Prenta hluta
10
Að undirbúa og slá högg. Ráðlegging og aðstoð. Kylfuberar
Tilgangur reglu: Regla 10 fjallar um hvernig eigi að undirbúa og slá högg, þar á meðal um ráðleggingu og aðra aðstoð sem leikmaðurinn má þiggja frá öðrum (svo sem kylfuberum). Undirstöðuatriðið er að golf er leikur færni og persónulegra áskorana.
10
Að undirbúa og slá högg. Ráðlegging og aðstoð. Kylfuberar
10.1

Að slá högg

10.1a/1
Dæmi um að ýta, moka eða skófla
Merking eftirfarandi hugtaka skarast en merkinguna er hægt að skilgreina með eftirfarandi þremur dæmum um að nota kylfuna á einhvern hátt sem ekki er leyft samkvæmt reglunum:
  • Leikmaður slær stutt pútt í holu með enda kylfuhaussins, með hreyfingu sem líkist þeirri sem notuð er í billjard. Slík hreyfing felur í sér að boltanum er ýtt.
  • Leikmaður hreyfir kylfuna eftir yfirborði jarðarinnar og dregur hana til sín. Slík hreyfing felur í sér að boltanum er skafið.
  • Leikmaður ýtir kylfunni undir og mjög nálægt boltanum. Leikmaðurinn lyftir síðan og hreyfir boltann með hreyfingu fram á við og upp. Slík hreyfing felur í sér að boltanum er mokað.
10.1a/2
Annað efni kann að vera á milli boltans og kylfuhaussins við högg
Við að slá bolta hreinlega er ekki nauðsynlegt að kylfuhausinn snerti boltann. Stundum getur ýmist efni lent á milli. Dæmi um að slá boltann hreinlega er þegar bolti sem liggur upp að girðingu sem skilgreinir út af og leikmaðurinn slær högg í utanverða girðinguna sem er út af til að hreyfa boltann.
10.1b/1
Leikmaður má ekki festa kylfu með framhandlegg upp við líkama
Að halda framhandleggnum upp við líkamann þegar högg er slegið er óbein leið við að festa kylfuna. Tvennt þarf til að „festipunktur“ skapist: (1) Leikmaðurinn verður að halda framhandleggnum upp við líkamann, og (2) Leikmaðurinn verður að halda kylfunni þannig að hendurnar séu aðskildar og hreyfast óháðar hvor annarri. Til dæmis, við að slá högg með löngum pútter heldur leikmaðurinn framhandlegg upp við líkama sinn til að mynda fastan punkt en neðri höndin heldur neðar á skaftinu til að sveifla neðri hluta kylfunnar. Hins vegar er leikmanni heimilt að halda öðrum eða báðum framhandleggjum upp að líkama sínum við högg, svo fremi að hann geri það ekki til að mynda festipunkt.
10.1b/2
Vísvitandi snerting við klæðnað á meðan högg er slegið er reglubrot
Ef klæðnaði er haldið upp að líkamanum með kylfu eða griphöndinni er litið á klæðnaðinn sem hluta líkama leikmannsins með tilliti til reglu 10.1b. Ekki má sniðganga tilganginn um frjálsa sveiflu með því að hafa eitthvað á milli líkama leikmannsins og kylfu eða handar.  Til dæmis ef leikmaður klæðist regnjakka, notar meðallangan pútter og þrýstir kylfunni að líkama sínum er hann brotlegur við reglu 10.1b. Því til viðbótar er það brot á reglu 4.3 (Óheimil notkun á útbúnaði) ef leikmaðurinn notar griphöndina vísvitandi til að halda klæðnaði sem hann klæðist á einhverjum hluta líkamans (til dæmis að halda skyrtuermi með höndinni) á meðan hann slær högg, því klæðnaðurinn er ekki hugsaður til slíkra nota og þetta gæti aðstoðað leikmanninn við að slá höggið.
10.1b/3
Snerting af slysni við klæðnað þegar högg er slegið er vítalaus
Þótt kylfan eða griphöndin snerti klæðnaðinn af slysni þegar högg er slegið er það vítalaust. Þetta getur gerst undir ýmsum kringumstæðum þegar leikmaðurinn:
  • Er í víðum fötum eða regnfötum
  • Er þannig að líkamsbyggingu að hendur liggja eðlilega nálægt líkamanum
  • Heldur kylfunni mjög nálægt líkamanum eða
  • Af einhverri annarri ástæðu snertir fötin þegar hann slær högg.
10.2

