Prenta hluta
19
Ósláanlegur bolti
Tilgangur reglu: Í reglu 19 eru útskýrðir þeir möguleikar sem leikmaðurinn hefur varðandi ósláanlegan bolta. Leikmaðurinn getur valið á milli nokkurra kosta, oftast gegn einu vítahöggi, til að losna úr erfiðum aðstæðum hvar sem er á vellinum (nema innan vítasvæðis).
19
Ósláanlegur bolti
19.2

Lausnarmöguleikar vegna ósláanlegs bolta á almenna svæðinu eða á flötinni

19.2a/1
Leikmaður má taka fjarlægðarlausn þótt síðasta högg hafi verið slegið nær holunni en þar sem ósláanlegur bolti liggur
Ef bolti stöðvast fjær holunni en staðurinn þar sem honum var leikið má samt taka fjarlægðarvíti. Eftirfarandi eru dæmi um hvenær fjarlægðarvíti kann að vera tekið nær holunni:
  • Högg leikmanns af teignum lendir í tré, endurkastast til baka og stöðvast aftan við teiginn. Leikmaðurinn má leika aftur af teignum gegn einu vítahöggi.
  • Leikmaður þarf að pútta niður í móti. Hann púttar, boltinn rúllar út af flötinni og í slæma legu eða inn í vítasvæði. Leikmaðurinn má leika aftur af flötinni gegn einu vítahöggi.
19.2a/2
Fjarlægðarlausn eingöngu heimil frá stað þar sem síðasta högg var slegið
Sá möguleiki að taka fjarlægðarlausn vegna ósláanlegs bolta vísar einungis til síðasta höggs leikmannsins. Leikmaður má ekki fara til baka þangað sem næstsíðasta höggið eða fyrri högg voru slegin. Ef hvorki fjarlægðarlausnin né aftur-á-línu lausnin eru fýsilegar er eini möguleiki leikmannsins að taka hliðarlausn nokkrum sinnum, gegn vítahöggi í hvert sinn, þar til boltinn er kominn á stað þar sem hann er sláanlegur.
19.2/1
Engin trygging fyrir að bolti verði sláanlegur eftir að lausn er tekin vegna ósláanlegs bolta
Þegar tekin er lausn vegna ósláanlegs bolta verður leikmaðurinn að sætta sig við niðurstöðuna, jafnvel þótt hún sé óhagstæð, svo sem þegar bolti er látinn falla og hann stöðvast á upphaflegum stað eða í slæmri legu innan lausnarsvæðisins:
  • Þegar boltinn sem var látinn falla hefur stöðvast innan lausnarsvæðisins stendur leikmaðurinn frammi fyrir nýrri stöðu.
  • Ef leikmaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu að hann geti ekki (eða vilji ekki) leika boltanum þar sem hann liggur nú má hann taka lausn að nýju vegna ósláanlegs bolta, gegn viðbótar vítahöggi, og samkvæmt einhverjum mögulegra lausnarmöguleika í reglu 19.
19.2/2
Láta má bolta falla á hvaða svæði vallarins sem er þegar lausn er tekin vegna ósláanlegs bolta
Leikmaður má taka lausn með því að láta bolta falla innan lausnarsvæðis á hvaða svæði vallarins sem er, samkvæmt þeim möguleikum sem lausn vegna ósláanlegs bolta býður. Þar á meðal má taka lausn frá almenna svæðinu og láta bolta falla innan glompu eða vítasvæðis, á flötina, innan bannreits eða á rangri flöt. Hins vegar, ef leikmaðurinn velur að láta bolta falla inni í bannreit eða á ranga flöt verður leikmaðurinn síðan að taka viðeigandi lausn samkvæmt reglunum frá bannreitnum eða röngu flötinni. Á sama hátt, ef leikmaður velur að láta bolta falla innan vítasvæðis og getur síðan ekki (eða vill ekki) leika boltanum þar sem hann liggur er eini möguleiki leikmannsins að taka frekari lausn gegn fjarlægðarvíti með því að leika þaðan sem síðasta högg var slegið. Ástæðan er eftirfarandi:
  • Lausn vegna ósláanlegs bolta má ekki taka aftur vegna þess að slíka lausn má ekki taka þegar boltinn liggur innan vítasvæðis.
