Tilbaka
8

Völlurinn leikinn eins og komið er að honum

Fara í kafla
Opinberu reglurnar
Sjá innihald reglu
Prenta hluta
8
Völlurinn leikinn eins og komið er að honum
Tilgangur reglu: Regla 8 lýsir einu grundvallaratriði leiksins: „Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum". Þegar bolti leikmannsins stöðvast verður leikmaðurinn að öllu jöfnu að sætta sig við þær aðstæður sem hafa áhrif á höggið og má ekki bæta þær áður en boltanum er leikið. Samt má leikmaðurinn framkvæma tilteknar hóflegar athafnir þótt þær bæti þessar aðstæður og undir ákveðnum kringumstæðum má endurgera aðstæðurnar vítalaust, eftir að þeim hefur verið breytt til betri eða verri vegar.
8
Völlurinn leikinn eins og komið er að honum
8.1

Athafnir leikmanns sem bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið

8.1a/1
Dæmi um athafnir sem myndu líklega skapa hugsanlegan ávinning
Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem bæta líklega aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið (þ.e. eru líklegar til að skapa leikmanninum hugsanlegan ávinning):
  • Leikmaður lagfærir boltafar á almenna svæðinu eða leggur torfusnepil aftur í torfufar innan nokkurra metra framan við bolta sinn í leiklínunni, áður en hann slær högg sem gæti orðið fyrir áhrifum af boltafarinu eða torfufarinu (til dæmis pútt eða lágt vipp).
  • Bolti leikmanns liggur í flatarglompu og leikmaðurinn sléttar fótspor innan fimm metra framan við boltann á leiklínunni áður en hann slær stutt högg þar sem ætlunin er að boltinn fljúgi yfir svæðið sem var sléttað (sjá reglu 12.2b(2) - Hvenær snerting á sandi leiðir ekki til vítis).
8.1a/2
Dæmi um athafnir sem munu líklega ekki skapa hugsanlegan ávinning
Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem munu líklega ekki bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið (þ.e. munu líklega ekki skapa hugsanlegan ávinning):
  • Áður en leikmaður slær 150 metra innáhögg frá almenna svæðinu lagfærir hann lítið boltafar, sléttar fótspor í glompu eða leggur torfusnepil í torfufar á leiklínu sinni, nokkra metra framan við boltann.
  • Bolti leikmanns liggur í miðri, grunnri og langri brautarglompu. Nokkrum metrum framan við boltann, og í leiklínunni, er fótspor og leikmaðurinn sléttar það áður en hann slær langt högg yfir sléttaða svæðið (sjá reglu 12.2b(2) - Hvenær snerting á sandi leiðir ekki til vítis).
8.1a/3
Leikmaður sem bætir aðstæður vegna fyrirhugaðs höggs er brotlegur þótt hann slái öðruvísi högg
Ef leikmaður ætlar sér að leika boltanum á tiltekinn hátt, bætir aðstæðurnar sem hafa áhrif á það tiltekna högg og ekki er hægt að endurgera aðstæðurnar er leikmaðurinn brotlegur við reglu 8.1a hvort sem hann slær boltann að lokum á þennan hátt eða ákveður að leika á annan hátt þar sem bættu aðstæðurnar skipta ekki máli. Til dæmis, ef leikmaður brýtur trjágrein sem truflar stöðu hans eða sveiflu vegna fyrirhugaðs höggs þegar hægt hefði verið að taka stöðu án þess að brjóta greinina kemst leikmaðurinn ekki undan víti með því að leika boltanum í aðra átt eða með því að taka lausn á öðrum stað, þar sem greinin hefði ekki haft áhrif á höggið. Þetta gildir einnig ef leikmaðurinn braut trjágrein þegar hann hóf leik á holu og færði sig á annan stað innan teigsins. Sjá reglu 8.1c um hvort komast megi hjá víti með því að endurgera bættar aðstæður.
