Bolta leikið þar sem hann liggur. Kyrrstæðum bolta lyft eða hann hreyfður
Tilgangur reglu: Regla 9 fjallar um eitt grundvallaratriði leiksins: „Leiktu boltanum eins og hann liggur"
Ef bolti leikmannsins stöðvast og er síðan hreyfður úr stað af náttúruöflunum, svo sem vindi eða vatni, verður leikmaðurinn yfirleitt að leika boltanum frá nýja staðnum.
Ef kyrrstæðum bolta er lyft eða hann hreyfður af einhverjum eða af utanaðkomandi áhrifum, áður en höggið er slegið, verður að leggja boltann aftur á upphaflegan stað.
Leikmenn ættu að fara varlega nærri kyrrstæðum bolta og leikmaður sem veldur því að bolti hans eða mótherja hans hreyfist fær yfirleitt víti (nema á flötinni).
9
Bolta leikið þar sem hann liggur. Kyrrstæðum bolta lyft eða hann hreyfður
Regla 9 nær til kyrrstæðs bolta í leik á vellinum og gildir bæði á meðan umferð er leikin og á meðan leikur hefur verið stöðvaður samkvæmt reglu 5.7a.
9.2
Að ákvarða hvort bolti hreyfðist og hvað olli þá hreyfingunni
9.2a/1
Hvenær litið er svo á að bolti hafi hreyfst
Eins og fram kemur í skilgreiningunum hefur bolti ekki „hreyfst“ nema hann færist af upphaflegum stað og stöðvist á öðrum stað, auk þess sem hreyfingin þarf að vera nægilega mikil til að hægt sé að sjá hana með berum augum. Til að líta svo á að bolti hafi hreyfst verður að vera vissa eða nánast öryggi um að boltinn hafi hreyfst.Eftirfarandi er dæmi um hvenær er vitað eða nánast öruggt að bolti hafi hreyfst:
Leikmaður merkir og lyftir bolta sínum á flötinni og leggur hann svo aftur. Þegar leikmaðurinn stígur frá rúllar boltinn stutta vegalengd og stöðvast. Leikmaðurinn sér þetta ekki en annar leikmaður sér boltann hreyfast og lætur leikmanninn vita. Þar sem vitað er að boltinn hreyfðist verður leikmaðurinn að leggja hann aftur á upphaflegan stað samkvæmt reglu 13.1d(2) (Bolti hreyfður af náttúruöflunum).
Eftirfarandi er dæmi um hvenær hvorki er vitað né nánast öruggt að bolti hafi hreyfst:
Leikmenn A og B slá innáhögg sín á flötina en vegna landslags flatarinnar sjá þeir ekki hvar boltarnir stöðvast. Án þess að leikmennirnir viti það hitti bolti leikmanns B bolta leikmanns A sem var kyrrstæður og bolti A rúllaði frá holunni. Svo fremi að leikmennirnir fái ekki vitneskju um þetta áður en leikmaður A slær næsta högg fer leikmaður A rétt að þótt hann leiki bolta sínum frá staðnum þar sem hann stöðvaðist eftir að bolti leikmanns B hitti hann.
9.2a/2
Ábyrgð leikmanns á athöfnum sem valda því að boltinn hreyfist jafnvel þegar hann verður þess ekki var að boltinn hreyfðist
Eins og greint er frá í skýringum 9.2a/1 hefur leikmaður ekki leikið högg af röngum stað þegar það er hvorki vitað né nánast öruggt að boltinn hafi hreyfst af utanaðkomandi áhrifum þegar boltanum er leikið.Hins vegar, ef athafnir leikmannsins (eða athafnir kylfubera hans eða samherja) ollu því að boltinn hreyfðist er litið svo á að leikmaðurinn hafi vitað að boltinn hafi hreyfst og hann hafi verið valdur að hreyfingunni. Þetta á einnig við þegar leikmanni er ókunnugt um að athafnir hans hafi valdið hreyfingu boltans, þar sem skortur á vitneskju um brot losar hann ekki undan refsingu.Eftirfarandi eru dæmi um þetta:
Bolti leikmanns liggur á almenna svæðinu og leikmaðurinn fjarlægir lausung nærri boltanum. Við það hreyfist boltinn. Þar sem leikmaðurinn horfði ekki á boltann varð hann þess ekki var að boltinn hreyfðist. Leikmaðurinn fær eitt högg í víti samkvæmt reglu 15.1b (Bolti hreyfist þegar lausung er fjarlægð) og hann verður að leggja boltann aftur.
