið lyft af flötinni (sjá reglu 13.1b). Bolta sem hefur verið lyft annars staðar en af flötinni má alltaf hreinsa, nema þegar honum er lyft:
  • Til að athuga hvort hann sé skorinn eða sprunginn. Ekki má hreinsa boltann (sjá reglu 4.2c(1)).
  • Til að þekkja hann. Einungis má hreinsa boltann að því marki sem er nauðsynlegt til að þekkja hann (sjá reglu 7.3).
  • Vegna þess að hann truflar leik. Ekki má hreinsa boltann (sjá reglu 15.3b(2)).
  • Til að athuga hvort hann liggi í aðstæðum þar sem lausn er leyfð. Ekki má hreinsa boltann nema leikmaðurinn taki síðan lausn samkvæmt reglu (sjá reglu 16.4).
Ef leikmaðurinn hreinsar bolta þegar það er ekki leyfilegt samkvæmt þessari reglu fær leikmaðurinn eitt vítahögg og verður að leggja boltann aftur, hafi honum verið lyft. Sjá reglur 22.2fjórmenningi má hvor samherji koma fram fyrir hönd liðsins og litið er á athafnir samherjans sem athafnir leikmannsins); 23.5 fjórleik má hvor samherji koma fram fyrir hönd liðsins og litið er á athafnir samherjans varðandi bolta eða útbúnað leikmannsins sem athafnir leikmannsins).
14.2

Að leggja bolta aftur á ákveðinn stað

Þessi regla á alltaf við þegar bolta hefur verið lyft eða hann hreyfður og regla krefst þess að boltinn sé lagður aftur á ákveðinn stað.
14.2a

Nota verður upphaflegan bolta

Þegar leggja verður bolta aftur verður að nota upphaflega boltann. Undantekning – Nota má annan bolta þegar:
  • Ekki er hægt að endurheimta upphaflega boltann með eðlilegri fyrirhöfn og innan nokkurra sekúndna, svo framarlega sem leikmaðurinn olli því ekki vísvitandi að ekki er hægt að endurheimta boltann, 
  • Upphaflegi boltinn er skorinn eða sprunginn (sjá reglu 4.2c),
  • Leikur hefst aftur eftir að hafa verið stöðvaður (sjá reglu 5.7d), eða
  • Upphaflega boltanum var leikið af öðrum leikmanni sem röngum bolta (sjá reglu 6.3c(2)).
14.2b

Hver verður að leggja bolta aftur og hvernig á að gera það

(1) Hver má leggja bolta aftur. Bolta leikmanns má einungis leggja aftur samkvæmt reglunum af eftirfarandi:
  • Leikmanninum, eða
  • Einhverjum öðrum sem lyfti boltanum eða olli því að hann hreyfðist
Ef leikmaðurinn leikur bolta sem var lagður aftur af einhverjum sem mátti það ekki fær leikmaðurinn eitt vítahögg. Sjá reglur 25.2h, 25.3c og 25.4a (vegna leikmanna með tilteknar fatlanir er reglu 14.2b breytt til að gefa almennt hverjum sem er leyfi til að leggja eða leggja aftur bolta leikmannsins). (2) Hvernig leggja verður bolta aftur. Leggja verður boltann aftur með því leggja hann niður með höndinni á réttan stað og sleppa boltanum þannig að hann haldist á staðnum. Ef leikmaðurinn leikur bolta sem var lagður aftur á rangan hátt, en þó á réttan stað, fær leikmaðurinn eitt vítahögg.
14.2c

Staður þar sem bolti er lagður aftur

Leggja verður boltann aftur á sinn upphaflega stað (sem þarf að áætla ef hann er óþekktur), nema þegar leggja verður boltann aftur á annan stað samkvæmt reglum 14.2d(2) og 14.2e, eða þegar leikmaðurinn mun taka lausn samkvæmt reglu. Ef boltinn var kyrrstæður, ofan á, undir eða upp við óhreyfanlega hindrun, hluta vallar, vallarmarkahlut eða eitthvað náttúrulegt sem vex eða er fast:
  • Felur „staðsetning“ boltans einnig í sér lóðrétta staðsetningu hans miðað við jörðu.
  • Þetta þýðir að boltann verður að leggja aftur á upphaflegan stað, ofan á, undir eða upp við slíkan hlut.
Ef lausung var fjarlægð við að lyfta boltanum eða hreyfa hann eða áður en boltinn var lagður aftur, þarf ekki að leggja lausungina aftur. Varðandi takmarkanir á að fjarlægja lausung áður en bolti sem hefur verið lyft eða hreyfður er lagður aftur, sjá undantekningu 1 við reglu 15.1a.
14.2d