8.1a/4
Dæmi um að hreyfa, beygja eða brjóta óhreyfanlega hindrun
Hluti af girðingu sem er út af (og er því ekki vallarmarkahlutur) hallar inn á völlinn og leikmaðurinn ýtir girðingunni aftur í lóðrétta stöðu. Með þessu brýtur leikmaðurinn reglu 8.1a sem bannar leikmanni að bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið með því að hreyfa óhreyfanlega hindrun. Leikmaðurinn fær almenna vítið nema hann endurgeri aðstæðurnar með því að koma girðingunni aftur í upphaflega stöðu áður en hann slær næsta högg, eins og heimilað er í reglu 8.1c (Að forðast víti með því að endurgera bættar aðstæður). Undir þessum kringumstæðum, þótt regla 8.1a banni að óhreyfanlegar hindranir séu hreyfðar, beygðar eða brotnar, hefur leikmaðurinn kost á að taka vítalausa lausn frá truflun vegna þess hluta óhreyfanlegu hindrunarinnar sem hallaði inn á völlinn, samkvæmt reglu 16.1b (Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum).
8.1a/5
Ekki leyfilegt að byggja stöðu með því að staðsetja útbúnað
Skilgreiningin á „stöðu“ felur ekki eingöngu í sér að leikmaðurinn komi fótum sínum fyrir heldur að öllum líkamanum sé komið fyrir við að undirbúa og slá högg. Til dæmis er leikmaður brotlegur við reglu 8.1a fyrir að bæta svæði fyrirhugaðrar stöðu ef hann leggur handklæði eða annan hlut á runna til að verja líkama sinn á meðan hann slær högg. Þurfi leikmaður að slá högg á hnjánum vegna þess að bolti hans er undir tré og leikmaðurinn leggur handklæði á jörðina til að forðast að blotna eða verða skítugur við að leggjast á hnén er leikmaðurinn að byggja stöðu. Hins vegar mætti leikmaðurinn vefja handklæði um mittið eða klæðast regnfötum áður en hann leggst á hnén til að slá höggið (sjá reglu 10.2b(5) - Áþreifanleg aðstoð og skjól fyrir höfuðskepnunum). Ef leikmaður kemur einhverjum hlut þannig fyrir að er óleyfilegt og uppgötvar síðan mistökin áður en hann leikur boltanum getur hann forðast víti með því að fjarlægja hlutinn áður en hann slær höggið, svo fremi að engar aðrar bætur hafi orðið á aðstæðunum sem hafa áhrif á höggið.
8.1a/6
Ekki leyfilegt að breyta yfirborði jarðar til að byggja stöðu
Leikmanni er heimilt að koma fótum sínum tryggilega fyrir við að taka sér stöðu en er brotlegur við reglu 8.1a ef hann breytir jörðinni þar sem hann mun taka sér stöðu, ef sú breyting bætir svæði fyrirhugaðrar stöðu. Eftirfarandi eru dæmi um að breyta jörðinni sem myndu líklega bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið:
  • Sparka niður sandi í glompukanti til að fá sléttara svæði til að standa á.
  • Grafa fæturna óhóflega í mjúka jörð til að fá fastari grunn fyrir stöðuna.
Leikmaður er brotlegur við reglu 8.1a um leið og hann hefur bætt aðstæðurnar með því að breyta jörðinni til að byggja stöðu og getur ekki forðast víti með því að reyna að koma aðstæðunum í upphaflegt ástand. Takmarkanirnar á að breyta jörðinni (regla 8.1a(3)) innifela ekki að fjarlægja lausung eða hreyfanlegar hindranir á svæði fyrirhugaðrar stöðu, svo sem að fjarlæga mikið magn barrnála eða laufs þar sem leikmaðurinn mun standa til að leika boltanum.
8.1a/7
Leikmaður má krafsa nærri bolta til að finna hvort trjárætur, steinar eða hindranir eru undir yfirborði jarðar, en því aðeins að þetta bæti ekki aðstæður
Regla 8.1a bannar leikmanni ekki að snerta jörðina innan þess svæðis sem innifelur aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið, svo fremi að aðstæðurnar séu ekki bættar. Til dæmis má leikmaður kanna svæðið umhverfis boltann, þegar boltinn liggur einhvers staðar á vellinum, með tíi eða öðrum hlut, án þess að bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið, til að athuga hvort kylfa hans kynni að hitta trjárót, stein eða hindrun undir yfirborði jarðarinnar þegar höggið er slegið. Hins vegar, sjá skýringar 12.2b/2 ef leikmaðurinn krafsar í sandi í glompu til að prófa ástand hans.
