Ferli vegna bolta: Að merkja, lyfta, hreinsa og leggja aftur. Að láta falla innan lausnarsvæðis. Leikið af röngum stað
Tilgangur reglu: Regla 14 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má merkja staðsetningu kyrrstæðs bolta, lyfta boltanum og hreinsa hann og hvernig eigi að setja boltann aftur í leik þannig að honum verði leikið af réttum stað.
Þegar leggja á aftur bolta sem hefur verið lyft eða verið hreyfður verður að leggja sama boltann aftur á upphaflegan stað.
Þegar tekin er lausn, með eða án vítis, verður að láta skiptibolta eða upphaflega boltann falla á tilteknu lausnarsvæði.
Mistök við beitingu þessara aðferða má leiðrétta vítalaust áður en boltanum er leikið, en leikmaðurinn fær víti ef hann leikur boltanum af röngum stað.
14
Ferli vegna bolta: Að merkja, lyfta, hreinsa og leggja aftur. Að láta falla innan lausnarsvæðis. Leikið af röngum stað
14.1
Að merkja, lyfta og hreinsa bolta
14.1a/1
Að merkja boltann á réttan hátt
Í reglu 14.1a er orðalagið „rétt aftan við“ og „rétt við“ notað til að tryggja að staðsetning bolta sem hefur verið lyft sé merkt af fullnægjandi nákvæmni svo leikmaðurinn geti lagt boltann aftur á réttan stað.Merkja má staðsetningu bolta hvar sem er umhverfis boltann svo fremi að merkt sé rétt við hann. Það þýðir að leggja má boltamerkið rétt fyrir framan eða til hliðar við boltann.
14.1c/1
Leikmenn verða að fara varlega þegar ekki má hreinsa bolta sem er lyft
Þegar leikmaður beitir einni af fjórum reglum innan reglu 14.1c þar sem hreinsun er ekki leyfð ætti leikmaðurinn að forðast tilteknar athafnir, því athöfnin sjálf getur leitt til þess að boltinn hreinsist, þótt ekki sé ætlunin að hreinsa neitt.Til dæmis ef leikmaður lyftir bolta sínum sem gras eða annað loðir við og kastar boltanum til kylfubera síns sem grípur boltann með handklæði er líklegt að eitthvað af grasi eða öðru efni losni af boltanum, sem felur í sér að boltinn hefur hreinsast. Á sama hátt ef leikmaðurinn setur boltann í vasann eða kastar honum á jörðina geta slíkar athafnir valdið því að gras eða annað efni losni af boltanum, þannig að boltinn hreinsist.Hins vegar, ef leikmaðurinn gerir þetta eftir að hafa lyft bolta sem vitað var að var hreinn áður en honum var lyft fær leikmaðurinn ekki víti, því boltinn var ekki hreinsaður.
14.1c/2
Hvenær hreinsa má hreyfðan bolta
Þegar hreyfðum bolta hefur verið lyft þar sem reglurnar krefjast þess að hann sé lagður aftur, má alltaf hreinsa boltann nema í þeim fjórum tilfellum sem lýst er í reglu 14.1c.Til dæmis, ef bolti leikmanns hefur stöðvast upp við hreyfanlega hindrun og boltinn hreyfist þegar hreyfanlega hindrunina er fjarlægð, þá verður leikmaðurinn að leggja boltann aftur á upphaflega staðinn (regla 15.2a(1)) og má hreinsa boltann áður en hann gerir það. (Nýtt)
14.2
Að leggja bolta aftur á ákveðinn stað
14.2b(2)/1
Leikmaður lætur bolta falla þegar leggja á boltann aftur
Ef leikmaður lætur bolta falla þegar reglurnar krefjast þess að boltinn sé lagður aftur hefur boltinn verið lagður aftur á rangan hátt. Ef leikmaðurinn leggur boltann aftur á rangan hátt, en á réttan stað (þar á meðal ef leikmaðurinn lætur boltann falla og boltinn stöðvast á réttum stað) fær leikmaðurinn eitt högg í víti ef boltanum er leikið án þess að mistökin séu leiðrétt samkvæmt reglu 14.5 (Leiðrétta mistök við að skipta um bolta, leggja bolta aftur eða leggja bolta).Hins vegar, ef leikmaðurinn hefur látið bolta falla og boltinn stöðvast annars staðar en á réttum stað fær leikmaðurinn almenna vítið fyrir að leika af röngum stað, ef boltanum er leikið án þess að mistökin séu leiðrétt.Til dæmis í höggleikhreyfir leikmaður bolta sinn við leit og á að leggja boltann aftur, vítalaust. Í stað þess að leggja boltann aftur á upphaflegan eða áætlaðan stað lætur leikmaðurinn boltann falla á þann stað, boltinn skoppar og stöðvast annars staðar. Leikmaðurinn leikur boltanum þaðan. Leikmaðurinn hefur lagt boltann aftur á rangan hátt og hefur einnig leikið af röngum stað. Leikmaðurinn fær einungis tvö vítahögg, þar sem atburðarásin hefur ekki verið rofin (sjá reglu 1.3c(4)).