Hvar leggja á bolta aftur þegar upphafleg lega hefur breyst

Ef lega bolta sem hefur verið lyft eða hefur verið hreyfður og leggja á aftur hefur breyst, verður leikmaðurinn að leggja boltann aftur á þennan hátt: (1) Bolti í sandi. Ef boltinn var í sandi, hvort sem er í glompu eða annars staðar á vellinum:
  • Við að leggja boltann aftur á upphaflegan stað (sem þarf að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2c) verður leikmaðurinn að endurgera upphaflegu leguna að því marki sem það er hægt.
  • Við að endurgera leguna má leikmaðurinn hafa lítinn hluta boltans sýnilegan ef boltinn var hulinn sandi.
Ef leikmaðurinn leikur af réttum stað en endurgerir ekki leguna, í andstöðu við þessa reglu, fær hann almenna vítið (2) Bolti annars staðar en í sandi. Ef boltinn var annars staðar en í sandi verður leikmaðurinn að leggja boltann aftur með því að leggja hann á nálægasta stað í legu sem líkasta upphaflegu legunni, sem er:
  • Innan einnar kylfulengdar frá upphaflega staðnum (sem verður að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2c),
  • Ekki nær holunni, og
  • Á sama svæði vallarins og upphaflegi staðurinn.
Ef leikmaðurinn veit að upphaflegu legunni var breytt en veit ekki hvernig legan var verður leikmaðurinn að áætla upphaflegu leguna og leggja boltann aftur samkvæmt (1) eða (2). Undantekning – Ef lega bolta sem hefur verið lyft breytist á meðan leikur hefur verið stöðvaður, sjá reglu 5.7d.
14.2e

Hvað gera á ef bolti sem hefur verið lagður aftur helst ekki kyrr á upphaflegum stað

Ef leikmaðurinn reynir að leggja bolta aftur en boltinn helst ekki kyrr á upphaflegum stað verður leikmaðurinn að reyna aftur. Ef boltinn helst ekki kyrr á staðnum í annarri tilraun verður leikmaðurinn að leggja boltann aftur, með því að leggja hann á nálægasta stað þar sem boltinn helst kyrr, en með eftirfarandi takmörkunum eftir því hvar upphaflegi staðurinn er:
  • Nálægasti staðurinn má ekki vera nær holunni.
  • Upphaflegur staður á almenna svæðinu. Nálægasti staðurinn verður að vera á almenna svæðinu.
  • Upphaflegur staður í glompu eða á vítasvæði. Nálægasti staðurinn verður að vera í sömu glompu eða á sama vítasvæði.
  • Upphaflegur staður á flötinni. Nálægasti staðurinn verður að vera annaðhvort á flötinni eða á almenna svæðinu.
Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 14.2: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.. Sjá reglur 22.2fjórmenningi má hvor samherji koma fram fyrir hönd liðsins og litið er á athafnir samherjans sem athafnir leikmannsins); 23.5 (í fjórleik má hvor samherji koma fram fyrir hönd liðsins og litið er á athafnir samherjans varðandi bolta eða útbúnað leikmannsins sem athafnir leikmannsins).
14.3

Að láta bolta falla innan lausnarsvæðis

Þessi regla á alltaf við ef leikmaður verður að láta bolta falla þegar hann tekur lausn samkvæmt reglu, þar á meðal þegar leikmaðurinn verður að ljúka lausninni með því að leggja bolta samkvæmt reglu 14.3c(2). Ef leikmaðurinn bætir lausnarsvæðið áður en eða þegar hann lætur bolta falla, sjá reglu 8.1.
14.3a

