Prenta hluta
7
Leit að bolta: Að finna og þekkja bolta
Tilgangur reglu: Regla 7 leyfir leikmanninum að viðhafa hóflegar athafnir til að leita að bolta sínum í leik eftir hvert högg.
  • Leikmaðurinn þarf samt að fara varlega, því hann mun fá víti ef hann fer óhóflega að og veldur betrumbótum á aðstæðum fyrir næsta högg sitt.
  • Leikmaðurinn fær ekki víti þótt boltinn hreyfist af slysni þegar leitað er að honum eða reynt að þekkja hann, en verður þá að leggja boltann aftur á upphaflegan stað.
7
Leit að bolta: Að finna og þekkja bolta
7.1

Hvernig leita á að bolta á eðlilegan hátt

7.1a/1
Dæmi um athafnir sem teljast líklega ekki hluti af eðlilegri leit
Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem myndu tæplega teljast eðlilegur hluti af leit og myndu leiða til almenna vítisins ef af þeim leiddi bót á aðstæðunum sem hafa áhrif á höggið:
  • Aðhafast eitthvað til að slétta grassvæði umfram það sem er eðlilegt til að ganga um svæðið eða leita að boltanum á svæðinu þar sem talið er að boltinn liggi;
  • Vísvitandi fjarlægja gróna hluti af jörðinni; eða
  • Brjóta trjágrein til að aðvelda aðgengi að boltanum þegar hægt var að nálgast hann án þess.
7.2

Hvernig þekkja á bolta

7.2/1
Að þekkja bolta sem ekki er hægt að ná til
Ef leikmaður sér bolta í tré, eða á öðrum stað þar sem hann nær ekki til boltans, getur hann ekki gengið út frá því sem vísu að þetta sé hans bolti, heldur verður hann að þekkja boltann á einhvern máta sem lýst er í reglu 7.2. Þetta er hægt að gera jafnvel þótt leikmaðurinn nái ekki til boltans, svo sem:
  • Nota sjónauka eða fjarlægðarmæki til að sjá merkingu á boltanum sem staðfestir að þetta sé bolti leikmannsins, eða
  • Með því að ákvarða að annar leikmaður eða áhorfandi hafi séð boltann stöðvast á þessum tiltekna stað eftir högg leikmannsins.
7.4

Bolti hreyfður af slysni við að reyna að finna hann eða þekkja hann

7.4/1
Að meta upphaflegan stað til að leggja aftur bolta sem hreyfðist við leit
Þegar bolti leikmanns hreyfist af slysni við leik og ákvarða þarf upphaflega staðsetningu, þar sem leggja á boltann aftur, ætti leikmaðurinn að horfa til allra auðfáanlegra upplýsinga um hvar boltinn var áður en hann hreyfðist. Til dæmis, þegar meta á upphaflega staðsetningu til að leggja bolta aftur ætti leikmaðurinn að skoða:
  • Hvernig boltinn fannst (til dæmis, var stigið ofan á hann eða sparkaði í hann eða hann hreyfður þegar kylfu eða hendi var sveiflað til að finna hann),
  • Hvort hann var sýnilegur eða ekki og
  • Staðsetningu boltans með tilliti til jarðarinnar og gróðurs, svo sem hvort hann lá uppi á eða ofan í grasi og hversu djúpt í grasinu hann lá.
Við að leggja boltann aftur þarf leikmaðurinn ekki að leggja aftur lausung (svo sem lauf) sem kann að hafa hreyfst, því lausung er ekki hluti legunnar og í mörgum tilvikum væri nærri ómögulegt að endurgera upphaflegu aðstæðurnar ef leggja þyrfti lausungina aftur. Til dæmis, við að leita að bolta sem er hulinn laufi innan vítasvæðis sparkar leikmaðurinn í boltann og hreyfir við laufunum sem voru nærri boltanum. Þótt leggja verði boltann aftur á upphaflegan eða áætlaðan stað þarf ekki að koma laufunum aftur fyrir á upphaflegum stað, jafnvel þótt boltinn hafi augljóslega legið undir laufunum.
7.4/2
Merking þess að „reyna að finna“
Samkvæmt reglu 7.4 og undantekningu 2 við reglu 9.4 (Bolti hreyfður af slysni áður en við að reyna að finna hann eða þekkja) er það vítalaust þótt bolti hreyfist af slysni við að „reyna að finna“ hann. Að „reyna að finna“ boltann nær yfir athafnir sem má telja eðlilegan hluta þess að leita að boltanum, þar á meðal athafnir sem leyfðar eru af reglu 7.1 (Hvernig leita á að bolta á eðlilegan hátt). Það nær ekki yfir athafnir áður en leit hefst, svo sem að ganga að svæðinu þar sem búist er við að boltinn sé. Til dæmis leikur leikmaður bolta sínum í átt að skóglendi. Leikmaðurinn verður þess ekki var að boltinn lendir í tré og endurkastast til baka í átt að teignum. Þegar leikmaðurinn er enn nokkurn spöl frá svæðinu þar sem hann heldur að boltinn sé, og áður en hann hefur leit að boltanum, sparkar leikmaðurinn óvart í boltann. Þar sem þetta gerðist ekki á meðan leikmaðurinn var að reyna að finna boltann fær leikmaðurinn eitt högg í víti samkvæmt reglu 9.4b fyrir að valda því af slysni að bolti hans hreyfðist og verður að leggja boltann aftur.
7.4/3
Bolti hreyfður á meðan leit hefur verið stöðvuð tímabundið
Í skýringum 7.4/2 fær leikmaður víti ef boltinn hreyfist þegar leikmaðurinn er ekki að leita að honum. Hins vegar, ef leikmaður hreyfir bolta sinn af slysni þegar leit hefur verið stöðvuð tímabundið vegna kringumstæðna sem leikmaður ræður ekki yfir fær leikmaðurinn ekki víti fyrir að hreyfa boltann. Til dæmis:
  • Leikmaðurinn stöðvar leit að bolta sínum til að færa sig svo annar ráshópur komist fram úr. Þegar hann stígur til hliðar hreyfir leikmaðurinn óvart bolta sinn.
  • Nefndin frestar leik og leikmaðurinn leggur af stað af svæðinu. Þá stígur hann óvart á boltann og hreyfir hann.
SKOÐA FLEIRA