Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum (þar á meðal óhreyfanlegum hindrunum). Hættulegar dýraaðstæður. Sokkinn bolti
Tilgangur reglu: Regla 16 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má taka lausn án vítis með því að leika bolta frá öðrum stað, svo sem þegar truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna eða hættulegra dýraaðstæðna.
Þessar aðstæður eru ekki taldar hluti þeirrar áskorunar að leika völlinn og lausn án vítis er venjulega leyfð, annars staðar en á vítasvæði.
Oftast tekur leikmaðurinn lausn með því að láta bolta falla innan lausnarsvæðis sem ákvarðast af nálægasta stað fyrir fulla lausn.
Reglan fjallar einnig um lausn án vítis þegar bolti leikmannsins er sokkinn í eigin boltafari á almenna svæðinu.
16
Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum (þar á meðal óhreyfanlegum hindrunum). Hættulegar dýraaðstæður. Sokkinn bolti
16.1
Óeðlilegar vallaraðstæður (þar á meðal óhreyfanlegar hindranir)
16.1a(3)/1
Hindrun sem truflar óeðlilegt högg þarf ekki að koma í veg fyrir að leikmaður fái lausn
Í sumum tilvikum getur leikmaður þurft að beita óeðlilegri sveiflu, stöðu eða leikátt við að leika bolta sínum, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Ef þetta óeðlilega högg er réttlætanlegt miðað við kringumstæður á leikmaðurinn rétt á vítalausri lausn samkvæmt reglu 16.1.Til dæmis er bolti rétthents leikmanns á almenna svæðinu en svo nærri vallarmarkahlut vinstra megin við brautina að hann verður að nota örvhenta sveiflu til að leika boltanum í átt að holunni. Við örvhenta sveiflu hefur staða leikmannsins truflun af óhreyfanlegri hindrun.Leikmaðurinn á rétt á lausn frá óhreyfanlegu hindruninni því örvhent sveifla er réttlætanleg undir þessum kringumstæðum.Eftir að hafa tekið lausn vegna örvhentu sveiflunnar getur leikmaðurinn notað eðlilega rétthenta sveiflu við næsta högg. Ef hindrunin truflar sveiflu eða stöðu vegna rétthentu sveiflunnar má leikmaðurinn taka lausn vegna rétthentu sveiflunnar samkvæmt reglu 16.1b, eða leika boltanum þar sem hann liggur.
16.1a(3)/2
Leikmaður má ekki nota högg sem er greinilega óeðlilegt til að fá lausn frá aðstæðum
Leikmaður má ekki nota greinilega óraunsætt högg til að fá lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum. Ef högg leikmannsins er greinilega óraunsætt miðað við kringumstæður er lausn samkvæmt reglu 16.1 ekki heimil og leikmaðurinn verður annaðhvort að leika boltanum þar sem hann liggur eða taka lausn vegna ósláanlegs bolta.Til dæmis er bolti rétthents manns í slæmri legu á almenna svæðinu. Nálæg óhreyfanleg hindrun myndi ekki trufla eðlilegt rétthent högg en myndi trufla örvhent högg. Leikmaðurinn segist ætla að slá næsta högg örvhent og heldur að hann fái lausn samkvæmt reglu 16.1b þar sem hindrunin myndi trufla slíkt högg.Hins vegar, þar sem eina ástæða leikmannsins fyrir að nota örvhent högg er að losna úr slæmri legu með því að taka lausn er örvhent högg greinilega óraunsætt og leikmaðurinn á ekki rétt á lausn samkvæmt reglu 16.1b (regla 16.1a(3)).Sama myndi gilda um greinilega óraunsæja stöðu, leikátt eða val á kylfu.
