Tilbaka
5

Að leika umferðina

Fara í kafla
Opinberu reglurnar
Sjá innihald reglu
Prenta hluta
5
Að leika umferðina
Tilgangur reglu: Regla 5 fjallar um hvernig umferð er leikin, svo sem hvar og hvenær leikmaður má æfa sig á vellinum fyrir umferð eða á meðan umferð er leikin, hvenær umferð hefst og henni lýkur og hvað gerist þegar stöðva þarf leik eða hefja hann að nýju. Leikmönnum er ætlað að:
  • Hefja hverja umferð á réttum tíma og
  • Leika samfellt og rösklega á hverri holu þar til umferðinni er lokið.
Þegar komið er að leikmanni að slá er mælst til að ekki líði meira en 40 sekúndur þar til höggið er slegið og oftast styttri tími.
5
Að leika umferðina
5.2

Æfing á vellinum fyrir eða á milli umferða

5.2b/1
Merking þess að hafa „lokið leik síðustu umferðar þann dag“ í höggleik
Í höggleik hefur leikmaður lokið síðustu umferð dagsins þegar hann mun ekki leika fleiri holur þann dag á vellinum, sem hluta keppninnar. Til dæmis, eftir að hafa lokið leik í fyrstu umferð á fyrri degi tveggja daga 36 hola höggleikskeppni má leikmaður samkvæmt reglu 5.2b æfa sig á keppnisvellinum síðar um daginn svo fremi að næsta umferð hans hefjist ekki fyrr en næsta dag. Hins vegar, ef leikmaðurinn lýkur einni umferð en mun leika aðra umferð eða hluta umferðar á vellinum sama dag myndi æfing á vellinum brjóta í bága við reglu 5.2b. Til dæmis, eftir að hafa lokið leik í höggleiks umferð í undankeppni fyrir holukeppni æfir leikmaður á vellinum. Eftir að leik er lokið kemur í ljós að leikmaðurinn var jafn í síðasta sæti um að komast áfram í holukeppnina . Skera átti úr um jafntefli með bráðabana höggleiks sem ætlunin var að leika á vellinum samdægurs, strax að loknum leik. Ef æfing leikmannsins á vellinum var fyrsta brot hans á reglu 5.2b fær leikmaðurinn almenna vítið sem beitt er á fyrstu holu bráðabanans. Annars fær leikmaðurinn frávísun úr bráðabananum samkvæmt reglu 5.2b fyrir að æfa á vellinum fyrir bráðabanann.
5.2b/2
Æfing kann að vera heimil á vellinum fyrir umferð í keppni sem nær yfir samfellda daga
Þegar keppni er áætluð á velli yfir samfellda daga og nefndin ætlar sumum keppendum að leika á fyrsta dagi og öðrum síðar má leikmaður æfa á vellinum alla þá daga sem hann á ekki að leika sína umferð. Til dæmis, ef keppni er áætluð á laugardegi og sunnudegi og leikmaður á einungis að leika á sunnudegi má hann æfa sig á vellinum á laugardegi.
5.2b/3
Beiting refsinga fyrir að æfa á vellinum fyrir umferð í höggleik
Regla 5.2b skýrir hvenær leikmaður má ekki æfa á vellinum fyrir umferð í höggleik. Refsiákvæðið í reglu 5.2b er ekki takmarkað við að slá högg, þar sem með „æfingu á vellinum“ er einnig átt við að prófa yfirborð flatarinnar með því að rúlla bolta eða nudda yfirborðið. Ef leikmaður nuddar yfirborðið á einni flöt, hefur hann einungis brotið reglu 5.2b einu sinni, óháð því hversu oft hann nuddar yfirborð sömu flatar. (Bætt við í desember 2022)
5.2/1
Merking orðsins „völlur" í reglu 5.2
Við notkun á reglu 5.2 er orðið „völlur" (þegar það er ekki notað sem skilgreining og skáletrað) notað til að tákna þær holur sem leiknar eru í umferð keppninnar sem fer fram þann daginn. Dæmi um þegar æfing er leyfð fyrir umferð eru:
  • Leikmaður, sem á að hefja leik á einum velli, má æfa á öðrum velli fyrr um daginn, jafnvel þótt báðir vellirnir séu staðsettir á sömu landareigninni og engin mörk séu á milli þeirra tveggja.
  • Leikmaður sem leika á holur 1-9 í keppni má æfa á holum 10-18 fyrr sama dag. (Nýtt)
5.3