Nota má upphaflega boltann eða annan bolta

Leikmaðurinn má nota upphaflega boltann eða annan bolta. Þetta merkir að leikmaðurinn má nota hvaða bolta sem er þegar hann lætur bolta falla eða leggur bolta samkvæmt þessari reglu.
14.3b

Láta verður bolta falla á réttan hátt

Leikmaðurinn verður að láta bolta falla á réttan hátt, sem merkir að uppfylla öll skilyrði  í (1), (2) og (3): (1) Leikmaðurinn verður að láta boltann falla. Einungis leikmaðurinn má láta bolta sinn falla. Hvorki kylfuberi hans né neinn annar má gera það. Sjá reglur 25.2h, 25.3c og 25.4a (vegna leikmanna með tilteknar fatlanir leyfir breyting á reglu 14.3b(1) leikmanninum að gefa öðrum einstaklingi almennt leyfi til að láta bolta leikmannsins falla). (2) Boltinn verður að falla beint niður úr hnéhæð án þess að snerta leikmanninn eða útbúnað. Leikmaðurinn verður að sleppa boltanum úr hnéhæð þannig að boltinn:
  • Falli beint niður, án þess að leikmaðurinn kasti boltanum, snúi honum eða noti einhverja aðra hreyfingu sem gæti haft áhrif á hvar boltinn muni stöðvast, og
  • Snerti ekki líkama leikmannsins eða útbúnað áður en boltinn lendir á jörðinni.
„Hnéhæð“ merkir hæð hnés leikmannsins þegar hann stendur uppréttur. Sjá reglu 25.6b (varðandi leiðbeiningar um beitingu reglu 14.3b(2) vegna leikmanna með tilteknar fatlanir). (3) Boltann verður að láta falla innan lausnarsvæðis (eða á línu). Boltann verður að láta falla innan lausnarsvæðisins. Leikmaðurinn má standa innan eða utan lausnarsvæðisins þegar hann lætur boltann falla. En þegar tekin er aftur-á-línu lausn (sjá reglur 16.1c(2), 17.1d(2), 19.2b og 19.3b) verður að láta boltann falla á línuna á stað sem viðkomandi regla heimilar og lausnarsvæðið ákvarðast af staðnum þar sem boltinn er látinn falla. (4) Hvað gera á ef bolti er látinn falla á rangan hátt. Ef bolti er látinn falla á rangan hátt, andstætt einni eða fleiri krafnanna í (1), (2) eða (3):
  • Verður leikmaðurinn að láta bolta falla aftur, á réttan hátt, og engin takmörk eru fyrir því hversu oft leikmaðurinn þarf að gera það.
  • Þegar bolti er látinn falla á rangan hátt telst það ekki sem önnur af tveimur tilraunum sem þarf að láta bolta falla áður en leggja verður bolta samkvæmt reglu 14.3c(2).
Láti leikmaðurinn bolta ekki falla aftur og slær þess í stað högg að boltanum þar sem hann stöðvaðist eftir að hafa verið látinn falla á rangan hátt:
  • Ef boltanum var leikið frá lausnarsvæðinu fær leikmaðurinn eitt vítahögg (en hefur ekki leikið frá röngum stað samkvæmt reglu 14.7a).
  • Hins vegar ef boltanum var leikið utan lausnarsvæðisins eða eftir að hann var lagður þegar hann átti að falla (hvaðan sem honum var leikið), fær leikmaðurinn almenna vítið.
14.3c