Kylfuberi leikmanns eða samherji leikmannsins fjarlægði stikur og reipi og við það hreyfðist boltinn. Á sama tíma var leikmaðurinn að horfa á annan leikmann slá högg. Þetta er vítalaust samkvæmt reglu 15.2a(1) (Að fjarlægja hreyfanlega hindrun) en leikmaðurinn verður að leggja boltann aftur.
Í báðum tilvikum, jafnvel þótt leikmaðurinn hafi ekki orðið þess var að boltinn hreyfðist, ef síðar kemur í ljós að boltinn hafði hreyfst og honum leikið án þess að leggja hann aftur, fær leikmaðurinn almenna vítið fyrir að leika af röngum stað, samkvæmt reglu 14.7a (Staður þar sem leika verður boltanum).Sjá skýringar varðandi skilgreiningar á „Vitað eða nánast öruggt“ til leiðsagnar.
9.2b/1
Að ákvarða hvort athafnir leikanns hafi valdið hreyfingu boltans þegar útbúnaður á í hlut
Regla 9.4 á við þegar það er vitað eða nánast öruggt að athafnir leikmanns ollu hreyfingu boltans. Þetta á einnig við þegar athafnir leikanns ollu því að útbúnaður hreyfði boltann. En regla 9.4 á ekki alltaf við þegar bolti leikmanns hreyfist og utbúnaður á í hlut.Dæmi um þegar regla 9.4 á við, þar sem það er vitað eða nánast öruggt að leikmaðurinn var valdur að hreyfingunni, eru þegar leilkmaðurinn:
Leggur frá sér golfpokann í brekkku og pokinn fellur strax á boltann og hreyfir hann.
Missir kylfur sem veldur því að boltinn hreyfist.
Dæmi um þegar regla 9.6 á við, þar sem það er ekki vitað eða nánast öruggt að leikmaðurinn var valdur að hreyfingunni, eru þegar leikmaðurinn:
Leggur frá sér golfpokann og það líður tími áður en pokinn fellur á boltann og hreyfir hann.
Leggur handklæði ofan á golfpokanum og vindur feykir því siðan á jörðina og hreyfir boltann.
Þessar meginreglur eiga einnig við þegar ákvarðað er hvort athafnir mótherja voru valdar að hreyfingu boltans (regla 9.5). (Nýtt)
9.3
Bolti hreyfist vegna náttúruaflanna
9.3
Bolti hreyfist vegna náttúruaflanna
Sjá skýringar 13.1d(2)/1 - Leggja verður bolta aftur ef hann hreyfist eftir að hafa verið lagður til að taka lausn
9.4
Bolta lyft eða hann hreyfður af leikmanni
9.4a/1
Aðferð þegar bolti leikmanns er losaður úr tré
Regla 9.4 á alltaf við þegar bolti í leik er á vellinum. Þar á meðal þegar boltinn er í tré. Hins vegar, ef leikmaðurinn ætlar ekki að leika boltanum þar sem hann liggur heldur er einungis að reyna að þekkja boltann eða ætlar að endurheimta hann til að nota aðra reglu, eiga undantekningarnar við reglu 9.4b við og það er vítalaust. Til dæmis:
Við leit að bolta sínum sér leikmaður bolta uppi í tré en getur ekki þekkt hann. Leikmaðurinn klifrar upp í tréð í þeim tilgangi að þekkja boltann og við það dettur boltinn óvart niður úr trénu. Í ljós kemur að þetta er bolti leikmannsins. Í þessu tilfelli, þar sem boltinn var hreyfður af slysni við eðlilegar athafnir við að reyna að þekkja hann er vítalaust þótt boltinn hafi hreyfst (regla 7.4). Leikmaðurinn verður að leggja boltann aftur eða má þess í stað nota lausnarreglu (svo sem reglu 19 - Ósláanlegur bolti). Í tveimur tilvikum er eini kostur leikmannsins að taka lausn samkvæmt lausnarreglu:
Leikmaðurinn getur ekki lagt boltann aftur þar sem hann kemst ekki að staðnum þaðan sem boltinn hreyfðist þegar leikmaðurinn var að bera kennsl á boltann., eða
Leikmaðurinn nær til staðarins en boltinn tollir ekki á staðnum og leikmaðurinn nær ekki til staðar þar sem hann myndi tolla samkvæmt reglu 14.2e (Bolti sem er lagður aftur tollir ekki).