8.1a/8
Að breyta yfirborði jarðar innan lausnarsvæðis er óheimilt
Áður en leikmaðurinn lætur bolta falla til að taka lausn, má hann ekki leggja torfusnepil í torfufar innan lausnarsvæðisins eða gera annað til að breyta yfirborði jarðarinnar á þann hátt sem bætir aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið. Hins vegar gildir þetta bann aðeins eftir að leikmanninum verður ljóst að hann þarf eða má láta bolta falla á þessu lausnarsvæði. Til dæmis, ef leikmaður leikur bolta, leggur torfusnepilinn aftur í torfufarið og uppgötvar síðan að hann verði að leika þaðan aftur gegn fjarlægðarvíti, vegna þess að boltinn er út af, er innan vítasvæðis, er ósláanlegur eða að leika ætti varabolta, er leikmaðurinn ekki brotlegur við reglu 8.1a þótt torfan hafi verið lögð innan lausnarsvæðisins.
8.1a/9
Þegar torfusnepill hefur verið lagður aftur má ekki fjarlægja hann eða þrýsta honum niður
Regla 8.1a(3) bannar að bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið með því að þrýsta torfusnepli niður, fjarlægja torfusnepil eða færa torfusnepil í torfufari. Slík torfa telst hluti jarðarinnar (en ekki lausung), jafnvel þótt hún sé ekki föst eða farin að gróa. Torfusnepill hefur verið lagður aftur þegar stærstur hluti hans er í torfufari og með ræturnar niður (hvort sem er í torfufarinu þaðan sem torfusnepillinn kom upphaflega eða ekki).
8.1a/10
Leikmanni heimilt að setja hreyfanlegan hluta óhreyfanlegrar hindrunar á ætlaða stað sinn
Regla 8.1a(2) bannar að hreyfanleg hindrun sé staðsett þannig að hún bæti aðstæður sem hafa áhrif á höggið. Hinsvegar á þessi takmörkun ekki við þegar hreyfanlegum hluta óhreyfanlegrar hindrunar er komið fyrir á ætluðum stað hennar. Til dæmis:
  • Ef vökvunarstútur hefur skotist upp, þá má leikmaðurinn ýta honum niður þar sem hann er ekki í ætlaðri stöðu sinni.
  • Ef ræsisrist hefur verið fjarlægð eða hún verið skekkt, má leikmaðurinn setja ristina í ætlaða stöðu sína.
Í báðum tilfellum er þetta vítalaust samkvæmt reglu 8, jafnvel þó þetta bæti aðstæður sem hafa áhrif á höggið. (Bætt við í júlí 2023)
8.1b/1
Leikmanni heimilt að grafa fætur niður oftar en einu sinni við að taka stöðu
Regla 8.1b leyfir leikmanni að koma fótum sínum tryggilega fyrir við að taka sér stöðu og þetta má gera oftar en einu sinni áður en höggið er slegið. Til dæmis getur leikmaður stigið í glompu án kylfu, grafið fætur sína niður við að taka stöðu til að herma eftir högginu, farið aftur og sótt kylfu og grafið fæturna síðan aftur í sandinn og slegið höggið.
8.1b/2
Dæmi um að „taka sér stöðu á eðlilegan hátt“
Þótt leikmanni sé heimilt að leika í hvaða átt sem er á hann ekki rétt á venjulegri stöðu eða sveiflu. Hann verður að búa við aðstæðurnar og nota þá leið sem veldur minnstri truflun. Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem teljast eðlilegar við að taka sér stöðu og eru heimilar samkvæmt reglu 8.1b, jafnvel þótt einhver bót verði við það:
  • Að bakka inn í trjágreinar eða vallarmarkahlut þegar það er eina leiðin við að taka sér stöðu fyrir það högg sem leikmaðurinn velur að slá, jafnvel þótt greinin eða vallarmarkahluturinn hreyfist við það, bognar eða brotnar.
  • Að beygja trjágrein með höndunum til að komast undir tré og leika bolta, þegar það er eina leiðin til að komst undir tréð til að taka sér stöðu.
Sjá skýringar 8.1b/3 varðandi hvenær leikmaður fær víti fyrir að ganga lengra en nauðsynlegt er við að taka sér stöðu.
8.1b/3
Dæmi um athafnir sem fela ekki í sér að „taka sér stöðu á eðlilegan hátt“
Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem teljast ekki eðlilegar við að taka sér stöðu og munu leiða til vítis samkvæmt reglu 8.1a ef þær bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið:
  • Vísvitandi hreyfa, beygja eða brjóta greinar með hönd, fæti eða líkama til að losna við þær úr baksveiflunni eða högginu.
