Tilbaka
3

Keppnin

Fara í kafla
Opinberu reglurnar
Sjá innihald reglu
Prenta hluta
3
Keppnin
Tilgangur reglu: Regla 3 spannar þrjú grunnatriði allra golfkeppna:
  • Keppt er í holukeppni eða í höggleik,
  • Ýmist er leikið í einstaklingskeppni eða með samherja í liði, og
  • Ýmist er fært brúttóskor (engum forgjafarhöggum er beitt) eða nettóskor (þar sem forgjafarhöggum er beitt).
3
Keppnin
3.2

Holukeppni

3.2b(1)/1
Leikmenn mega ekki gefa holur til að stytta leikinn vísvitandi
Þótt leikmaður megi gefa mótherja sínum holu hvenær sem er áður en holunni lýkur, mega leikmaðurinn og mótherjinn ekki komast að samkomulagi um að gefa hvor öðrum holur til að stytta leikinn vísvitandi. Til dæmis, áður en leikur hefst komast leikmaður og mótherji hans að samkomulagi um að gefa til skiptis holur 6, 7, 8 og 9. Ef þeir vita að reglurnar heimila þeim ekki að gefa holur á þennan hátt og hefja leikinn án þess að fella samkomulagið niður fá báðir leikmennirnir frávísun samkvæmt reglu 1.3b(1) (Leikmaður ábyrgur fyrir að beita reglunum). Ef leikmennirnir vita ekki að þetta er óleyfilegt gilda úrslit leiksins.
3.2b(1)/2
Gjöf ekki gild þegar úrslit holunnar höfðu þegar verið ráðin
Ef leikmaður gefur mótherja holu en uppgötvar síðan að leikmaðurinn hafði leikið í holu á færri höggun, þá gildir gjöf holunnar ekki þar sem leik um hana var lokið. (Nýtt)
3.2b(2)/1
Kylfuberi reynir að gefa. Gjöfin ógild
Ein þeirra athafna sem kylfuberi má ekki framkvæma er að gefa mótherja næsta högg, holu eða leik. Ef kylfuberi reynir slíkt fyrir mistök er gjöfin ógild. Leikmaðurinn fær ekki víti vegna þessarar athafnar kylfuberans þar sem regla 10.3b(3) (athafnir sem kylfuberar mega ekki framkvæma) kveður ekki á um víti. Bregðist mótherjinn á einhvern hátt við tilraun kylfuberans til að gefa, svo sem með að lyfta bolta í leik, eða boltamerki, teldist það eðlilegur misskilningur eins og lýst er í reglu 3.2b(2). Það er vítalaust og boltann eða boltamerkið þarf að leggja aftur, nema leikmaðurinn sjálfur gefi. Hins vegar, ef kylfuberinn sem gaf á óleyfilegan hátt lyftir bolta eða boltamerki mótherjans eða bolta eða boltamerki leikmanns síns fengi leikmaður kylfuberans víti ef athöfnin bryti í bága við reglu 9.4 eða reglu 9.5.
3.2c(1)/1
Að gefa upp of háa forgjöf telst brot þótt holan sem það hefur áhrif á hafi ekki enn verið leikin
Ef leikmaður tilkynnir mótherja sínum of háa forgjöf áður en komið er að holunni þar sem þetta hefur áhrif fær leikmaðurinn samt frávísun því þessi of háa forgjöf gæti hafa haft áhrif á leikskipulag mótherjans. Til dæmis, á meðan leikmenn bíða eftir að geta leikið á fyrsta teig tilkynnir leikmaður A að forgjöf hans sé 12, þótt í raun sé hún 11. Leikmaður B tilkynnir að forgjöf hans sé 10 og leikmaður B slær högg til að hefja leik á 1. holu. Leikmaður A fær frávísun samkvæmt reglu 3.2c(1) því leikmaður B sló högg í þeirri trú að leikmaður A fengi tvö högg í forgjöf.