16.1a(3)/3
Beiting reglu 16.1a(3) þegar bolti er neðanjarðar í dýraholu
Við að ákvarða hvort neita eigi um lausn samkvæmt reglu 16.1a(3) vegna bolta sem liggur neðanjarðar í dýraholu, þarf að meta leguna sem boltinn hefði ef hann lægi við inngang holunnar, en ekki staðsetningu boltans neðanjarðar í holunni.Til dæmis stöðvast bolti leikmanns neðanjarðar í holu sem dýr hefur myndað á almenna svæðinu. Stór runni er rétt við og slútir yfir innganginn í dýraholuna.Svæðið við inngang dýraholunnar er þess eðlis að það væri greinilega óraunsætt að slá högg að boltanum ef dýraholan væri ekki þarna (vegna runnans sem slútir yfir innganginn). Í slíku tilviki er leikmanninum ekki heimilt að taka lausn samkvæmt reglu 16.1b. Leikmaðurinn verður að leika boltanum þar sem hann liggur eða fara að samkvæmt reglu 19 (Ósláanlegur bolti).Ef boltinn liggur í dýraholu en er ekki neðanjarðar er staðsetning boltans notuð til að ákvarða hvort þá sé greinilega óraunsætt að leika boltanum og hvort regla 16.1a(3) eigi við. Ef regla 16.1a(3) á ekki við má leikmaðurinn taka vítalausa lausn samkvæmt reglu 16.1b. Sama myndi gilda vegna bolta sem væri neðanjarðar í óhreyfanlegri hindrun.
16.1b/1
Lausnaraðferð þegar bolti liggur í óeðlilegum vallaraðstæðum neðanjarðar
Þegar bolti fer inn í óeðlilegar vallaraðstæður og stöðvast neðanjarðar (og regla 16.1a(3) á ekki við) ræðst lausnaraðferðin af því hvort boltinn liggur innan almenna svæðisins (regla 16.1b), í glompu (regla 16.1c), innan vítasvæðis (regla 17.1c) eða er út af (regla 18.2b).Eftirfarandi eru dæmi um hvernig lausn er heimil og hvernig lausn er tekin:
Bolti fer inn í dýraholu um inngang sem er í flatarglompu og boltinn finnst undir flötinni. Þar sem boltinn er hvorki í glompunni né á flötinni er lausn tekin samkvæmt reglu 16.1b vegna bolta á almenna svæðinu. Staðurinn þar sem boltinn liggur í dýraholunni er notaður til að ákvarða nálægasta stað fyrir fulla lausn og lausnarsvæðið verður að vera á almenna svæðinu.
Bolti fer inn í dýraholu um inngang sem er á stað utan vallarins. Hluti holunnar er innan vallarmarkanna og á almenna svæðinu. Boltinn finnst innan vallar, neðanjarðar og á almenna svæðinu. Lausn er tekin samkvæmt reglu 16.1b vegna bolta á almenna svæðinu. Staðurinn þar sem boltinn liggur í dýraholunni er notaður til að ákvarða nálægasta stað fyrir fulla lausn og lausnarsvæðið verður að vera á almenna svæðinu.
Bolti fer inn í dýraholu um inngang sem er á almenna svæðinu en einungis um fet frá vallarmarkagirðingu. Dýraholan hallar mikið niður fyrir girðinguna og boltinn finnst utan vallarmarkanna. Þar sem boltinn er utan vallar verður leikmaðurinn að taka fjarlægðarlausn gegn einu vítahöggi og leika bolta þaðan sem síðasta högg var leikið (regla 18.2b).
Bolti kann að hafa farið inn í dýraholu um inngang sem er á almenna svæðinu en hvorki er vitað né nánast öruggt að boltinn, sem hefur ekki fundist, sé í óeðlilegum vallaraðstæðum. Í þessu tilviki er boltinn týndur og leikmaðurinn verður að taka fjarlægðarlausn gegn einu vítahöggi og leika bolta þaðan sem síðasta högg var slegið (regla 18.2b).