Upphaf og lok umferðar

5.3a/1
Mjög sérstakar aðstæður sem réttlæta að víti vegna rástíma sé fellt niður
Hugtakið „mjög sérstakar aðstæður“ í undantekningu 3 við reglu 5.3a merkir ekki óheppileg eða óvænt atvik sem leikmaðurinn ræður engu um. Leikmaðurinn ber ábyrgð á að ætla sér nægan tíma til að komast á völlinn og hann verður að gera ráð fyrir hugsanlegum töfum. Engar sérstakar leiðbeiningar eru í reglunum um að ákvarða hvaða aðstæður eru mjög sérstakar, það fer eftir atvikum og verður að metast af nefndinni. Mikilvægt atriði sem ekki er fjallað um í dæmunum hér á eftir er að taka ætti tillit til þess ef margir leikmenn eiga hlut að máli, að því marki að nefndin kunni að telja atvikið mjög sérstakt. Eftirfarandi eru dæmi um aðstæður sem ætti að telja mjög sérstakar:
  • Leikmaðurinn var á vettvangi slyss og veitti læknisfræðilega aðstoð eða þurfti að gefa skýrslu sem vitni og myndi ella hafa mætt á réttum tíma.
  • Eldvarnarkerfi fór í gang á hóteli leikmannsins og hann varð að yfirgefa hótelið. Þegar leikmaðurinn gat farið aftur inn í hótelherbergi sitt til að klæðast eða sækja útbúnað sinn var honum orðið ómögulegt að mæta á rásstað á réttum tíma.
Eftirfarandi eru dæmi um aðstæður sem ætti almennt ekki að telja mjög sérstakar:
  • Leikmaðurinn villist eða bíll hans bilar á leiðinni á völlinn.
  • Þung umferð eða slys veldur því að ferðin á völlinn tekur lengri tíma en leikmaðurinn reiknaði með.
5.3a/2
Merking hugtaksins „rásstaður“
Í reglu 5.3a er „rásstaður“ teigur holunnar þar sem leikmaðurinn mun hefja umferð sína, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar. Til dæmis getur nefndin ræst suma ráshópa á 1. teig og aðra á 10. teig. Ef ræst er af öllum teigum getur nefndin ákveðið á hvaða holu hver ráshópur eigi að ræsa. Nefndin getur sett viðmið um hvað felst í að leikmaður sé á rásstað. Til dæmis getur nefndin tilkynnt að til að vera á rásstað verði leikmaðurinn að vera innan áhorfendagirðingar við teig holunnar sem hann á að leika.
5.3a/3
Merking hugtaksins „tilbúinn til leiks“
Hugtakið „tilbúinn til leiks“ merkir að leikmaðurinn hafi minnst eina kylfu og bolta sem hann getur notað án tafa. Til dæmis, ef leikmaður mætir á rásstað sinn fyrir rástímann með bolta og kylfu (jafnvel þótt það sé pútter leikmannsins) telst hann tilbúinn til leiks. Ákveði leikmaðurinn að bíða eftir annarri kylfu þegar komið er að honum að leika getur hann bakað sér víti fyrir óhæfilega töf (regla 5.6a).
5.3a/4
Leikmaður á rásstað en yfirgefur síðan rásstaðinn
Ef leikmaður er á rásstað, tilbúinn til leiks, en yfirgefur síðan rásstaðinn af einhverjum ástæðum fer reglan sem beitt er eftir því hvort leikmaðurinn er tilbúinn til leiks á rásstaðnum á rástíma sínum. Til dæmis er rástími leikmanns kl. 9:00 og hann er tilbúinn til leiks á rásstaðnum kl. 8:57. Leikmaðurinn uppgötvar þá að hann hafði gleymt einhverju í skáp sínum í búningsklefanum og yfirgefur rásstaðinn. Ef leikmaðurinn er ekki mættur aftur á rásstað kl. 9:00:00 er hann of seinn á rásstað og regla 5.3a á við. Hins vegar, ef leikmaðurinn var á rásstaðnum, tilbúinn til leiks, kl. 9:00 og yfirgaf þá rásstaðinn kann leikmaðurinn að hljóta víti samkvæmt reglu 5.6a (óhæfileg töf) þar sem hann uppfyllti kröfur reglu 5.3a um að vera tilbúinn til leiks á rásstað á rástíma sínum.
5.3a/5
Holukeppni hefst á annarri holu þegar báðir leikmenn mæta of seint
Þegar báðir leikmennirnir í viðureign í holukeppni mæta á rásstað, tilbúnir til leiks, innan fimm mínútna frá rástíma sínum og hvorugur hefur lent í mjög sérstökum aðstæðum (undantekning 3) tapa þeir báðir fyrstu holunni og fyrsta holan fellur því. Til dæmis ef rástíminn er kl. 9:00 og leikmaðurinn mætir á rásstað tilbúinn til leiks kl. 9:02 og mótherjinn mætir tilbúinn til leiks kl. 9:04 tapa þeir báðir fyrstu holunni, jafnvel þótt leikmaðurinn hafi mætt á undan mótherjanum (undantekning 1). Því er fyrsta holan jöfn og leikurinn hefst á annarri holu. Það er vítalaust þótt þeir leiki fyrstu holuna til að komast á teig annarrar holu.
5.5