Bolti leikmanns er ófundinn en talið er að hann sé fastur uppi í tré á almenna svæðinu. Leikmaðurinn gefur skýrt til kynna að ef boltinn finnst muni hann taka lausn vegna ósláanlegs bolta samkvæmt reglu 19. Leikmaðurinn hristir tréð, boltinn fellur niður og leikmaðurinn þekkir hann sem sinn innan þriggja mínútna frá því hann hóf leit. Nú má leikmaðurinn taka lausn samkvæmt reglu 19 (Ósláanlegur bolti), gegn einungis einu vítahöggi samkvæmt þeirri reglu en ekki er viðbótar víti fyrir að valda því að boltinn hreyfðist. Ef fyrri staðsetning boltans í trénu er óþekkt verður að áætla hana þegar farið er að samkvæmt reglu 19.
Hins vegar, ef leikmaðurinn hreyfir boltann þegar hann er ekki að reyna að þekkja hann eða þegar hann ætlar ekki að taka lausn samkvæmt annarri reglu fær leikmaðurinn víti fyrir brot á reglu 9.4. Til dæmis:
Bolti leikmanns er í tré og leikmaðurinn hugsar sér að leika honum. Við undirbúning fyrir höggið veldur leikmaðurinn því af slysni að boltinn dettur niður úr trénu. Leikmaðurinn fær eitt vítahögg samkvæmt reglu 9.4 fyrir að valda því að boltinn hreyfðist. Leikmaðurinn verður að leggja boltann aftur eða taka lausn samkvæmt lausnarreglu. Ef leikmaðurinn tekur lausn samkvæmt reglu 19 fær hann samtals tvö vítahögg, eitt samkvæmt reglu 9.4 og annað samkvæmt reglu 19.
9.4b/1
Að snerta bolta vísvitandi veldur víti þótt boltinn hreyfist ekki
Þegar leikmaður snertir vísvitandi bolta sinn í leik, jafnvel þótt boltinn hreyfist ekki, fær leikmaðurinn eitt vítahögg samkvæmt reglu 9.4b.Til dæmis fær leikmaðurinn eitt högg í víti ef hann:
Snýr boltanum á flötinni til að stilla af línu á boltanum að holu, án þess að merkja fyrst legu boltans, jafnvel þótt boltinn haldist kyrr á sama stað. Hefði leikmaðurinn merkt legu boltans áður en hann snerti hann eða sneri honum hefði leikmaðurinn ekki fengið víti.
Snýr boltanum, hvar sem er á vellinum til að þekkja boltann, án þess að hafa áður merkt staðsetningu hans, og í ljós kemur að þetta er bolti leikmannsins.
Snertir boltann vísvitandi með kylfu í undirbúningi fyrir að slá högg.
Heldur boltanum föstum með höndinni, eða styður við boltann með barrköngli eða stilk, til að koma í veg fyrir að boltinn hreyfist þegar hann fjarlægir lausung eða dustar eitthvað af boltanum.