16.1c/1
Leikmaður tekur mestu mögulegu lausn, ákveður síðan að taka aftur-á-línu lausn
Ef leikmaðurinn tekur mestu mögulegu lausn mun hann enn hafa truflun frá óeðlilegum vallaraðstæðum og má taka lausn að nýju með því að nota aftur-á-línu aðferðina gegn einu vítahöggi. Ef leikmaðurinn velur að gera það er viðmiðunarstaðurinn fyrir aftur-á-línu lausnina þar sem boltinn stöðvaðist eftir að leikmaðurinn tók mestu mögulegu lausn.
16.1c/2
Eftir að hafa lyft bolta má leikmaður skipta um lausnaraðferð áður en hann setur bolta í leik
Ef leikmaður lyftir bolta sínum til að taka lausn samkvæmt reglu 16.1c er hann ekki bundinn við þá lausnaraðferð sem hann valdi samkvæmt reglu 16.1c fyrr en upphaflegi boltinn er settur í leik eða honum skipt út fyrir annan bolta.Til dæmis velur leikmaður að taka lausn frá tímabundnu vatni í glompu og lyftir boltanum í þeim tilgangi að taka vítalausa lausn innan glompunnar (regla 16.1c(1)). Leikmaðurinn áttar sig þá á að staðurinn þar sem hann þarf að láta boltann falla innan glompunnar, samkvæmt reglunni, er mjög slæmur.Eftir að hafa lyft boltanum, en áður en hann setur boltann í leik, getur leikmaðurinn valið annan af þeim tveimur kostum sem reglan býður upp á, þótt upphaflega hafi hann ætlað að taka lausn samkvæmt reglu 16.1c(1).
16.1/1
Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum kann að leiða til betri eða verri aðstæðna
Ef leikmaður fær betri aðstæður sem hafa áhrif á höggið við að taka lausn samkvæmt reglu 16.1 er það einfaldlega hans lukka. Ekkert í reglu 16.1 krefst þess að hann hafi samskonar aðstæður eftir að lausn er tekin.Til dæmis, við að taka lausn frá vökvunarstút (óhreyfanlegri hindrun) í karga er nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn eða lausnarsvæðið hugsanlega á brautinni. Ef þetta leiðir til þess að leikmaðurinn getur látið bolta falla á brautina er það leyfilegt.Í sumum tilvikum geta aðstæðurnar verið lakari fyrir leikmanninn eftir að lausn er tekin, samanborið við aðstæðurnar áður en hann tók lausn, svo sem þegar nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn eða lausnarsvæðið eru í grýttu umhverfi.
16.1/2
Ef truflun er fyrir hendi frá öðrum óeðlilegum vallaraðstæðum eftir að lausn er tekin frá fyrri aðstæðum, má taka lausn aftur
Ef leikmaður hefur truflun frá öðrum óeðlilegum vallaraðstæðum eftir að hafa tekið fulla lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum stendur hann frammi fyrir nýjum aðstæðum og hann má taka lausn að nýju samkvæmt reglu 16.1.Til dæmis eru tvö svæði með tímabundnu vatni nærri hvort öðru á almenna svæðinu. Leikmaðurinn hefur truflun frá öðru svæðinu en ekki hinu. Hann tekur lausn samkvæmt reglu 16.1 og boltinn stöðvast innan lausnarsvæðisins á stað þar sem ekki er lengur truflun frá fyrra svæðinu með tímabundna vatninu en þess í stað er nú truflun frá hinu svæðinu.Leikmaðurinn má leika boltanum þar sem hann liggur eða taka lausn frá seinna svæðinu, samkvæmt reglu 16.1.Sama niðurstaða fæst ef truflun er vegna annarra óeðlilegra vallaraðstæðna.