3.2c(1)/2
Leikmaður gefur mótherja rangar upplýsingar um forgjöf áður en holukeppni með forgjöf hefst
Ef leikmaður gefur mótherjanum rangar upplýsingar varðandi forgjöf síma og þetta hefði orsakaði að leikmaðurinn gæfi of fá högg eða fengi of mörg högg, fær leikmaðurinn frávísun samkvæmt reglu 3.2c(1). Til dæmis, leikmaður segir mótherja frá rangri grunnforgjöf (Handicap Index TM) eða vallarforgjöf (Course Handicap TM) eða leikforgjöf (Playing Handicap TM) sem hann (leikmaðurinn) reiknaði rangt út og þetta er notað til að ákveða hversu mörg forgjafarhögg muni verða notuð í leiknum. Ef þetta verður til þess að leikmaðurinn fær of mörg högg eða gefur of fá forgjafar högg vegna rangra upplýsinga, og þetta er ekki leiðrétt áður en mótherjinn slær næsta högg, fær leikmaðurinn frávísun. (Nýtt)
3.2d(1)/1
Merking undantekningarinnar „Vítalaust ef engin áhrif á úrslit holu“
Við leik um holu verður leikmaðurinn að upplýsa um réttan fjölda högga sem hann hefur slegið svo mótherjinn geti ákveðið hvernig hann muni leika holuna. Hins vegar, eftir að holu er lokið, ef leikmaður gefur upp rangan höggafjölda er það vítalaust samkvæmt undantekningu við reglu 3.2d(1) ef það hefur ekki áhrif á skilning mótherjans á hvort holan hafi unnist, tapast eða hún fallið. Til dæmis, eftir að hafa lokið holu þar sem mótherjinn fékk 7 högg segist leikmaðurinn ranglega hafa fengið 5 á holuna, þegar hann í raun lék holuna á 6 höggum. Eftir að leikur er byrjaður á næstu holu uppgötvar leikmaðurinn að hann lék á 6 höggum. Þar sem rangur höggafjöldi hafði ekki áhrif á þá staðreynd að leikmaðurinn vann holuna er þetta vítalaust.
3.2d(1)/2
Leikmaður gefur upp rangan höggafjölda eftir að holu er lokið og mistökin uppgötvast nokkrum holum síðar
Ef leikmaður gefur upp rangan höggafjölda eftir að holu er lokið fær leikmaðurinn almenna vítið ef mistökin hafa áhrif á úrslit holunnar og eru ekki leiðrétt í tíma. Í slíkum tilfellum verður að leiðrétta stöðu leiksins. Til dæmis, eftir að hafa lokið 1. holu segir leikmaðurinn mótherjanum að hann (leikmaðurinn) hafi leikið á 4, þótt réttur höggafjöldi hafi verið 5. Mótherjinn lék á 5 á holunni. Eftir að hafa leikið nokkrar holur til viðbótar uppgötvar leikmaðurinn að hann hafði gefið mótherjanum upp rangan höggafjölda á 1. holu. Þótt holan hefði fallið ef réttur höggafjöldi hefði verið tilgreindur fær leikmaðurinn holutapsvíti á fyrstu holunni því mistökin höfðu áhrif á holuna. Leiðrétta verður stöðu leiksins.
3.2d(1)/3
Leikmaður gefur upp rangan höggafjölda eftir að holu lýkur og mistökin uppgötvast eftir að úrslit leiksins eru endanleg
Ef leikmaður gefur óvart upp rangan höggafjölda eftir að holu lýkur en mistökin uppgötvast ekki fyrr en eftir að úrslit leiksins eru endanleg (regla 3.2a(5) - Hvenær úrslit eru endanleg), gilda úrslit leiksins. Til dæmis, eftir að hafa lokið 17. holu segir leikmaðurinn mótherjanum að hann (leikmaðurinn) hafi leikið á 3, þótt réttur höggafjöldi hafi verið 4. Mótherjinn lék á 4 á holunni. Leikmennirnir leika 18. holuna og leikmaðurinn vinnur leikinn 1 upp. Úrslitin verða endanleg. Leikmaðurinn uppgötvar síðan að hann hafði gefið mótherja sínum upp rangt skor á 17. holu. Þar sem leikmaðurinn gaf óvart upp rangan höggafjölda og úrslit leiksins eru endanleg er það vítalaust og úrslitin gilda, þ.e. að leikmaðurinn vann leikinn (regla 20.1b(3) - Óskað eftir úrskurði eftir að úrslit eru endanleg).