14.2c/1
Leggja má bolta aftur í svo til hvaða átt sem er
Þegar bolti sem hefur verið lyft er lagður aftur á tiltekinn stað er það staðurinn einn sem skiptir máli m.t.t. reglnanna. Snúa má boltanum hvernig sem er þegar hann er lagður aftur (svo sem að vísa merki í tiltekna átt) svo fremi að lóðrétt fjarlægð boltans frá jörðu sé óbreytt.Til dæmis, þegar farið er eftir reglu sem leyfir ekki að boltinn sé hreinsaður lyftir leikmaðurinn bolta sínum og moldarklessa loðir við boltann. Snúa má boltanum hvernig sem er þegar hann er lagður aftur á upphaflegan stað (svo sem þannig að moldin snúi að holunni).Hins vegar má leikmaðurinn ekki leggja boltann aftur þannig að boltinn hvíli á moldinni, nema boltinn hafi legið þannig áður. „Staðsetning“ boltans felur í sér lóðrétta staðsetningu miðað við jörðu.
14.2c/2
Að fjarlægja lausung frá staðnum þar sem leggja á bolta aftur
Samkvæmt undantekningu 1 við reglu 15.1a er skýrt að áður en bolti er lagður aftur má leikmaðurinn ekki fjarlægja lausung sem, ef hún væri fjarlægð þegar boltinn var kyrrstæður, myndi líklega valda því að boltinn hreyfðist. Þó eru aðstæður þar sem hreyfa má lausung, annaðhvort þegar boltanum er lyft eða áður en hann er lagður aftur. Þá þarf leikmaðurinn ekki að setja lausungina aftur á fyrri stað áður en eða eftir að boltinn er lagður aftur.Til dæmis:
Leikmaður merkir og lyftir bolta sínum á almenna svæðinu eftir að hafa verið beðinn um það því boltinn truflar leik annars leikmanns. Við að lyfta boltanum hreyfist lítil trjágrein sem lá upp að boltanum. Leikmaðurinn þarf ekki að færa greinina til baka þegar hann leggur boltann aftur.
Leikmaður merkir og lyftir bolta sínum í glompu til að athuga hvort boltinn er skorinn. Við að lyfta boltanum fýkur laufblað sem hafði legið rétt aftan við boltamerkið. Leikmaðurinn þarf ekki að færa laufblaðið til baka þegar hann leggur boltann aftur.