Bolti sem er látinn falla á réttan hátt verður að stöðvast innan lausnarsvæðis

Þessi regla á aðeins við þegar bolti hefur verið látinn falla á réttan hátt samkvæmt reglu 14.3b. (1) Leikmaður hefur lokið við að taka lausn þegar bolti sem var látinn falla á réttan hátt stöðvast innan lausnarsvæðis. Boltinn verður að stöðvast innan lausnarsvæðisins. Ekki skiptir máli þótt boltinn snerti einhvern einstakling, útbúnað eða önnur utanaðkomandi áhrif, eftir að boltinn lenti á jörðinni og áður en hann stöðvaðist:
  • Ef boltinn stöðvast innan lausnarsvæðisins hefur leikmaðurinn lokið við að taka lausn og verður að leika boltanum þar sem hann liggur.
  • Ef boltinn stöðvast utan lausnarsvæðisins verður leikmaðurinn að fara að samkvæmt reglu 14.3c(2).
Í báðum tilvikum er það vítalaust fyrir alla leikmenn þótt bolti sem er látinn falla á réttan hátt hitti fyrir slysni einhvern einstakling, útbúnað eða önnur utanaðkomandi áhrif áður en boltinn stöðvast. Undantekning – Þegar bolti sem er látinn falla á réttan hátt er vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður af einhverjum einstaklingi: Varðandi hvað eigi að gera þegar bolti sem hefur verið látinn falla er vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður af einhverjum einstaklingi áður en boltinn stöðvast, sjá reglu 14.3d. (2) Hvað gera á ef bolti sem er látinn falla á réttan hátt stöðvast utan lausnarsvæðis. Ef boltinn stöðvast utan lausnarsvæðisins verður leikmaðurinn að láta bolta falla í annað sinn á réttan hátt. Ef sá bolti stöðvast einnig utan lausnarsvæðisins verður leikmaðurinn að ljúka því að taka lausn með því að leggja bolta samkvæmt aðferð við að leggja bolta aftur í reglum 14.2b(2) og 14.2e:
  • Leikmaðurinn verður að leggja bolta á staðinn þar sem boltinn sem var látinn falla í annað sinn snerti fyrst jörðina.
  • Haldist boltinn sem var lagður ekki á þeim stað verður leikmaðurinn að leggja bolta á þann stað í annað sinn.
  • Ef boltinn sem var lagður í annað sinn helst ekki heldur kyrr á þeim stað verður leikmaðurinn að leggja bolta á nálægasta stað þar sem boltinn helst kyrr, með þeim takmörkunum sem koma fram í reglu 14.2e. Þetta gæti leitt til þess að boltinn sé lagður utan lausnarsvæðisins.
14.3d

Hvað gera á ef bolti sem er látinn falla á réttan hátt er vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður af einstaklingi

Með tilliti til þessarar reglu telst bolti sem hefur verið látinn falla vera „vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður“ ef:
  • Einstaklingur vísvitandi snertir boltann á hreyfingu eftir að boltinn lendir á jörðinni, eða
  • Boltinn hittir einhvern útbúnað eða annan hlut eða einhvern einstakling (svo sem leikmanninn eða kylfubera hans) sem leikmaðurinn staðsetti vísvitandi eða skildi eftir á tilteknum stað svo að útbúnaðurinn, hluturinn eða einstaklingurinn kynni að sveigja boltann úr leið eða stöðva hann.
Þegar bolti sem er látinn falla á réttan hátt er vísvitandi sveigður úr leik eða stöðvaður af einhverjum einstaklingi (hvort sem er innan lausnarsvæðisins eða utan lausnarsvæðisins) áður en boltinn stöðvast:
  • Verður leikmaðurinn að láta bolta falla aftur, samkvæmt aðferðum sem lýst er í reglu 14.3b (sem merkir að boltinn sem var vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður er ekki talinn sem annað af þeim tveimur tilvikum þegar láta þarf bolta falla áður en leggja verður boltann samkvæmt reglu 14.3c(2)).
  • Ef boltinn var vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður af einhverjum leikmanni eða kylfubera hans fær sá leikmaður almenna vítið.
Undantekning – Þegar engar raunhæfar líkur eru á að bolti muni stöðvast innan lausnarsvæðis: Ef bolti sem er látinn falla á réttan hátt er vísvitandi sveigður úr leið eða stöðvaður (hvort sem er innan lausnarsvæðisins eða utan lausnarsvæðisins ) þegar engar raunhæfar líkur eru á að boltinn muni stöðvast innan lausnarsvæðisins:
  • Er það vítalaust gagnvart öllum leikmönnum, og
  • Litið er svo á að boltinn sem var látinn falla hafi stöðvast utan lausnarsvæðisins og tilraunin gildir sem önnur af tveimur tilraunum til að láta bolta falla áður en leggja verður bolta samkvæmt reglu 14.3c(2).
Víti fyrir að leika bolta af röngum stað eða að leika bolta sem var lagður í stað þess að vera látinn falla, andstætt reglu 14.3: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.  Sjá reglur 22.2 fjórmenningi má hvor samherji koma fram fyrir hönd liðsins og litið er á athafnir samherjans sem athafnir leikmannsins); 23.5 (í fjórleik má hvor samherji koma fram fyrir hönd liðsins og litið er á athafnir samherjans varðandi bolta eða útbúnað leikmannsins sem athafnir leikmannsins).
14.4