Æfing á meðan umferð er leikin eða á meðan leikur hefur verið stöðvaður

5.5a/1
Reglubrot að slá æfingahögg með bolta af svipaðri stærð og samþykktur golfbolti
„Æfingahögg“ samkvæmt reglu 5.5a nær ekki einungis yfir högg sem slegin eru með kylfu að samþykktum golfbolta, heldur að öllum öðrum tegundum bolta sem eru af svipaðri stærð og golfbolti, svo sem æfingaboltum úr plasti. Að slá tíi eða náttúrulegum hlutum (svo sem steinum eða könglum) teljast ekki æfingahögg.
5.5c/1
Leyfi til viðbótaræfingar fellur niður þegar höggleiksumferð hefst aftur
Þegar nefndin hefur leik að nýju í höggleik eftir að honum var frestað hafa allir leikmenn sem áður höfðu byrjað umferð sína hafið leik umferðarinnar að nýju. Þar af leiðir að þeir leikmenn mega ekki lengur æfa sig á annan hátt en leyft er samkvæmt reglu 5.5b (Takmarkanir á æfingu á milli hola). Til dæmis, ef nefndin frestar leik og ákveður að leikur skuli hefjast aftur kl. 8:00 næsta morgun, má leikmaður sem er í þriðja ráshópi sem á að hefja leik að nýju á tilteknum teig ekki halda áfram æfingu á æfingasvæði eftir að leikur hefur byrjað kl. 8:00. Umferð leikmannsins er hafin jafnvel þótt ráshópur hans geti ekki strax slegið næsta högg. Eina æfing sem er leyfð er að pútta eða vippa á eða nærri flöt síðustu holu, á æfingapúttflöt eða á teig næstu holu.
5.6