14.2c/3
Bolta skal ekki ýtt niður í jörðina þegar hann er lagður aftur
Þegar leggja á bolta aftur, verður að leggja boltann aftur á upphaflegan stað. Upphaflegi staðurinn inniheldur líka lóðrétta staðsetningu boltans áður en honum var lyft eða hann hreyfður. Ef boltinn helst ekki kyrr þegar tilraun er gerð til að leggja hann aftur, verður leikmaðurinn að fylgja ferlinu í reglu 14.2e (Hvað á að gera ef bolti sem hefur verið lagður aftur helst ekki kyrr á upphaflegum stað) frekar en að ýta boltanum niður í jörðina.Til dæmis stöðvast bolti leikmanns upp við hreyfanlega hindrun í niðurhalla í glompu. Ef boltinn hreyfist við að fjarlægja hindrunina, verður að leggja boltann aftur. Ef boltinn tollir ekki á upphaflega staðnum, verður leikmaðurinn að leggja boltann á nálægasta stað í glompunni þar sem boltinn helst kyrr, þó ekki nær holunni. Ef í staðinn, leikmaðurinn ýtir boltanum niður í sandinn, hefur leikmaðurinn lagt boltann aftur á röngum stað (regla 14.7) og hefur breytt legu boltans (regla 14.2d) og verður að leiðrétta mistökin með því að lyfta boltanum (regla 14.5b(2)), endurgera upphaflegu leguna og leggja boltann aftur samkvæmt reglurm 14.2c og 14.2e. (Nýtt)
14.2d(2)/1
Breytt lega kann að vera „nálægasti staður með líkastri legu“
Ef lega bolta leikmanns hefur breyst þegar bolta hans er lyft eða hann hreyfður og leggja á boltann aftur er hugsanlegt að breytta legan sé nálægasti staðurinn með legu sem er líkust upphaflegu legunni og leikmaðurinn kann að þurfa að leika úr breyttu legunni.Til dæmis stöðvast bolti leikmanns í kylfufari á brautinni. Vegna misskilnings leikur annar leikmaður boltanum og myndar við það dýpra kylfufar. Ef engin slík kylfuför sem líkjast upphaflegu legunni eru innan einnar kylfulengdar myndi sú lega sem er líkust upphaflegu legunni vera dýpra kylfufarið.
14.2e/1
Leikmaður verður að taka lausn gegn víti þegar staðurinn þar sem boltinn tollir er nær holunni
Þegar reglu 14.2e er fylgt kann að vera að eini staðurinn á sama svæði vallarins, þar sem boltinn tollir kyrr þegar hann er lagður sé nær holunni. Undir slíkum kringumstæðum verður leikmaðurinn að taka lausn gegn víti samkvæmt viðeigandi reglu.Leikmaðurinn má ekki þrýsta boltanum niður til að hann tolli á staðnum (sjá skýringar 14.2c/3).Til dæmis stöðvast bolti leikmanns upp við hrífu í niðurhalla í glompu og boltinn hreyfist þegar hrífan er fjarlægð. Leikmaðurinn reynir að leggja boltann aftur eins og hann á að gera en boltinn tollir ekki á staðnum. Leikmaðurinn fer þá að samkvæmt reglu 14.2e án árangurs og sér að það eru engir aðrir staðir í glompunni sem eru ekki nær holunni.Í þessu tilviki verður leikmaðurinn að taka lausn vegna ósláanlegs bolta, annaðhvort með fjarlægðarlausn gegn einu vítahöggi (regla 19.2a) eða aftur-á-línu lausn utan glompunnar gegn tveimur vítahöggum (regla 19.3b).
14.3
Að láta bolta falla innan lausnarsvæðis
14.3b(2)/1
Bolti látinn falla úr hnéhæð á óslétt svæði
Samkvæmt reglu 14.3b(2) og skilgreiningunni á að „falla“ þarf leikmaður að láta bolta falla úr hæð sem samsvarar hnéhæð leikmannsins þegar hann stendur uppréttur.Þegar jörðin á og umhverfis staðinn sem boltinn er látinn falla er ójöfn, mun fjarlægðin frá hné ráðast af því hvar leikmaðurinn stendur þegar hann lætur boltann falla.Að því gefnu að boltinn falli vegalengd sem samsvarar hnéhæð leikmannsins frá staðnum sem leikmaðurinn hefði getað staðið á þegar hann lætur boltann falla, hefur boltinn verið látinn falla úr hnéhæð.En boltinn verður alltaf að falla úr hæð til þess að hafa fallið og ekki vera lagður.
DIAGRAM 14.3b(2)/1 - BALL DROPPED FROM KNEE-HEIGHT IN UNEVEN AREA
In both situations the player is dropping at “knee height” as required by Rule 14.3b(2) even though the player appears to be dropping from a location above or below knee height.
This can occur when the player is taking relief in a location where the ground is uneven, and they could have dropped the ball from that height if they were standing in a different location, as is shown by their outline.