Hvenær bolti er aftur í leik eftir að upphaflegi boltinn var ekki lengur í leik

Þegar bolta í leik hefur verið lyft á vellinum eða boltinn er týndur eða út af er boltinn ekki lengur í leik. Boltinn verður því aðeins aftur í leik ef:
  • Leikmaðurinn leikur upphaflega boltanum eða öðrum bolta frá teignum, eða
  • Upphaflegi boltinn eða annar bolti er lagður aftur, látinn falla eða lagður á völlinn, í þeim tilgangi að setja boltann í leik.
Ef bolti er settur á völlinn á einhvern hátt í þeim tilgangi að boltinn verði í leik er boltinn í leik jafnvel þótt:
  • Skipt hafi verið um bolta þegar reglurnar leyfa það ekki, eða
  • Boltinn hafi verið lagður aftur, látinn falla eða lagður (1) á röngum stað, (2) á rangan hátt eða (3) með aðferð sem átti ekki við.
Bolti sem hefur verið lagður aftur er í leik jafnvel þótt boltamerkið sem merkir staðsetningu boltans hafi ekki verið fjarlægt.
14.5

Að leiðrétta mistök við að skipta um bolta, leggja aftur, láta falla eða leggja

14.5a

Leikmaður má lyfta bolta til að leiðrétta mistök, áður en boltanum er leikið

Ef leikmaður hefur skipt upphaflega boltanum út fyrir annan bolta þegar það er ekki leyfilegt samkvæmt reglunum eða bolti leikmannsins í leik var lagður aftur, látinn falla eða lagður (1) á rangan hátt, (2) á röngum stað eða (3) með aðferð sem átti ekki við:
  • Má leikmaðurinn lyfta boltanum vítalaust og leiðrétta mistökin.
  • Þó er þetta einungis leyfilegt áður en boltanum er leikið.
14.5b

Hvenær leikmaður má skipta um reglu eða lausnaraðferð þegar hann leiðréttir mistök við að taka lausn

Hvort leikmaðurinn verði að nota sömu reglu og sömu lausnaraðferð þegar hann leiðréttir mistök við að taka lausn eða hvort hann megi nota aðra reglu eða lausnaraðferð ræðst af eðli mistakanna: (1) Þegar bolti var settur í leik samkvæmt reglu sem átti við og var látinn falla eða lagður á réttum stað en reglan krefst þess að boltinn sé látinn falla aftur eða sé lagður aftur.
  • Við að leiðrétta þessi mistök verður leikmaðurinn að taka lausn samkvæmt sömu reglu og sömu lausnaraðferð í þeirri reglu.
  • Til dæmis, ef leikmaðurinn tekur lausn vegna ósláanlegs bolta, notar við það hliðarlausn (regla 19.2c) og boltinn var látinn falla á réttu lausnarsvæði en (1) var látinn falla á rangan hátt (sjá reglu 14.3b), eða (2)  boltinn stöðvaðist utan lausnarsvæðisins (sjá reglu 14.3c), verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin með því að taka áfram lausn samkvæmt reglu 19.2 og verður að nota sömu lausnaraðferð (hliðarlausn samkvæmt reglu 19.2c).
(2) Þegar bolti var settur í leik samkvæmt reglu sem átti við aðstæðurnar, en boltinn var látinn falla eða lagður á röngum stað.
  • Við að leiðrétta þessi mistök verður leikmaðurinn að taka lausn samkvæmt sömu reglu en má nota hvaða lausnaraðferð samkvæmt þeirri reglu sem á við um aðstæður hans.
  • Til dæmis, ef leikmaðurinn tekur lausn vegna ósláanlegs bolta og notar hliðarlausn (regla 19.2c) og lét boltann óvart falla utan rétts lausnarsvæðis, verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin með því að taka áfram lausn samkvæmt reglu 19.2, en má nota hvaða lausnaraðferð sem er í þeirri reglu.
(3) Þegar bolti var settur í leik samkvæmt reglu sem átti ekki við.
  • Við að leiðrétta þessi mistök má leikmaðurinn nota hvaða reglu sem er sem á við um aðstæður hans.
  • Til dæmis, ef leikmaðurinn tekur óvart ósláanlega lausn vegna bolta síns á vítasvæði (sem regla 19.1 heimilar ekki), verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin með því að leggja boltann aftur samkvæmt reglu 9.4 (ef boltanum hafði verið lyft) eða taka lausn gegn víti samkvæmt reglu 17 og má nota hvaða lausnaraðferð samkvæmt þeirri reglu sem á við um aðstæður hans.
14.5c