Óþarfa tafir. Leikið rösklega

5.6a/1
Dæmi um tafir sem teljast eðlilegar og óeðlilegar
Óeðlilegar tafir í skilningi reglu 5.6a eru tafir sem orsakast af athöfnum leikmannsins, eru á valdi leikmannsins og hafa áhrif á aðra leikmenn eða tefja keppnina. Stuttar tafir vegna eðlilegra hluta sem eiga sér stað í umferðinni eða eru ekki á valdi leikmannsins eru venjulega taldar „eðlilegar“. Taka þarf tillit til allra kringumstæðna þegar ákvarðað er hvort athafnir séu eðlilegar eða óeðlilegar, svo sem hvort leikmaðurinn bíður eftir öðrum leikmönnum í sama ráshópi eða í ráshópnum á undan. Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem myndu líklega teljast eðlilegar:
  • Stoppa í stutta stund í golfskálanum eða veitingahúsi til að fá mat eða drykk.
  • Ráðfæra sig við aðra í ráshópnum um hvort ljúka eigi holunni þegar nefndin hefur frestað leik, af ástæðum sem ekki eru hættulegar (regla 5.7b(2)).
Eftirfarandi eru dæmi um athafnir sem myndu líklega teljast óeðlilegar ef þær valda meiri en stuttri töf á leik:
  • Fara til baka á teig frá flöt til að sækja kylfu sem gleymdist.
  • Halda leit að týndum bolta áfram í nokkrar mínútur eftir að þriggja mínútna leitartíminn er liðinn.
  • Stöðva í golfskálanum eða veitingahúsi til að fá mat eða drykk, í meira en nokkrar mínútur, hafi nefndin ekki heimilað það.
5.6a/2
Leikmanni sem slasast eða veikist skyndilega eru venjulega heimilaðar 15 mínútur til að jafna sig
Ef leikmaður veikist skyndilega eða slasast (t.d. vegna hitaslags, býflugnastungu eða fær golfbolta í sig) ætti nefndin venjulega að gefa leikmanninum allt að 15 mínútur til að jafna sig. Ef leikmaðurinn getur ekki haldið leik þá áfram teldist hann vera að valda óhæfilegri töf á leik. Nefndin ætti einnig að öllu jöfnu að beita þessum sömu tímamörkum sem heildartíma sem leikmaður fær ef hann þarf að þiggja meðferð vegna meiðsla á meðan umferð er leikin.
5.7