3.2d(1)/4
Að skipta um skoðun varðandi vítalausn felur ekki í sér að gefa upp rangan höggafjölda
Réttur höggafjöldi felur bara í sér högg sem leikmaðurinn hefur þegar slegið og öll vítahögg sem hann hefur þegar bakað sér. Til dæmis, bolti leikmannsins liggur innan vítasvæðis og mótherjinn spyr leikmanninn hvernig hann hyggist halda áfram. Þótt leikmaðurinn þurfi ekki að svara segist hann ætla að taka vítalausn. Eftir að mótherjinn slær ákveður leikmaðurinn að slá boltann þar sem hann liggur innan vítasvæðisins. Leikmaðurinn hafði rétt á að skipta um skoðun og það er vítalaust því vangaveltur um hugsanlegar fyrirætlanir hafa ekki áhrif á högg sem leikmaðurinn hefur fengið.
3.2d(2)/1
„Eins fljótt og kostur er“ þýðir ekki alltaf fyrir næsta högg mótherjans
Almenna orðalagið „eins fljótt og kostur er“ felur í sér að tekið sé tillit til aðstæðna sem máli skipta, sérstaklega hversu nærri leikmaðurinn er mótherjanum. Til dæmis, ef leikmaðurinn dæmir bolta sinn ósláanlegan þegar mótherjinn er hinum megin við brautina og mótherjinn leikur áður en leikmaðurinn getur gengið yfir til mótherjans og sagt honum af vítinu getur „eins fljótt og kostur er“ þýtt á meðan þeir ganga í átt að holunni til að slá næstu högg sín. Ekki er hægt að setja skýrar reglur um hvað „eins fljótt og kostur er“ felur í sér en það merkir ekki í öllum tilfellum áður en mótherjinn slær sitt næsta högg.
3.2d(3)/1
Að gefa vísvitandi upp ranga stöðu eða leiðrétta vísvitandi ekki misskilning mótherjans á stöðu leiksins getur leitt til frávísunar
Samkvæmt reglu 3.2d(3) er ætlast til að leikmenn viti stöðu leiksins en reglan krefst þess ekki að leikmaðurinn upplýsi mótherjann um stöðuna. Ef leikmaður vísvitandi gefur upp ranga stöðu leiksins eða vísvitandi leiðréttir ekki misskilning mótherjans um stöðu leiksins hefur hann ekki gefið upp rangan höggafjölda. Hins vegar ætti nefndin að veita leikmanninum frávísun samkvæmt reglu 1.2a (Alvarlegar misgjörðir).
3.2d(4)/1
Merking „að koma sér saman um“ í reglu 3.2d(4)
Ef leikmaður í holukeppni veit eða heldur að mótherjinn hafi brotið reglu sem leiðir til vítis má leikmaðurinn bregðast við eða líta fram hjá reglubrotinu, en leikmaðurinn og mótherjinn mega ekki koma sér saman um að líta fram hjá reglubroti eða víti sem þeir vita að eigi við. Til þess að samkomulag teljist vera í gangi, þurfa báðir leikmennirnir að hafa komið að samkomulaginu um að sleppa broti eða víti. Eftirfarandi dæmi sýnir hvenær samkomulag telst ekki vera í gangi á milli leikmanns og mótherja:
  • Við leik um holu, sér leikmaðurinn mótherja sinn lyfta bolta til að þekkja hann án þess að merkja fyrst staðsetningu hans. Leikmaðurinn segir mótherjanum að misbrestur á að merkja boltann sé reglubrot en upplýsir mótherjann um að hann (leikmaðurinn) muni ekki ætla að bregðast við brotinu. Það var ákvörðun leikmannsins eins að bregðast ekki við brotinu og því hefur ekki komist á samkomulag.
  • Við leik um holu, tilkynnir mótherji leikmanni að hann (mótherjinn) hafi snert sand í aftursveiflu í glompu. Leikmaðurinn staðfestir að refsing við þessu sé holutap, en tilkynnir mótherjanum að hann (leikmaðurinn) ætli ekki að bregðast við brotinu. Það var ákvörðun leikmannsins eins að bregðast ekki við brotinu og því hefur ekki komist á samkomulag.