Ráðlegging og önnur aðstoð

10.2a/1
Leikmaður má fá upplýsingar frá sameiginlegum kylfubera
Ef fleiri en einn leikmaður sameinast um kylfubera má hver þeirra leikmanna sem sameinast um kylfuberann fá upplýsingar frá kylfuberanum. Til dæmis sameinast tveir leikmenn um kylfubera og báðir slá teighögg sín á svipaðan stað. Annar leikmaðurinn tekur kylfu til að slá höggið en hinn leikmaðurinn er óviss. Sá sem er óviss má spyrja sameiginlega kylfuberann hvaða kylfu hinn leikmaðurinn valdi.
10.2a/2
Leikmaður verður að reyna að stöðva áframhaldandi ráðgjöf frá utanaðkomandi
Ef leikmaður fær ráð frá einhverjum öðrum en kylfubera sínum (til dæmis áhorfanda) án þess að óska eftir slíku, er það vítalaust fyrir leikmanninn. Hins vegar, ef leikmaðurinn heldur áfram að fá ráð frá sama einstaklingnum verður leikmaðurinn að reyna að stöðva ráðgjöfina frá þeim einstaklingi. Geri leikmaðurinn það ekki er litið svo á að hann sé að biðja um ráð og fær víti samkvæmt reglu 10.2a. Í sveitakeppnum (regla 24) á þetta einnig við um leikmann sem fær ráð frá liðsstjóra sem hefur ekki verið tilnefndur sem ráðgjafi.
10.2b/1
Notkun á sjálfstandandi pútterum til að aðstoða við mið er bönnuð
Að því gefnu að sjálf standandin pútter uppfylli skilyrði útbúnaðarreglnanna, þá má nota hann til að slá högg (regla 4.1a(1)). En leikmaðurinn (eða kylfuberi hans) má ekki setja slíkan pútter niður til að fá hjálp á nokkurn hátt sem væri andstætt reglu 10.2b. Til dæmis, leikmaður má ekki setja pútterinn niður í standandi stöðu rétt aftan við eða rétt við staðinn þar sem boltinn liggur á flötinni, til að sýna leiklínuna eða til að hjálpa leikmanninum við að taka stöðu fyrir næsta högg andstætt reglu 10.2b(3). (Nýtt)
10.2b(3)/1
Að leggja kylfuhausinn á jörðina aftan við boltann til að aðstoða leikmanninn við að taka stöðu er leyfilegt
Regla 10.2b(3) heimilar leikmanni ekki að leggja niður einhvern hlut (svo sem miðunarstöng eða golfkylfu) til að aðstoða leikmanninn við að taka sér stöðu. Hins vegar kemur þetta bann ekki í veg fyrir að leikmaður leggi haus kylfu sinnar niður aftan við boltann, til dæmis þegar leikmaðurinn stendur aftan við boltann og leggur kylfuhausinn þvert á leiklínuna og heldur henni þar á meðan hann færir sig síðan til að taka sér stöðu.
10.2b(4)/1
Kylfuberi á takmarkandi svæði veitir aðstoð áður en leikmaður byrjar að taka sér stöðu
Regla 10.2b(4) bannar kylfuberanum að standa vísvitandi á takmarkandi svæðinu til að aðstoða leikmanninn við mið. Þetta tryggir að leikmaðurinn einn verði að takast á við miðun fyrir högg. Í tilviki þegar leikmaðurinn hefur ekki byrjað að taka sér stöðu fyrir höggið en:
  • Fótur leikmannsins er nálægt þeim stað þar sem miðið gæti hafist og
  • kylfuberinn er vísvitandi á takmarkandi svæðinu og aðstoðar leimanninn við miðið,
er litið svo á að leikmaðurinn hafið byrjað að taka sér stöðu fyrir höggið (jafnvel þótt fæturnir séu ekki í þeirri stöðu). (Nýtt)
10.2b(5)/1
Leikmaður má biðja annan einstakling sem var ekki vísvitandi á tilteknum stað um að færa sig eða að vera kyrr
Þótt leikmaður megi ekki leggja hlut niður eða staðsetja einstakling í þeim tilgangi að skyggja á sólarljós má leikmaðurinn biðja einstakling (svo sem áhorfanda) um að hreyfa sig ekki svo að skuggi haldist yfir boltanum, eða að hreyfa sig svo að skuggi áhorfandans sé ekki yfir boltanum.
10.2b(5)/2
Leikmaður má klæðast hlífðarfatnaði
Þótt leikmaður megi ekki bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið til að verja sig fyrir höfuðskepnunum má hann klæðast hlífðarfatnaði til að verjast höfuðskepnunum. Til dæmis, ef bolti leikmanns stöðvast rétt við kaktus væri það brot á reglu 8.1a (Athafnir sem bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið) ef hann legði handklæði ofan á kaktusinn til að bæta fyrirhugaða stöðu sína. Hins vegar mætti vefja handklæði um líkama leikmannsins til að verja sig fyrir kaktusnum.
10.3

Kylfuberar

10.3a/1
Leikmaður flytur kylfur á vélknúnum golfbíl og ræður einstakling til að sinna öllum öðrum verkefnum kylfubera
Ef kylfur leikmanns eru fluttar á vélknúnum golfbíl sem leikmaðurinn ekur má ráða einstakling til að sinna öllum öðrum skyldum kylfubera og sá einstaklingur telst þá vera kylfuberi. Þetta er leyfilegt að því tilskyldu að leikmaðurinn hafi ekki fengið einhvern annan til að aka golfbílnum. Í því tilviki væri ökumaðurinn einnig kylfuberi, þar sem hann flytur kylfur leikmannsins, og leikmaðurinn fengi víti samkvæmt reglu 10.3a(1) fyrir að hafa fleiri en einn kylfubera.
10.3a/2
Leikmaður má vera kylfuberi fyrir annan leikmann þegar hann er sjálfur ekki að leika umferð
Leikmaður í keppni má vera kylfuberi fyrir annan leikmann í sömu keppni, nema þegar leikmaðurinn er að leika sína umferð eða ef staðarreglur heimila leikmanninum ekki að vera kylfuberi. Til dæmis:
  • Ef tveir leikmenn leika í sömu keppninni, en á ólíkum rástímum sama dag, mega þeir vera kylfuberar fyrir hvor annan.
  • Í höggleik, ef leikmaður í ráshópi hættir keppni á meðan umferð er leikin má hann vera kylfuberi fyrir annan leikmann í ráshópnum.
SKOÐA FLEIRA