9.4b/2
Merking orðsins „þegar“ í reglu 9.4b Undantekning 4
Undantekning 4 notar orðið „þegar“ til að ákvarða tímabilið þegar undantekningin á við um leikmann sem hreyfir bolta sinn í leik sem afleiðingu „eðlilegra athafna“. Fyrir merkingu „eðlilegra athafna" vísast til skýringa 9.4b/3.Notkun orðsins „þegar“ gefur til kynna að allar eðlilegar athafnir við að beita reglu hafa tiltekið upphaf og tiltekinn endi og ef hreyfing boltans á sér stað á meðan slíkar athafnir fara fram á undantekningin við.Eftirfarandi eru dæmi um aðstæður sem undantekning 4 nær til, þannig að það er vítalaust að valda því að boltinn hreyfist:
Leikmaðurinn finnur bolta sem hann telur að sé sinn bolti í leik. Til að þekkja boltann fer leikmaðurinn að boltanum til að merkja staðsetningu hans og lyfta honum og við það rennur leikmaðurinn til og hreyfir boltann. Þótt leikmaðurinn hafi ekki verið að merkja staðsetningu boltans eða lyfta honum þegar boltinn hreyfðist telst boltinn samt hafa hreyfst þegar leikmaðurinn var að þekkja boltann.
Leikmaðurinn hefur látið bolta falla til að taka lausn og beygir sig svo niður til að fjarlægða tíið sem afmarkaði lausnarsvæðið. Þegar leikmaðurinn stendur upp missir hann óvart kylfuna sem hann hélt á og kylfan lendir í og hreyfir boltann sem er í leik. Þótt leikmaðurinn hafi verið búinn að láta boltann falla til að taka lausn hreyfðist boltinn þegar leikmaðurinn var að taka lausn.
9.4b/3
Merking orðalagsins „eðlilegar athafnir“ í undantekningu 4 við reglu 9.4b
Í mörgum tilfellum krefjast reglurnar þess að leikmenn aðhafist eitthvað nærri eða rétt við boltann (svo sem að lyfta honum, merkja staðsetningu hans, mæla o.s.frv.). Ef boltinn hreyfist af slysni við slíkar „eðlilegar athafnir“ á undantekning 4 við reglu 9.4 við.Hins vegar eru aðrar aðstæður þar sem leikmaðurinn aðhefst eitthvað fjær boltanum og þótt boltinn myndi hreyfast sem afleiðing slíkra athafna ætti undantekning 4 samt við, því athafnirnar teldust vera „eðlilegar“.Slíkt á m.a. við þegar:
Leikmaðurinn nálgast bolta sinn til að taka lausn og sparkar óvart í stein eða missir óvart kylfu sína sem hittir boltann og hreyfir hann.
Leikmaðurinn fjarlægir stiku og reipi (hreyfanlegar hindranir) sem halda áhorfendum í skefjum í nokkurri fjarlægð framan við boltann. Við að fjarlægja eina stikuna veldur leikmaðurinn því að aðrar stikur losna, detta á jörðina og leiða til þess að bolti leikmannsins í leikhreyfist.
Leikmaðurinn endurgerir leiklínuna með því að bursta sandi í burtu á svuntunni með derhúfu samkvæmt reglu 8.1d (Að endurgera aðstæður sem versnuðu eftir að bolti stöðvaðist) og við það berst sandur á boltann og veldur því að hann hreyfist.
Í öðrum tilfellum á undantekning 4 við reglu 9.4 ekki við vegna þess að athafnir leikmannsins eru ekki „eðlilegar“.Slíkt á m.a. við þegar:
Leikmaðurinn nálgast bolta sinn til að taka lausn, sparkar í stein í reiði og steinninn hittir og hreyfir boltann.
Leikmaðurinn kastar kylfu niður innan lausnarsvæðis við að undirbúa mælingu og kylfan hittir óvart boltann og hreyfir hann.
Leikmaðurinn lyftir glompuhrífu eða kylfu sinni og kastar út úr glompunni. Hrífan eða kylfan fellur aftur niður í glompuna og hittir boltann og hreyfir hann.