Í slíkum tilfellum, þegar sem leikmaðurinn einn tekur ákvörðun um að bregðast ekki við broti og segir mótherjanum frá þeirri ákvörðun, getur leikmaðurinn ekki breytt þeirri ákvörðun eftir að annar hvor þeirra slær högg á holunni, eða ef ekki fleiri högg voru leikin á holunni, eftir að annar hvor slær högg af næsta teig. Eftirfarandi dæmi sýnir hvenær samkomulag telst vera í gangi á milli leikmanns og mótherja:
  • Við leik um holu, sér leikmaðurinn mótherja sinn lyfta bolta til að þekkja hann án þess að merkja fyrst staðsetningu hans. Leikmaðurinn segir mótherjanum að misbrestur á að merkja boltann sé reglubrot, en eftir samræður, ákveða leikmaðurinn og mótherjinn að þeir muni ekki beita vítum við þessar aðstæður, þar sem enginn augljós ávinningur sé af því að brjóta regluna. Þar sem báðir leikmennirnir áttu þátt í að ákveða afleiðingar slíkra aðstæðna og þeir ákváðu að beita ekki vítum, hefur samkomulag verið gert um að sniðganga reglubrot og báðir leikmennirnir fá frávísun samkvæmt reglu 1.3b.
  • Við leik um holu, tilkynnir mótherji leikmanni að hann (mótherjinn) hafi snert sand í aftursveiflu í glompu. Leikmaðurinn staðfestir að refsing við þessu sé holutap, en mótherjanum leggur til við leikmanninn að þeir líti framhjá slíkum brotum þar sem enginn ávinningur sé af þeim. Leikmaðurinn ákveður að beita ekki refsingunni. Þar sem leikmaðurinn varð fyrir áhrifum frá mótherjanum við ákvarðanatökuna um að bregðast ekki við brotinu hefur komist á samkomulag og báðir leikmennirnir fá frávísun samkvæmt reglu 1.3b. (Nýtt)
3.3

Höggleikur

3.3b/1
Leikmönnum verður að vera fylgt af ritara alla umferðina
Tilgangur ritara er að staðfesta að skor leikmanns á hverri holu sé rétt á skorkorti hans. Ef ritari fylgir ekki leikmanninum alla umferðina er ómögulegt að staðfesta skorkortið. Til dæmis, ef leikmaður leikur nokkrar holur án ritara síns og ritarinn skráir síðan skor leikmannsins á holunum þar sem leikmaðurinn var einn er skorkortið ekki réttilega staðfest samkvæmt reglu 3.3b. Þess í stað hefði leikmaðurinn átt að krefjast þess að ritarinn fylgdi honum allar holurnar. Ef ritarinn gat það ekki, átti leikmaðurinn biðja einhvern annan um að vera ritari sinn. Ef það var ekki hægt átti leikmaðurinn að stöðva leik og tilkynna málið til nefndarinnar, svo hægt væri að tilnefna annan ritara.
3.3b/2
Hugsanlega má samþykkja skorkort þótt upplýsingar séu skráðar á rangan stað
Þótt fylgja þurfi öllum kröfum reglu 3.3b áður en skorkorti er skilað er það vítalaust þótt réttar upplýsingar séu óvart skráðar annars staðar á skorkortið en gert er ráð fyrir, nema að skor hverrar holu á skorkortinu verður að vera hægt að rekja til réttrar holu (sjá skýringu 3.3b(3)/1). Til dæmis:
  • Ef leikmaðurinn og ritarinn staðfesta skor holanna í reiti þar sem hinum var ætlað að staðfesta hefur skor leikmannsins verið staðfest samkvæmt reglu 3.3b. Sama ætti við ef skorið væri staðfest með upphafsstöfum en ekki fullu nafni.
  • Ef skor leikmanns er skráð á skorkort ritara og ritara á leikmannsins, en skorin eru rétt og bæði skorkortin eru staðfest eru skorkortin samþykkt svo fremi að leikmennirnir upplýsi nefndina um hvort skorkortið tilheyri hvorum leikmanni. Þar sem mistökin eru stjórnunarlegs eðlis eru engin tímamörk á slíkri leiðréttingu (sjá reglu 20.2d(2)).
3.3b/3
Nota má annað skorkort ef opinbert skorkort misferst
Þótt leikmaður ætti að skila skorkortinu sem honum var afhent af nefndinni felur regla 3.3b ekki í sér kröfu um að sama skorkorti sé skilað ef það skemmist eða tapast. Til dæmis, ef ritarinn týnir pappírsskorkortinu sem hann fékk hjá nefndinni er í lagi að nota annað skorkort (t.d. almennt skorkort klúbbsins), svo fremi að skorkortið innihaldi nafn leikmannsins og skor á holu leikmannsins og er staðfest af leikmanninum og ritaranum. Ef rafrænt skorkerfi er notað og leikmaðurinn eða ritarinn missa netsamband, eða ef önnur tæknileg vandamál koma upp, ættu leikmennirnir að bera málið upp við nefndina eins fljótt og unnt er og í síðasta lagi um leið og umferðinni er lokið.