Ekkert víti fyrir athafnir sem tengjast upphaflega boltanum og framkvæmdar eftir mistök

Þegar leikmaður leiðréttir mistök samkvæmt reglu 14.5a fær leikmaðurinn ekkert víti fyrir athafnir sem voru framkvæmdar eftir mistökin og tengjast beinlínis upphaflega boltanum, svo sem að valda því fyrir slysni að boltinn hreyfist (sjá reglu 9.4b) eða að bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið með upphaflega boltanum (sjá reglu 8.1a). Hins vegar, ef þessar sömu athafnir hefðu einnig leitt til vítis vegna boltans sem var settur í leik til að leiðrétta mistökin (svo sem þegar þessar athafnir bættu aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið með boltanum sem nú er í leik) nær vítið til boltans sem nú er í leik Undantekning – Víti fyrir að vísvitandi sveigja úr leiða eða stöðva bolta sem hefur verið látinn falla: Í höggleik, ef leikmaður fær almenna vítið fyrir að vísvitandi sveigja úr leið eða stöðva bolta sinn sem var látinn falla samkvæmt reglu 14.3d, losnar leikmaðurinn ekki undan því víti jafnvel þótt hann láti boltann falla aftur samkvæmt aðferðunum í reglu 14.3b
14.6

Að slá næsta högg þaðan sem síðasta högg var slegið

Þessi regla á við hvenær sem leikmaður verður eða má samkvæmt reglunum slá næsta högg þaðan sem síðasta högg var slegið (til dæmis við að taka fjarlægðarlausn, eða við að leika aftur eftir að högg hefur verið afturkallað eða það gildir ekki af öðrum ástæðum).
  • Hvernig leikmaðurinn verður að setja bolta í leik fer eftir því á hvaða svæði vallarins síðasta högg var slegið.
  • Undir öllum þessum kringumstæðum má leikmaðurinn nota annaðhvort upphaflega boltann eða annan bolta.
14.6a

Síðasta högg slegið af teignum

Leika verður upphaflega boltanum eða öðrum bolta einhvers staðar innan teigsins (og boltann má tía) samkvæmt reglu 6.2b.
14.6b

Síðasta högg slegið af almenna svæðinu, af vítasvæði eða úr glompu

Láta verður upphaflega boltann eða annan bolta falla á þessu lausnarsvæði (sjá reglu 14.3):
  • Viðmiðunarstaður: Staðurinn þar sem síðasta högg var slegið (sem verður að áætla ef hann er óþekktur).
  • Stærð lausnarsvæðisins, mæld frá viðmiðunarstað: Ein kylfulengd, þó með eftirfarandi takmörkunum:
  • Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
    • Það verður að vera á sama svæði vallarins og viðmiðunarstaðurinn, og
    • Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn.
14.6c

Síðasta högg slegið af flötinni

Leggja verður upphaflega boltann eða annan bolta á staðinn þar sem síðasta högg var slegið (staðinn þarf að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2), með þeim aðferðum við að leggja bolta aftur sem lýst er í reglum 14.2b(2) og 14.2e. Víti fyrir að leika bolta frá  röngum stað andstætt reglu 14.6: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
14.7

Leikið af röngum stað

14.7a

Staður þar sem leika verður boltanum

Eftir að hafa byrjað leik á holu:
  • Verður leikmaður að slá hvert högg þaðan sem bolti hans stöðvaðist, nema þegar reglurnar krefjast þess eða leyfa að leikmaðurinn leiki bolta af öðrum stað (sjá reglu 9.1).
  • Leikmaður má ekki leika bolta sínum í leik af röngum stað.
Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 14.7a: Almennt víti.
14.7b