14.3b(4)/1
Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a
Í tengslum við síðasta lið reglu 14.3b(4), ef leikmaður fær almennt víti fyrir að slá högg án þess að leiðrétta mistök, á almenna vítið við samkvæmt reglu 14.7a fyrir að hafa leikið af röngum stað.Til dæmis, þegar tekin er aftur á línu lausn, leikmaður lætur bolta falla nærri kylfulengdar til hliðar við línuna. Boltinn er á röngum stað óháð því hvar hann stöðvaðist, jafnvel þó hann stöðvist á línunni. Boltann verður að láta falla aftur til að forðast refsingu samkvæmt reglu 14.7a.Í höggleik, ef leikmaður slær högg frá röngum stað, verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin ef leikið frá röngum stað telst alvarlegt brot. (Bætt við í apríl 2023)
14.3c/1
Allt sem er innan lausnarsvæðisins telst til lausnarsvæðisins
Til lausnarsvæðis leikmanns telst hátt gras, runnar eða annar gróður sem vex þar. Ef bolti leikmannsins stöðvast í slæmri legu innan lausnarsvæðisins eftir að hafa verið látinn falla er boltinn samt sem áður innan lausnarsvæðisins.Til dæmis lætur leikmaður bolta sinn falla á réttan hátt og boltinn stöðvast í runna innan lausnarsvæðisins. Runninn er hluti lausnarsvæðisins og þess vegna er boltinn í leik og leikmaðurinn má ekki láta boltann falla aftur samkvæmt reglu 14.3.
14.3c/2
Láta má bolta falla innan bannreits
Við að láta bolta falla samkvæmt lausnarreglu má leikmaðurinn láta bolta falla innan bannreits, svo fremi að bannreiturinn sé innan lausnarsvæðisins. Hins vegar verður leikmaðurinn að því loknu að taka lausn samkvæmt viðeigandi reglu.Til dæmis má leikmaður taka lausn frá vítasvæði og láta bolta falla innan bannreits í óeðlilegum vallaraðstæðum. Eftir að boltinn er látinn falla og hann stöðvast innan lausnarsvæðisins, eins og þarf samkvæmt reglu 17 (Lausn frá vítasvæðum), verður leikmaðurinn að taka lausn samkvæmt reglu 16.1f.
14.3c(1)/1
Hvað gera á þegar bolti sem hefur verið látinn falla hreyfist eftir að hafa stöðvast við fót eða útbúnað leikmannsins
Leikmaður lætur bolta falla á réttan hátt en boltinn stöðvast fyrir slysni við fót eða útbúnað leikmannsins (til dæmis við tí sem afmarkar lausnarsvæðið) og boltinn stöðvast innan lausnarsvæðisins. Þetta er vítalaust, leikmaðurinn hefur lokið við að taka lausn og verður að leika boltanum þar sem hann liggur.Ef boltinn hreyfist síðan þegar leikmaðurinn hreyfir fót sinn eða útbúnað verður leikmaðurinn að leggja boltann aftur samkvæmt reglu 9.4 en fær ekki víti því hreyfing boltans orsakaðist af eðlilegum athöfnum við að taka lausn samkvæmt reglu (sjá undantekningu 4 við reglu 9.4 - Hreyfing fyrir slysni við að framfylgja reglu, hvar sem er nema á flötinni).
14.3c(2)/1
Hvar leggja á bolta sem hefur verið látinn falla tvisvar innan lausnarsvæðis sem hefur að geyma runna
Ef leikmaður verður að ljúka ferlinu við að láta bolta falla með því að leggja boltann samkvæmt reglum 14.2b(2) og 14.2e getur það endað með að leikmaðurinn reyni að leggja boltann annars staðar en á jörðinni þar sem lausnarsvæði leikmannsins innheldur gras, runna og aðra gróna hluti (sjá skýringar 14.3c/1).Til dæmis lætur leikmaður bolta falla inn í runna innan lausnarsvæðisins og í bæði skiptin sem hann lætur boltann falla stöðvast boltinn utan lausnarsvæðisins. Samkvæmt reglu 14.3c(2) verður leikmaðurinn nú að leggja boltann á staðinn þar sem hann snerti fyrst jörðina eftir að hafa verið látinn falla í annað sinn. Ef boltinn snerti fyrst runnann þegar boltinn var látinn falla í annað sinn felur orðið „jörð“ einnig í sér runnann og leikmaðurinn verður að reyna að leggja boltann þar sem hann snerti fyrst runnann. Hins vegar, ef boltinn tollir ekki á þeim stað eftir tvær tilraunir verður leikmaðurinn að leggja boltann á nálægasta stað þar sem hann tollir, þó ekki nær holunni, samkvæmt þeim takmörkunum sem koma fram í reglu 14.2e.