  • Ekki má heldur taka lausn úr vítasvæðinu með aftur-á-línu lausn eða hliðarlausn vegna þess að boltinn skar ekki mörk vítasvæðisins áður en hann stöðvast þar og því er enginn viðmiðunarstaður og engin leið að áætla viðmiðunarstað til að taka slíkar lausnir.
Við að taka fjarlægðarlausn fær leikmaðurinn annað vítahögg (til viðbótar vítahögginu við að taka lausn vegna ósláanlegs bolta).
19.2/3
Viðmiðunarstaður vegna fjarlægðarlausnar breytist ekki fyrr en högg er slegið
Viðmiðunarstaðurinn vegna fjarlægðarlausnar breytist ekki fyrr en leikmaðurinn slær annað högg að bolta sínum í leik, jafnvel þótt leikmaðurinn hafi látið bolta falla samkvæmt einhverri reglu. Til dæmis tekur leikmaður lausn vegna ósláanlegs bolta og lætur bolta falla samkvæmt aftur-á-línu lausn eða hliðarlausn. Boltinn sem var látinn falla helst innan lausnarsvæðisins en rúllar á slæman stað þannig að leikmaðurinn ákveður að boltinn sé aftur ósláanlegur. Gegn viðbótar vítahöggi má leikmaðurinn nota aftur-á-línu lausnina eða hliðarlausnina aftur. Hann getur líka valið að nota fjarlægðarlausnina og viðmiðunarstaðurinn er þá þar sem hann lék síðast, áður en boltinn varð ósláanlegur í fyrra skiptið. Þessi viðmiðunarstaður vegna fjarlægðarlausnar breytist ekki því leikmaðurinn sló ekki högg að boltanum eftir að hann var látinn falla. Niðurstaðan hefði orðið önnur ef leikmaðurinn hefði slegið högg að boltanum sem var látinn falla, því sá staður hefði þá orðið nýr viðmiðunarstaður fyrir fjarlægðarlausn.
19.2/4
Leikmaður má taka vítalausa lausn ef hann lyftir bolta til að taka lausn vegna ósláanlegs bolta en uppgötvar áður en hann lætur bolta falla að boltinn var í grund í aðgerð
Ef leikmaður lyftir bolta sínum til að taka lausn vegna ósláanlegs bolta og uppgötvar síðan að boltinn var innan grundar í aðgerð eða annarra óeðlilegra vallaraðstæðna má leikmaðurinn samt taka vítalausa lausn samkvæmt reglu 16.1, svo fremi að hann hafi ekki sett boltann í leik samkvæmt reglu 19 vegna ósláanlegs bolta.
19.2/5
Leikmaður verður að finna boltann til að taka aftur-á-línu lausn eða hliðarlausn
Ekki má nota aftur-á-línu lausnina eða hliðarlausnina samkvæmt reglum 19.2 og 19.3 nema upphaflegi boltinn hafi fundist, því í báðum lausnunum er staðsetning upphaflega boltans notuð sem viðmiðunarstaður. Ef önnur hvor lausnaraðferðin er notuð til að taka lausn vegna ósláanlegs bolta og miðað er við bolta sem er ekki bolti leikmannsins er litið svo á að leikmaðurinn hafi tekið fjarlægðarlausn, því það er eina reglan sem nota má ef leikmaðurinn hefur ekki fundið upphaflegan bolta sinn. Til dæmis finnur leikmaður flækingsbolta í slæmri legu. Fyrir mistök heldur leikmaðurinn að þetta sé sinn bolti, ákveður að taka hliðarlausn (regla 19.2c), skiptir um bolta og leikur honum. Þegar leikmaðurinn gengur áfram til að slá næsta högg finnur hann bolta sinn. Þar sem leikmaðurinn vissi ekki staðsetningu upphaflega boltans þegar hann setti skiptiboltann í leik er litið svo á að hann hafi tekið fjarlægðarlausn og á röngum stað (regla 14.7). Í holukeppni tapar leikmaðurinn holunni fyrir að leika af röngum stað. Í höggleik fær leikmaðurinn eitt högg í víti fyrir að taka fjarlægðarlausn (regla 18.1) og tvö vítahögg til viðbótar fyrir að gera það á röngum stað. Ef rangi staðurinn fól í sér alvarlegt brot verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin áður en hann slær högg til að hefja leik á annarri holu eða, ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en hann skilar skorkorti sínu.
SKOÐA FLEIRA