  • Standa í háu grasi eða gróðri á þann hátt að það þrýstist niður og til hliðanna þannig að það sé ekki fyrir svæði fyrirhugaðrar stöðu eða sveiflu þegar hægt hefði verið að taka sér stöðu án þess.
  • Hengja eina grein við aðra eða flétta tvær greinar saman til að þær séu ekki fyrir stöðu eða sveiflu.
  • Nota hönd til að beygja grein sem skyggir á boltann eftir að staða er tekin.
  • Beygja grein sem er fyrir við að taka sér stöðu þegar hægt hefði verið að taka sér stöðu án þess.
8.1b/4
Að bæta aðstæður innan teigsins takmarkast við jörðina
Regla 8.1b(8) heimilar leikmanni að bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið á teignum. Þessari takmörkuðu undanþágu við reglu 8.1a er aðeins ætlað að heimila leikmanni að breyta áþreifanlegum aðstæðum á yfirborði jarðarinnar innan teigsins sjálfs (þar á meðal við að fjarlægja hluti sem vaxa þar), hvort sem boltinn er tíaður eða honum leikið af jörðinni. Þessi undantekning heimilar leikmanni ekki að bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið vegna teighöggs hans með því að aðhafast eitthvað utan teigsins, svo sem að brjóta trjágreinar sem eru annaðhvort utan teigsins eða á tré sem vex utan teigsins en slúta yfir teiginn og kunna að trufla svæði fyrirhugaðrar sveiflu.
8.1b/5
Leikmaður sléttar glompu til að „halda vellinum snyrtilegum“ eftir að hafa leikið bolta út úr glompunni
Eftir að bolta í glompu hefur verið leikið og boltinn er utan glompunnar heimila reglur 8.1b(9) og 12.2b(3) leikmanninum að halda vellinum snyrtilegum og koma glompunni í það ástand sem hún ætti að vera í, jafnvel þótt það bæti aðstæður sem hafa áhrif á högg leikmannsins. Þetta gildir þótt athafnir leikmannsins séu vísvitandi bæði til að halda vellinum snyrtilegum og til að bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið. Til dæmis stöðvast bolti leikmanns í stórri glompu nærri flöt. Þar sem leikmaðurinn getur ekki slegið í átt að holunni slær hann afturábak í átt að teignum og boltinn stöðvast utan glompunnar. Í þessu tilviki má leikmaðurinn slétta svæðin sem hann breytti við að leika boltanum (svo sem fótsporum sem mynduðust við að komast að boltanum) og má einnig slétta önnur svæði í glompunni, hvort sem leikmaðurinn myndaði förin eða þau voru þar fyrir þegar leikmaðurinn kom að glompunni.
8.1b/6
Þegar lagfæra má skemmd sem er að hluta á flötinni og að hluta utan hennar
Ef afmarkað svæði með skemmd er bæði á og utan flatarinnar má lagfæra allt svæðið. Til dæmis, ef boltafar er á jaðri flatarinnar, að hluta á flötinni og að hluta utan hennar, er óeðlilegt að leyfa leikmanni einungis að laga þann hluta skemmdarinnar sem er á flötinni. Því má lagfæra allt boltafarið (bæði á og utan flatarinnar). Sama á við um önnur afmörkuð svæði skemmda, svo sem dýraför, hófför eða för eftir kylfur. Hins vegar, ef hluti skemmda nær út fyrir flötina og ekki er hægt að greina hann sem hluta skemmdarinnar á flötinni má ekki lagfæra þann hluta, ef slíkt myndi bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið. Til dæmis má laga heilt skófar með takkaförum sem nær út fyrir flötina. Hins vegar, ef eitt skófar með takkaförum er á flötinni og annað utan flatarinnar má bara laga skófarið sem er á flötinni, þar sem þetta eru tvö aðskilin svæði skemmda.
8.1d(1)/1
Dæmi þegar leikmönnum er heimilt að endurgera aðstæður sem hafa breyst vegna athafna annars leikmanns eða utanaðkomandi áhrifa
Eftirfarandi eru dæmi um hvenær slík endurgerð er leyfð:
  • Leiklína leikmanns versnar vegna boltafars sem myndaðist á almenna svæðinu af völdum bolta sem var leikið af einhverjum eftir að bolti leikmannsins stöðvaðist.