9.4b/4
Leikmaður lyftir bolta samkvæmt reglu 16.1b sem heimilar vítalausa lausn en ákveður svo að taka ekki vítalausa lausn
Á almenna svæðinu, Ef leikmaður lyftir bolta sínum í þeim tilgangi að taka fría lausn samkvæmt reglu 16.1b (Óeðlilegar vallaraðstæður), en ákveður síðan að fara ekki að samkvæmt reglunni þrátt fyrir að lausn fáist, en heimild leikmannsins til að lyfta boltanum samkvæmt reglu 16.1b ekki lengur í gildi.Eftir að hafa lyft boltanum, en áður en hann gerir nokkuð annað, hefur leikmaðurinn eftirfarandi möguleika:
Leggja boltann aftur á upphaflegan stað gegn einu vítahöggi (regla 9.4);
Leggja boltann aftur á upphaflega staðinn gegn einu vítahöggi (regla 9.4b) og taka síðan lausn samkvæmt reglu 19.2 (Lausn vegna ósláanlegs bolta), fá til viðbóta eitt högg í víti samtals tvö vítahögg;
Taka strax lausn samkvæmt reglu 19.2b eða c, án þess að leggja boltann aftur og nota upphaflega staðinn sem viðmiðunarstað við að taka lausn, fá eitt vítahögg samkvæmt reglu 19.2 og til viðbótar eitt vítahögg samkvæmt reglu 9.4b samtals tvö vítahögg;
Láta boltann falla samkvæmt reglu 16.1b og síðan leika boltanum þar sem hann liggur án vítis eða, nota nýja staðinn sem viðmiðunarstað, taka lausn samkvæmt einhverjum valmöguleikum reglu 19.2, fá aðeins eitt högg í víti ; eða
Taka strax fjarlægðarlausn, án þess að láta boltann falla samkvæmt reglu 16.1b, fá eitt vítahögg samkvæmt reglu 19.2a og ekkert víti samkvæmt reglu 9.4b, þar sem leikmaðurinn þarf ekki að ákvarða nýja viðmiðunarstað áður en hann tekur lausn samkvæmt reglu 19.2a.
Sjá skýringar 7.4/3 - Bolti hreyfður þegar leit hefur verið stöðvuð tímabundið
9.5
Bolta lyft eða hann hreyfður af mótherja í holukeppni
9.5b/1
Leikmaður segist eiga bolta sem hefur fundist og þetta veldur því að mótherjinn lyftir öðrum bolta sem reynist svo vera bolti leikmannsins
Samkvæmt reglu 9.5b fær mótherji eitt vítahögg ef hann lyftir bolta leikmannsins, nema ein af undantekningunum eigi við.Til dæmis finnur leikmaður A bolta og segir að það sé hans bolti. Leikmaður B (mótherjinn) finnur annan bolta og lyftir honum. Þá uppgötvar leikmaður A að hann átti ekki boltann sem hann fann og að hann átti boltann sem leikmaður B lyfti.Þar sem boltinn var í raun ekki fundinn þegar leikmaður B lyfti bolta leikmanns A er litið svo á að boltinn hafi hreyfst fyrir slysni við leit og undantekning 3 við reglu 9.5b gildir. Leikmaðurinn eða mótherjinn verður að leggja boltann aftur án þess að neinn fái víti.
9.6
Utanaðkomandi áhrif lyfta bolta eða hreyfa hann
9.6/1
Vindur hreyfir við utanaðkomandi áhrifum sem valda svo hreyfingu bolta
Vindur er ekki utanaðkomandi áhrif en ef vindur hreyfir utanaðkomandi áhrif sem svo valda því að bolti leikmanns hreyfist gildir regla 9.6.Til dæmis ef bolti leikmanns stöðvast í plastpoka (hreyfanlegri hindrun) sem liggur á jörðinni og vindhviða blæs pokanum af stað og pokinn hreyfir boltann er pokinn (utanaðkomandi áhrif) talinn hafa hreyft boltann. Leikmaðurinn má annaðhvort:
Taka strax lausn samvæmt reglu 15.2e með því að áætla staðinn undir þar sem boltinn var kyrrstæður í plastpokanum áður en boltinn hreyfðist, eða
Leggja aftur boltann sem pokinn hreyfði og beita reglu 9.6 (með því að leggja aftur boltann og pokanna) og ákveða síðan hvort hann vilji leika boltanum þar sem hann liggur eða taka lausn samkvæmt reglu 15.2a (Lausn frá hreyfanlegri hindrun).