14.4
Hvenær bolti er aftur í leik eftir að upphaflegi boltinn var ekki lengur í leik
14.4/1
Bolti sem er lagður er ekki í leik nema það hafi verið ætlunin
Þegar bolti er lagður eða lagður aftur á jörðina verður að ákvarða hvort það var gert í þeim tilgangi að setja boltann aftur í leik.Til dæmis merkir leikmaðurinn legu boltans á flötinni með því að leggja smámynt rétt aftan boltann, lyftir boltanum og réttir hann kylfubera sínum til að hreinsa hann. Kylfuberinn leggur boltann svo rétt aftan við eða rétt til hliðar við smámyntina (ekki á upphaflega staðsetningu boltans) til að aðstoða leikmanninn við að lesa leiklínuna frá stað hinum megin við holuna. Boltinn er ekki í leik þar sem kylfuberinn lagði hann ekki niður í þeim tilgangi að boltinn væri í leik.Í þessu tilfelli er boltinn ekki í leik fyrr en hann er settur aftur niður í þeim tilgangi að leggja hann aftur eins og regla 14.2 krefst. Ef leikmaðurinn slær högg að boltanum áður en boltinn verður í leik er leikmaðurinn að leika röngum bolta.
14.4/2
Ekki má láta bolta falla í tilraunaskyni
Aðferðin í reglu 14.3 við að láta bolta falla felur í sér að ákveðin óvissa er fyrir hendi þegar tekin er lausn samkvæmt reglu. Það er ekki í anda leiksins að prófa hvar bolti sem væri látinn falla myndi stöðvast.Til dæmis, við að taka lausn frá göngustíg (óhreyfanlegri hindrun) ákvarðar leikmaður lausnarsvæði sitt og áttar sig þá á að boltinn kynni að rúlla og stöðvast í runna innan lausnarsvæðisins. Þar sem hann veit að boltinn er ekki í leik nema boltinn sé látinn falla í þeim tilgangi að hann verði í leik prófar leikmaðurinn að láta bolta falla innan lausnarsvæðisins til að sjá hvort hann rúlli inn í runnann.Þar sem þetta er gegn anda leiksins er réttlætanlegt að nefndin veiti leikmanninum frávísun samkvæmt reglu 1.2a (Alvarlegar misgjörðir).
14.5
Að leiðrétta mistök við að skipta um bolta, leggja aftur, láta falla eða leggja
14.5b(1)/1
Leikmaður má breyta um lausnarsvæði þegar hann lætur bolta falla aftur vegna aftur-á-línu lausnar
Þegar leikmaður þarf að láta bolta falla öðru sinni eftir að hafa notað aftur-á-línu lausn samkvæmt reglu 16.1c(2) (Lausn vegna óeðlilegra vallaraðstæðna), reglu 17.1d(2) (Lausn vegna vítasvæða), eða reglu 19.2b eða reglu 19.3b (Lausn vegna ósláanlegs bolta), þarf hann að láta bolta falla aftur samkvæmt aftur-á-línu lausninni í viðeigandi reglu. Hins vegar, þegar hann lætur bolta falla í annað sinn má leikmaðurinn breyta viðmiðunarstöðum þar sem boltinn er látinn falla þannig að lausnarsvæðið sé nær eða fjær holunni.Til dæmis stöðvast bolti leikmanns innan vítasvæðis og hann velur að taka aftur-á-línu lausn. Leikmaðurinn velur viðmiðunarstað og lætur boltann falla á réttan hátt. Boltinn rúllar út fyrir lausnarsvæðið. Þegar leikmaðurinn lætur bolta falla aftur samkvæmt aftur-á-línu lausninni má hann láta boltann falla á annan stað á línunni sem er nær eða fjær holunni og lausnarsvæðið breytist miðað við þann stað.