  • Lega eða svæði fyrirhugaðrar stöðu eða fyrirhugaðrar sveiflu leikmanns versnar við að högg annars leikmanns myndar kylfufar eða eys sandi, jarðvegi, grasi eða öðru efni á eða umhverfis bolta leikmannsins.
  • Bolti leikmanns í glompu liggur nærri bolta annars leikmanns í glompunni. Staða eða sveifla þess leikmanns við högg veldur verri aðstæðum sem hafa áhrif á högg leikmannsins.
Í öllum slíkum tilfellum er leikmanninum heimilt að endurgera aðstæðurnar vítalaust, en þarf ekki að gera það.
8.1d(1)/2
Leikmaður á rétt á að láta lausung eða hreyfanlegar hindranir liggja þar sem þær voru þegar bolti stöðvaðist
Almennt á leikmaður rétt á þeim aðstæðum sem hafa áhrif á höggið sem leikmaðurinn bjó við þegar bolti hans stöðvaðist. Leikmaður má hreyfa lausung eða hreyfanlegar hindranir (regla 15.1 og 15.2) en ef aðstæðurnar sem hafa áhrif á högg annars leikmanns versna við það má sá leikmaður endurgera aðstæðurnar með því að setja þessa hluti aftur á sama stað, samkvæmt reglu 8.1d. Til dæmis stendur leikmaður frammi fyrir pútti niður í móti og tínir upp lausung sem er á milli bolta hans og holunnar en skilur vísvitandi eftir lausung sem er aftan við holuna. Annar leikmaður fjarlægir lausungina aftan við holuna, sem gæti aðstoðað fyrri leikmanninn með því að stöðva bolta hans. Þar sem aðstæðurnar sem hafa áhrif á högg leikmannsins hafa versnað má hann leggja lausungina aftur.
8.1d(2)/1
Dæmi um aðstæður sem hafa versnað vegna náttúrulegra hluta eða náttúruaflanna og leikmanni er ekki heimilt að endurgera
Regla 8.1d heimilar leikmanni ekki að endurgera aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið ef þær breyttust fyrir tilverknað náttúrulegra hluta eða náttúruaflanna (svo sem vinds eða vatns). Eftirfarandi eru dæmi um tilvik þar sem ekki má endurgera slíkar aðstæður:
  • Trjágrein fellur og breytir legu bolta leikmannsins eða svæði stöðu hans eða sveiflu, án þess að valda því að boltinn hreyfist.
  • Skilti eða önnur hindrun fellur eða fýkur í stöðu sem breytir einni eða fleiri aðstæðum sem hafa áhrif á höggið. Sjá reglu 15.2 (Hreyfanlegar hindranir) og reglu 16.1 (Óeðlilegar vallaraðstæður) varðandi hvaða lausn kann að vera leyfð frá hindruninni.
8.1d(2)/2
Leikmaður má ekki endurgera aðstæður sem hafa áhrif á höggið ef þær versnuðu fyrir tilverknað kylfubera eða annars einstaklings að ósk leikmannsins
Leikmaður má ekki endurgera aðstæður sem hafa áhrif á höggið ef aðstæðurnar versnuðu fyrir tilverknað leikmannsins sjálfs. Þetta gildir einnig þegar aðstæðurnar versnuðu af völdum kylfubera leikmannsins, samherja hans eða annars einstaklings sem aðhafðist með leyfi leikmannsins (nema leikmaðurinn má alltaf laga aðstæður sem hafa áhrif á höggið sem hafa versnað af völdum dómara). Eftirfarandi eru dæmi um kringumstæður þar sem ekki má endurgera aðstæðurnar:
  • Kylfuberi leikmanns eða samherji gengur yfir glompu til að sækja hrífu og skilur eftir sig spor í sandinum en með því vernaði leiklína leikmannsins, eða
  • Leikmaðurinn biður annan einstakling um að fjarlægja reipi sem aðskilur áhorfendur frá leikmönnum. Við að fjarlægja reipið losnar trjágrein sem reipið hafði skorðað og svæði fyrirhugaðrar sveiflu leikmannsins versnar.