Hvernig ljúka á holu eftir að hafa leikið af röngum stað í höggleik

(1) Leikmaður verður að ákveða hvort hann lýkur holunni með boltanum sem var leikið af röngum stað eða leiðréttir mistökin með því að leika af réttum stað. Næstu skref leikmannsins ráðast af því hvort um var að ræða alvarlegt brot, það er hvort leikmaðurinn gæti hafa hagnast umtalsvert á að leika af röngum stað:
  • Ekki alvarlegt brot. Leikmaðurinn verður að ljúka holunni með boltanum sem hann lék af röngum stað, án þess að leiðrétta mistökin.
  • Alvarlegt brot.
    • Leikmaðurinn verður að leiðrétta mistökin með því að ljúka holunni með bolta sem er leikið af réttum stað samkvæmt reglunum.
    • Ef leikmaðurinn leiðréttir ekki mistökin áður en hann slær högg til að hefja leik á annarri holu eða, ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en hann skilar skorkorti sínu, fær leikmaðurinn frávísun.
  • Hvað gera á ef óvíst er hvort brot er alvarlegt. Leikmaðurinn ætti að ljúka holunni bæði með boltanum sem var leikið af röngum stað og öðrum bolta sem er leikið af réttum stað samkvæmt reglunum.
(2) Leikmaður sem leikur tveimur boltum verður að tilkynna það nefndinni. Ef leikmaðurinn er óviss hvort um alvarlegt brot var að ræða við að leika frá röngum stað og ákveður að leika öðrum bolta til að reyna að leiðrétta mistökin:
  • Verður leikmaðurinn að tilkynna það nefndinni áður en hann skilar skorkortinu.
  • Þetta á við hvort sem leikmaðurinn telur sig hafa fengið sama skor með báðum boltunum eða hann, eftir að hafa ákveðið að leika tveimur boltum, ákvað að ljúka ekki holunni með báðum boltunum. 
Tilkynni leikmaðurinn þetta ekki til nefndarinnar fær hann frávísun. (3) Þegar leikmaður lék tveimur boltum mun nefndin ákvarða skor leikmannsins á holunni. Skor leikmannsins á holunni ræðst af því hvort nefndin ákvarðar að leikur upphaflega boltans frá röngum stað hafi falið í sér alvarlegt brot:
  • Ekki alvarlegt brot.
    • Skorið með boltanum sem var leikið af röngum stað gildir og leikmaðurinn fær almenna vítið samkvæmt reglu 14.7a (sem þýðir að tveimur vítahöggum er bætt við skorið með þeim bolta).
    • Öllum höggum með hinum boltanum er sleppt (þ.e. slegnum höggum og öllum vítahöggum sem orsökuðust beinlínis af leik þess bolta).
  • Alvarlegt brot.
    • Skorið með boltaum sem var leikið til að leiðrétta mistökin við að leika af röngum stað gildir og leikmaðurinn fær almenna vítið samkvæmt reglu  14.7a (sem þýðir að tveimur vítahöggum er bætt við skorið með þeim bolta).
    • Högginu sem var slegið við að leika upphaflega boltanum af röngum stað og öllum síðari höggum við að leika þeim bolta er sleppt (þ.e. slegnum höggum og öllum vítahöggum sem orsökuðust beinlínis af leik þess bolta).
    • Ef boltanum sem var leikið til að leiðrétta mistökin var einnig leikið af röngum stað:
      • Ef nefndin ákvarðar að þetta hafi ekki verið alvarlegt brot fær leikmaðurinn almenna vítið (tvö vítahögg til viðbótar) samkvæmt reglu 14.7a, sem þýðir að samtals fjórum vítahöggum er bætt við skorið með þeim bolta (tveimur fyrir að leika upphaflega boltanum af röngum stað og tveimur fyrir að leika hinum boltanum af röngum stað).
      • Ef nefndin ákvarðar að þetta hafi verið alvarlegt brot, fær leikmaðurinn frávísun.
SKOÐA FLEIRA
Regla 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Lesa meira