16.1/3
Ef truflun er fyrir hendi frá tvennum aðstæðum getur leikmaðurinn valið frá hvorum hann tekur lausn
Stundum hefur leikmaður truflun frá tvennum aðstæðum á sama tíma. Þá má leikmaðurinn velja frá hvorum aðstæðunum hann tekur lausn. Ef hann hefur truflun frá hinum aðstæðunum eftir að hann hefur tekið lausn má hann taka nýja lausn frá aðstæðunum sem þá eru að trufla hann.Eftirfarandi eru nokkur dæmi:
Óhreyfanleg hindrun á almenna svæðinu truflar svæði fyrirhugaðrar sveiflu leikmannsins. Hindrunin er innan svæðis sem er merkt sem grund í aðgerð. Leikmaðurinn má taka fyrst lausn frá hindruninni, samkvæmt reglu 16.1, láta bolta falla innan grundarinnar ef hún er hluti lausnarsvæðisins og velja síðan hvort hann leikur boltanum þar sem hann liggur innan grundarinnar eða tekur lausn samkvæmt reglu 16.1b. Á sama hátt má leikmaðurinn taka lausn frá grund í aðgerð og ef þá er enn truflun frá hindruninni, taka þá lausn frá hindruninni.
Bolti leikmanns er sokkinn á almenna svæðinu, innan grundar í aðgerð. Leikmaðurinn má taka lausn samkvæmt reglu 16.1 vegna truflunar frá grund í aðgerð eða samkvæmt reglu 16.3 vegna sokkins bolta.
Hins vegar má leikmaðurinn ekki í slíkum tilfellum taka lausn frá báðum aðstæðunum í einu með því að láta bolta falla á einu lausnarsvæði sem ákvarðast af sameiginlegum nálægasta stað fyrir fulla lausn frá báðum aðstæðunum, nema undir þeim kringumstæðum að leikmaðurinn hefur tekið endurtekna lausn frá báðum truflununum og er svo til kominn á sama stað og hann byrjaði.
16.1/4
Hvernig taka á lausn þegar bolti liggur á upphækkuðum hluta óhreyfanlegrar hindrunar
Þegar bolti liggur á upphækkuðum hluta óhreyfanlegrar hindrunar er nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn á jörðinni undir hindruninni. Þetta er gert til að auðvelda að ákvarða nálægasta stað fyrir fulla lausn og koma í veg fyrir að hann verði til dæmis í nálægri trjágrein.Til dæmis stöðvast bolti á upphækkuðum hluta óhreyfanlegrar hindrunar á almenna svæðinu, svo sem á göngubrú yfir djúpt gil.Ef leikmaðurinn velur að taka lausn í þessu tilviki er litið fram hjá lóðréttri fjarlægð og nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn er sá staður (staður X) á jörðinni beint fyrir neðan þann stað þar sem boltinn liggur á hindruninni, að því gefnu að leikmaðurinn hafi þar enga truflun eins og hún er skilgreind í reglu 16.1a. Leikmaðurinn má taka lausn samkvæmt reglu 16.1b með því að láta bolta falla innan lausnarsvæðis þar sem staður X er viðmiðunarstaður.Ef truflun er vegna einhvers hluta hindrunarinnar (svo sem stoðvirkja) vegna bolta sem staðsettur er á stað X má leikmaðurinn taka lausn samkvæmt reglu 16.1b með því að nota stað X sem ímyndaða staðsetningu boltans til að finna nálægasta staðinn fyrir fulla lausn.Sjá skýringar 16.1/5 varðandi þegar bolti liggur neðanjarðar og truflun er vegna óhreyfanlegrar hindrunar.
16.1/5
Hvernig mæla á nálægasta stað fyrir fulla lausn þegar bolti er neðanjarðar í óeðlilegum vallaraðstæðum
Þegar bolti er neðanjarðar í óeðlilegum vallaraðstæðum (svo sem göngum) er aðferðin önnur en þegarhindrunin er upphækkuð. Þegar boltinn er neðanjarðar er tekið tillit til allra fjarlægða, láréttra og lóðréttra, þegar nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn er ákvarðaður. Stundum myndi nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn vera nærri inngangi ganganna og stundum væri hann á jörðinni beint ofan við staðinn þar sem boltinn liggur í göngunum.Sjá skýringar 16.1/4 varðandi þegar bolti liggur á upphækkuðum hluta óhreyfanlegrar hindrunar.