9.6/2
Hvar leggja á bolta aftur ef boltinn var hreyfður af óþekktum stað
Ef bolti hefur hreyfst vegna utanaðkomandi áhrifa og upphaflegur staður er ekki þekktur verður leikmaðurinn að áætla eftir bestu getu (regla 1.3b(2)) hvar boltinn hafði stöðvast áður en hann var hreyfður.Til dæmis geta leikmenn ekki séð hluta flatarinnar og aðliggjandi svæði á tiltekinni holu þegar þeir leika í átt að flötinni. Nærri flötinni er glompa og vítasvæði. Leikmaður leikur í átt að flötinni og sér ekki hvar boltinn stöðvast. Leikmennirnir sjá einstakling (utanaðkomandi áhrif) með bolta. Einstaklingurinn sleppir boltanum og hleypur á brott. Leikmaðurinn þekkir boltann sem sinn. Leikmaðurinn veit ekki hvort boltinn var á flötinni, á almenna svæðinu, í glompunni eða innan vítasvæðisins.Þar sem útilokað er að vita hvar eigi að leggja boltann aftur verður leikmaðurinn að meta það eftir bestu getu. Ef jafn líklegt er að boltinn hafi stöðvast á flötinni, á almenna svæðinu, í glompunni eða innan vítasvæðisins er eðlileg niðurstaða að áætla að boltinn hafi stöðvast á almenna svæðinu.
9.6/3
Leikmaður fréttir að bolti hafi hreyfst eftir að hann slær högg
Ef ekki er vitað eða nánast öruggt að bolti leikmannsins hafi hreyfst vegna utanaðkomandi áhrifa verður leikmaðurinn að leika boltanum þar sem hann liggur. Ef leikmaðurinn fréttir ekki að boltinn hafi í raun hreyfst af völdum utanaðkomandi áhrifa fyrr en eftir að hann hefur leikið boltanum hefur leikmaðurinn ekki leikið af röngum stað því þessar upplýsingar lágu ekki fyrir þegar hann sló höggið.
9.6/4
Kyrrstæðum bolta leikið og síðan kemur í ljós að hann hafði hreyfst vegna utanaðkomandi áhrifa. Bolti reynist vera rangur bolti
Ef leikmaður uppgötvar, eftir að hafa leikið bolta sínum, að boltinn hafði verið hreyfður inn á völlinn af utanaðkomandi áhrifum, eftir að boltinn hafði stöðvast út af, hefur leikmaðurinn leikið röngum bolta (sjá skilgreiningu). Þar sem þetta var hvorki vitað né nánast öruggt þegar boltanum var leikið fær leikmaðurinn ekki víti fyrir að leika röngum bolta, samkvæmt reglu 6.3c(1). Hann kann þó að þurfa að leiðrétta mistökin með því að fara að samkvæmt reglu 18.2b (Hvað gera á þegar bolti er týndur eða út af), eftir því hvenær þetta kemur í ljós:
Í holukeppni verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin ef sú staðreynd að boltinn var hreyfður inn á völlinn af utanaðkomandi áhrifum kemur í ljós áður en mótherjinn slær sitt næsta högg eða aðhefst eitthvað sambærilegt (svo sem að gefa holuna). Ef mistökin uppgötvast eftir að mótherjinn slær sitt næsta högg eða aðhefst eitthvað sambærilegt verður leikmaðurinn að ljúka holunni með ranga boltanum.
Í höggleik verður leikmaðurinn að leiðrétta mistökin ef sú staðreynd að boltinn var hreyfður inn á völlinn af utanaðkomandi áhrifum kemur í ljós áður en leikmaðurinn slær högg til að hefja leik á annarri holu, eða ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en hann skilar skorkorti sínu. Ef þetta uppgötvast eftir að leikmaðurinn hefur slegið högg á næstu holu eða, ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, eftir að hann skilar skorkorti sínu gildir skorið með ranga boltanum.