8.1d(2)/3
Ef leikmaður fer inn í glompu í leiklínu sinni má hann ekki endurgera aðstæður sem hafa versnað
Leikmenn ættu að fara varlega þegar þeir aðhafast eitthvað sem gæti breytt aðstæðum sem hafa áhrif á höggið, því ef aðstæðurnar versna verður leikmaðurinn að búa við það. Til dæmis tekur leikmaður lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum aftan við glompu og lætur bolta falla. Boltinn rúllar inn í glompuna. Ef leikmaðurinn myndar fótspor þegar hann stígur í glompuna til að sækja boltann og láta hann falla aftur má leikmaðurinn ekki koma glompunni í fyrra ástand, ef það hefði í för með sér bætingu samkvæmt reglu 8 því leikmaðurinn bar ábyrgð á að aðstæðurnar versnuðu. Við slíkar kringumstæður gæti leikmaðurinn notað annan bolta þegar hann lætur bolta falla í seinna skiptið (regla 14.3a) eða sýnt sérstaka varkárni þegar hann sækir boltann til að forðast að aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið versni.
8.2

Vísvitandi athafnir leikmanns til að breyta öðrum áþreifanlegum aðstæðum í þeim tilgangi að hafa áhrif á kyrrstæðan bolta sinn eða tilvonandi högg

8.2b/1
Dæmi um vísvitandi athafnir leikmanns til að bæta aðrar áþreifanlegar aðstæður sem hafa áhrif á eigin leik
Regla 8.2 á bara við um að breyta áþreifanlegum aðstæðum, öðrum en aðstæðum sem hafa áhrif á höggið, þegar bolti leikmannsins er kyrrstæður á vellinum eða þegar leikmaðurinn er ekki með bolta í leik. Eftirfarandi eru dæmi um athafnir leikmanns samkvæmt reglu 8.1a (Athafnir sem ekki er leyfðar til að gæta aðstæður) sem væru brot á reglu 8.2 ef þær væru framkvæmdar vísvitandi til að bæta aðrar áþreifanlegar aðstæður til að hafa áhrif á eigin leik (að undanskildu því sem er sérstaklega leyft í reglum 8.1b eða c):
  • Bolti leikmanns er rétt utan flatarinnar og þótt leiklína hans sé beint að holunni er leikmaðurinn hræddur um að boltinn kunni að hafna í nálægri glompu. Áður en hann slær höggið rakar leikmaðurinn sand í þeirri glompu til að tryggja góða legu ef boltinn skyldi hafna í glompunni.
  • Bolti leikmanns liggur efst í brattri brekku og þar sem leikmaðurinn er hræddur um að vindur kunni að feykja boltanum niður brekkuna frá holunni áður en hann nær að leika honum þrýstir leikmaðurinn vísvitandi niður grasi neðan við brekkuna ef boltinn kynni að stöðvast þar.
8.3

Vísvitandi athafnir leikmanns til að breyta áþreifanlegum aðstæðum í þeim tilgangi að hafa áhrif á kyrrstæðan bolta annars leikmanns eða tilvonandi högg hans

8.3/1
Báðir leikmenn fá víti ef áþreifanlegar aðstæður eru bættar með vitneskju hins
Ef leikmaður biður annan leikmann um að breyta áþreifanlegum aðstæðum til bóta fyrir leik sinn, eða heimilar honum það:
  • Leikmaðurinn sem fer að beiðninni fær almenna vítið samkvæmt reglu 8.3, og
  • leikmaðurinn sem óskar eftir eða heimilar bótina fær einnig almenna vítið samkvæmt reglu 8.1 (Athafnir leikmanns sem bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið) eða 8.2 (Vísvitandi athafnir leikmanns til að breyta öðrum áþreifanlegum aðstæðum í þeim tilgangi að hafa áhrif á kyrrstæðan bolta sinn eða tilvonandi högg), eftir atvikum.
Til dæmis í höggleik biður leikmaður A, vegna þekkingarleysis á reglunum, leikmann B um að brjóta grein af tré sem er í leiklínu A. Leikmaður B gerir það og báðir leikmennirnir fá víti. Leikmaður A fær tvö vítahögg fyrir brot á reglu 8.1, því leikmaður B braut greinina að ósk A. Leikmaður B fær tvö vítahögg fyrir brot á reglu 8.3.
SKOÐA FLEIRA