3.3b(2)/1
Leikmenn þurfa einungis að skrá skor á skorkortið
Munur er á því að ætlast til að leikmenn skrái skor umferðar í tölvu (svo sem vegna forgjafar) og að nota rafrænt form skorkorts, samþykkt af nefndinni (svo sem app fyrir skráningu skorkorts). Nefndin getur krafist þess að leikmenn noti annars konar skorkort en á pappírs skorkort (svo sem rafræna útgáfu skorkorts), en nefndin hefur ekki leyfi til að víta leikmenn samkvæmt reglu 3.3b(2) fyrir að skrá skorið ekki annars staðar. Hins vegar, til að aðstoða við framkvæmd móta (svo sem við skráningu og birtingu úrslita) getur nefndin beitt víti samkvæmt hegðunarreglum (regla 1.2b) eða beitt agaviðurlögum (svo sem að fella niður rétt til þátttöku í næsta móti) ef leikmenn skrá skorið ekki annars staðar.
3.3b(2)/2
Beiting undanþágu vegna ritara sem uppfyllir ekki skyldur sínar
Samkvæmt undantekningu við reglu 3.3b(2) er það vítalaust fyrir leikmanninn þótt ritari uppfylli ekki skyldur sínar varðandi skorkortið, ef leikmaðurinn fær engu um það ráðið. Eftirfarandi eru dæmi um hvernig undantekningunni er beitt:
  • Ef ritari yfirgefur völlinn með skorkort leikmannsins eftir að umferð er leikin ætti nefndin að reyna að ná sambandi við ritarann. Takist það ekki ætti nefndin að fá samþykkja staðfestingu einhvers sem fylgdist með umferðinni á skori leikmannsins. Finnist enginn getur nefndin sjálf staðfest skor leikmannsins.
  • Ef leikmaður þarf að leiðrétta skor á holu eftir að skorkortið hefur verið staðfest af ritaranum, en ritarinn er ekki tiltækur eða hefur horfið á braut, ætti nefndin að reyna að ná sambandi við ritarann. Takist það ekki ætti nefndin að samþykkja staðfestingu einhvers sem fylgdist með eða, ef enginn finnst, ætti nefndin að staðfesta sjálf skorið.
3.3b(3)/1
Skor á skorkorti þarf að tengjast réttri holu
Samkvæmt reglu 3.3b þarf hvert skor á skorkorti að vera auðkennt réttri holu. Til dæmis, ef ritari skráir skor leikmanns á fyrri níu holunum í reiti fyrir seinni níu holurnar seinni níu holunum í reiti fyrir fyrri níu holurnar, má samt samþykkja skorkortið ef mistökin eru leiðrétt með því að breyta númerum holanna þannig að þau tengist réttu skori á hverri holu. Hins vegar, ef mistökin eru ekki leiðrétt og afleiðingin er sú að skor á holu er lægra en rétt er fær leikmaðurinn frávísun samkvæmt reglu 3.3b(3).
3.3b(4)/1
Refsing leikmanns fyrir að vísvitandi tilkynna ekki nefndinni um stjórnunarleg mistök
Nefndin er ábyrg fyrir að leggja saman skor leikmannins á holunum, og í keppni með forgjöf, ákvarða hversu mörg högg leikmaðurinn fær í forgjöf í umferðinni og reikna nettó skor leikmannsins. Ef nefndin gerir mistök við framkvæmd einhverra af þessum skyldum sínum, er um stjórnunarleg mistök að ræða og engin tímamörk eru á leiðréttingu slíkra mistaka (regla 20.2d(2)). En ef leikmaður verður áskynja um slík mistök, er hann ábyrgur fyrir því að tilkynna nefndinni um mistökin. Ef það kemur í ljós að leikmaðurinn tók eftir slíkum mistökum og vísvitandi kom því ekki til skila til nefndarinnar, ætti nefndin að veita leikmanninum frávísun samkvæmt reglu 1.2a (Alvarlegar misgjörðir). (Nýtt)
SKOÐA FLEIRA