14.5b(1)/2
Leikmaður má nota annað svæði vallarins innan lausnarsvæðis þegar hann lætur bolta falla aftur
Þegar lausnarsvæði leikmanns nær yfir fleiri en eitt svæði vallarins og hann þarf að láta bolta falla aftur samkvæmt einhverri lausnaraðferð má leikmaðurinn láta bolta falla á öðru svæði vallarins innan sama lausnarsvæðisins, en með því að gera það breyta ekki hvernig regla 14.3c er beitt.Til dæmis velur leikmaður að taka lausn vegna ósláanlegs bolta samkvæmt reglu 19.2c (Hliðarlausn), og lausnarsvæði hans er að hluta innan almenna svæðisins og að hluta innan glompu. Þegar leikmaðurinn lætur bolta falla snertir boltinn fyrst glompuna innan lausnarsvæðisins og stöðvast á almenna svæðinu eða utan alls lausnarsvæðisins, þannig að leikmaðurinn verður að láta bolta falla aftur. Þegar hann gerir það má hann láta boltann falla á almenna svæðinu, innan lausnarsvæðisins.
14.7
Leikið af röngum stað
14.7b/1
Leikmaður fær víti fyrir hvert högg sem er slegið af svæði þar sem leikur er bannaður
Þegar bolti leikmanns stöðvast á svæði þar sem leikur er ekki heimill verður leikmaðurinn að taka lausn samkvæmt viðeigandi reglu. Í höggleik, ef leikmaðurinn leikur boltanum frá þessu svæði (svo sem af bannreit eða rangri flöt) fær hann tvö vítahögg fyrir hvert högg sem hann slær frá þessu svæði.Til dæmis stöðvast bolti leikmanns á bannreit innan vítasvæðis. Leikmaðurinn fer inn á bannreitinn og slær högg að boltanum. Boltinn hreyfist aðeins nokkra metra og er enn innan bannreitsins. Leikmaðurinn slær þá annað högg að boltanum og boltinn stöðvast utan bannreitsins.Hvert högg gildir og leikmaðurinn fær almenna vítið samkvæmt reglu 14.7 fyrir að leika af röngum stað fyrir hvert högg sem hann sló frá bannreitnum, eða samtals fjögur vítahögg. Leikmaðurinn þarf að ljúka holunni með boltanum sem var leikið frá bannreitnum, nema um alvarlegt brot hafi verið að ræða. Ef um alvarlegt brot var að ræða verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin (sjá reglu 14.7b).
14.7b/2
Bolti er á röngum stað ef kylfan hittir aðstæður sem verið er að taka lausn frá
Þegar leikmaður tekur lausn vegna truflunar frá óeðlilegum vallaraðstæðum þarf hann að taka lausn frá allri truflun vegna þeirra aðstæðna. Ef boltinn er látinn fallainnan lausnarsvæðisins og stöðvast á einhverjum stað, þar sem leikmaðurinn hefur einhvers konar truflun frá þessum aðstæðum miðað við að höggið hefði verið leikið frá upphaflegum stað hefðu aðstæðurnar ekki verið fyrir hendi, er boltinn á röngum stað.Til dæmis stöðvast bolti leikmanns á göngustíg og leikmaðurinn ákveður að taka lausn. Hann ákvarðar nálægasta stað fyrir fulla lausn með kylfunni sem hann hefði notað við að leika boltanum af göngustígnum. Eftir að hafa mælt lausnarsvæðið frá þessum stað, lætur leikmaðurinn bolta falla og boltinn stöðvast á stað sem leikmaðurinn taldi vera innan lausnarsvæðisins. Leikmaðurinn slær síðan högg og slær í göngustiginn í högginu. Þar sem göngustígurinn var á svæði fyrirhugaðrar sveiflu leikmannsins hafði leikmaðurinn enn truflun. Þess vegna ákvarðaði hann ekki rétt lausnarsvæði og fær almenna vítið fyrir að leika af röngum stað.Hins vegar, ef leikmaðurinn hafði truflun frá aðstæðunum vegna þess til dæmis að hann ákvað að leika í aðra átt eða að hann rann til í högginu og sveiflan breyttist við það væri ekki litið svo á að hann hafi leikið af röngum stað.