16.1/6
Leikmaður má bíða með að ákvarða nálægasta stað fyrir fulla lausn þegar bolti er á hreyfingu í vatni
Þegar bolti er á hreyfingu í tímabundnu vatni, hvort sem leikmaður velur að lyfta boltanum sem hreyfist eða skipta um bolta við að taka lausn samkvæmt reglu 16.1, er honum heimilt að láta boltann hreyfast þar til hann er kominn á betri stað, áður en leikmaðurinn ákvarðar nálægasta staðinn fyrir fulla lausn. Þetta má þó ekki tefja leik um of (undantekning 3 við reglu 10.1d og regla 5.6a).Til dæmis hreyfist bolti leikmanns í tímabundnu vatni sem liggur þvert yfir brautina. Leikmaðurinn kemur að boltanum þegar boltinn er á stað A og sér að þegar boltinn kemur að stað B, sem er fimm metra í burtu, verður nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn mun hagstæðari en ef lausn er tekin frá stað A.Svo fremi sem leikmaðurinn tefji ekki leik um of (regla 5.6a) , má leikmaðurinn bíða með að taka lausn þar til boltinn hefur náð stað B.
16.3
Sokkinn bolti
16.3a(2)/1
Að álykta hvort bolti er sokkinn í eigin boltafari
Svo fremi að eðlilegt sé að ætla að boltinn sé í eigin boltafari má leikmaðurinn taka lausn samkvæmt reglu 16.3b.Dæmi um hvenær eðlilegt er að ætla að bolti sé í eigin boltafari er þegar innáhögg leikmanns lendir í mjúkum jarðvegi rétt framan við flötina, á almenna svæðinu. Leikmaðurinn sér boltann skoppa áfram en spólast svo aftur á bak. Þegar leikmaðurinn kemur að boltanum sér hann að boltinn er sokkinn í eina boltafarinu í nágrenninu. Þar sem eðlilegt er að ætla að boltinn hafi rúllað til baka í eigið boltafar má leikmaðurinn taka lausn samkvæmt reglu 16.3b.Hins vegar, ef teighögg leikmanns lendir á brautinni og boltinn skoppar yfir hæð á stað sem er ekki sjáanlegur á teignum og boltinn finnst svo í boltafari er ekki eðlilegt að álykta að boltinn sé sokkinn í eigin boltafari. Því má leikmaðurinn ekki taka lausn samkvæmt reglu 16.3b.
16.3b/1
Að taka lausn vegna sokkins bolta á almenna svæðinu þegar staðurinn þétt aftan við boltann er ekki á almenna svæðinu
Þegar leikmanni er heimilt að taka lausn frá sokknum bolta á almenna svæðinu, þá eru tilfelli þar sem staðurinn þétt aftan við boltann, þar sem boltinn er sokkinn, er ekki á almenna svæðinu.Í slíkum tilfellum, þá skal leikmaðurinn finna næsta stað á almenna svæðinu sem er ekki nær holu en staðurinn þétt aftan við boltann þar sem boltinn er sokkinn, þessi staður verður viðmiðunarpunktur fyrir lausnarsvæðið samkvæmt reglu 16.3b.Þó þessi staður sé yfirleitt mjög nálægt staðnum þar sem boltinn er sokkinn, þá gæti hann verið í nokkurri fjarlægð (svo sem þegar boltinn er sokkinn rétt utan vítasvæðis og, út frá lögun vítasvæðisins, gæti leikmaðurinn þurft að fara einhverja fjarlægð til hægri eða vinstri til að finna stað á almenna svæðinu sem er ekki nær holunni).Þetta á einnig við þegar bolti er innan vallar en sokkinn við vallarmörk eða þegar boltinn er sokkinn í vegg eða bakka rétt ofan við glompu. (Nýtt)