Að stöðva leik. Að hefja leik að nýju

5.7a/1
Hvenær leikmaður hefur stöðvað leik
Að stöðva leik í skilningi reglu 5.7a getur orsakast af meðvitaðri athöfn leikmannsins eða það getur falist í svo langri töf að hún teljist stöðvun leiks. Fjallað er um tímabundnar tafir, hvort sem þær eru eðlilegar eða óeðlilegar, í reglu 5.6a (Óeðlileg töf). Eftirfarandi eru dæmi um tilvik þar sem nefndin myndi líklega veita leikmanni frávísun samkvæmt reglu 5.7a fyrir að hafa stöðvað leik:
  • Leikmaðurinn gengur af vellinum í bræði, án þess að ætla að snúa til baka.
  • Leikmaðurinn stoppar í golfskálanum í langan tíma eftir níu holur til að horfa á sjónvarp eða fá sér málsverð, þegar nefndin hefur ekki heimilað það.
  • Leikmaðurinn leitar skjóls frá rigningu í umtalsverðan tíma.
5.7b/1
Að láta bolta falla eftir að leik hefur verið frestað telst ekki brot á reglu um stöðvun leiks
Eftir að leik hefur verið frestað, ef leikmaður heldur áfram að fylgja reglu, t.d. með því að láta bolta falla, ákvarða nálægasta stað fyrir fulla lausn eða halda leit áfram, er það vítalaust. Hins vegar, ef nefndin hefur gefið merki um tafarlausa frestun, í ljósi tilgangs reglu 5.7b(1), er mælt með að allir leikmenn leiti strax skjóls, án þess að aðhafast neitt annað.
5.7b(1)/1
Kringumstæður sem réttlæta að leikmaður stöðvi ekki leik
Samkvæmt reglu 5.7b(1) verða allir leikmenn að stöðva leik tafarlaust ef nefndin tilkynnir tafarlausa frestun leiks. Tilgangur þessarar frestunar er að tæma völlinn eins fljótt og mögulegt er þegar hugsanleg hætta er fyrir hendi, svo sem vegna eldinga. Hins vegar getur skapast óvissa eða misskilningur um hvenær frestun er tilkynnt og kringumstæður geta skýrt eða réttlætt að leikmenn stöðvuðu ekki leik tafarlaust. Í slíkum tilvikum leyfir undantekningin við reglu 5.7b nefndinni að ákvarða að ekki hafi verið um brot að ræða á reglunni. Ef leikmaður slær högg eftir að leik hefur verið frestað verður nefndin að skoða allar staðreyndir málsins áður en hún ákveður hvort leikmaðurinn eigi að fá frávísun. Eftirfarandi eru dæmi um tilvik þar sem nefndin myndi líklega ákvarða að réttlætanlegt hafi verið að leik var haldið áfram eftir að frestun var lýst yfir:
  • Leikmaðurinn er á afskekktum hluta vallarins og heyrir ekki merkjagjöfina um frestun leiks, eða misskilur hana og heldur t.d. að um bílflaut hafi verið að ræða.
  • Leikmaðurinn hefur tekið sér stöðu með kylfu sína aftan við boltann eða hefur byrjað baksveifluna fyrir höggið og lýkur högginu án hiks.
Dæmi um tilvik þar sem nefndin myndi líklega ákvarða að ekki hafi verið réttlætanlegt að halda leik áfram væri ef leikmaður heyrir merki um frestun leiks en vill flýta sér að slá högg áður en hann stöðvar leik, t.d. til að ljúka holu með stuttu pútti eða nýta sér hagstæðan vind.
5.7c/1
Leikmenn mega hefja leik að nýju þegar nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur hætta af eldingum
Öryggi leikmanna er í fyrirrúmi og nefndin ætti ekki að taka áhættu með því að setja leikmenn í hættu. Regla 5.7a (Þegar leikmenn mega eða verða að hætta leik) heimilar leikmanni að stöðva leik ef hann hefur ástæðu til að ætla að hætta sé af eldingum. Undir þessum kringumstæðum, ef ótti leikmannsins er á rökum reistur, á hann lokaorðið. Hins vegar, ef nefndin hefur fyrirskipað að leikur skuli hefjast að nýju eftir að hafa beitt allra eðlilegra ráða til að skoða aðstæður og komist að þeirri niðurstöðu að engin hætta sé lengur af eldingum verða allir leikmann að hefja leik að nýju. Ef leikmaður neitar því þar sem hann telur að enn sé hætta getur nefndin ákvarðað að áhyggjur leikmannsins séu óþarfar og veita má leikmanninum frávísun samkvæmt reglu 5.7c.
5.7d(1)/1
Bætt lega í glompu á meðan frestun stendur yfir er heppni leikmannsins
Þegar bolti er lagður aftur þegar leikur er hafinn að nýju á regla 14.2d (Hvar leggja á bolta aftur þegar lega hefur breyst) ekki við og leikmaðurinn þarf ekki að endurgera upphaflegu leguna. Sem dæmi er bolti leikmanns sokkinn í glompu þegar leik er frestað. Á meðan frestunin stendur yfir er glompan yfirfarin af vallarstarfsmönnum og sandurinn sléttaður. Leikmaðurinn verður að halda leik áfram með því að leggja bolta á áætlaðan stað þar sem boltanum var lyft, jafnvel þótt þetta sé ofan á sandinum en ekki í sokkinni legu. Hins vegar, ef glompan hefur ekki verið yfirfarin af vallarstarfsmönnum á leikmaðurinn ekki endilega rétt á þeim aðstæðum sem hafa áhrif á höggið sem hann hafði áður en leik var frestað. Ef aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið hafa versnað vegna náttúruaflanna (svo sem vinds eða vatns), má leikmaðurinn ekki bæta þessar aðstæður (regla 8.1d).
SKOÐA FLEIRA