Prenta hluta
15
Lausn frá lausung og hreyfanlegum hindrunum (þar á meðal boltum eða boltamerkjum sem aðstoða við eða trufla leik)
Tilgangur reglu: Regla 15 fjallar um hvenær og hvernig leikmaður má taka lausn án vítis frá lausung og hreyfanlegum hindrunum.
  • Þessir hreyfanlegu náttúrulegu og manngerðu hlutir eru ekki taldir hluti af áskoruninni við að leika völlinn og í flestum tilvikum má leikmaðurinn fjarlægja þá þegar þeir trufla leik.
  • Þó þarf leikmaðurinn að fara varlega við að hreyfa lausung nærri bolta sínum utan flatarinnar, því leikmaðurinn fær víti ef boltinn hreyfist við það.
15
Lausn frá lausung og hreyfanlegum hindrunum (þar á meðal boltum eða boltamerkjum sem aðstoða við eða trufla leik)
15.1

Lausung

15.1a/1
Að fjarlægja lausung af lausnarsvæði eða stað þar sem bolti verður látinn falla, lagður eða lagður aftur
Samkvæmt undantekningu 1 við reglu 15.1 er skýrt að áður en leikmaður leggur bolta aftur má hann ekki fjarlægja lausung sem hefði valdið því að boltinn hreyfðist ef hún væri fjarlægð á meðan boltinn lá á staðnum. Þetta er vegna þess að þegar boltinn lá upphaflega á staðnum átti leikmaðurinn á hættu að boltinn hreyfðist ef lausungin væri fjarlægð. Hins vegar þegar láta á bolta falla eða þegar leggja á bolta er boltinn ekki settur aftur á ákveðinn stað og því er leyft að fjarlægja lausung áður en bolti er látinn falla eða er lagður. Til dæmis, ef leikmaður beitir reglu 14.3b þegar bolti er látinn falla innan lausnarsvæðis eða reglu 14.3c(2) þegar bolti sem hefur verið látinn falla tollir ekki innan lausnarsvæðisins og leikmaðurinn verður að leggja bolta má hann fjarlægja lausung frá lausnarsvæðinu þar sem bolti verður látinn falla eða frá svæðinu þar sem leikmaðurinn mun leggja boltann.
15.3

Bolti eða boltamerki aðstoða við leik eða trufla leik

15.3a/1
Víti fyrir að láta bolta sem aðstoðar liggja kyrran krefst ekki vitneskju
Samkvæmt reglu 15.3a gildir að ef tveir eða fleiri leikmenn í höggleik sammælast um að láta bolta liggja á flötinni til að aðstoða einhvern leikmann, og höggið er slegið með boltann á þeim stað, fær hver leikmaður sem stóð að samkomulaginu tvö högg í víti. Víti fyrir brot á reglu 15.3a fer ekki eftir því hvort leikmennirnir vissu að slíkt samkomulag er óheimilt. Til dæmis, áður en leikmaður leikur bolta í höggleik rétt utan flatarinnar biður hann annan leikmann um að lyfta ekki bolta sínum sem er nærri holunni, svo fyrri leikmaðurinn geti notað hann til að stöðva sinn bolta. Hinn leikmaðurinn veit ekki að slíkt er bannað og samþykkir að láta sinn bolta vera kyrran við holuna til að aðstoða hinn leikmanninn. Um leið og högg er slegið með boltann kyrran við holuna fá báðir leikmennirnir víti samkvæmt reglu 15.3a. Sama ætti við ef leikmaðurinn sem átti boltann nærri holunni byðist til að láta boltann sem er í leik liggja til að aðstoða hinn leikmanninn og hinn leikmaðurinn þægi það og léki síðan bolta sínum. Ef leikmennirnir vita að þeir mega ekki sammælast um þetta, en gera það samt, fá þeir báðir frávísun samkvæmt reglu 1.3b(1) fyrir að sniðganga vísvitandi reglu 15.3a.
15.3a/2
Leikmenn mega láta bolta sem aðstoðar liggja kyrran í holukeppni
Í holukeppni má leikmaður samþykkja að láta bolta sinn liggja kyrran til að aðstoða mótherjann því hugsanlegur ávinningur af því skiptir einungis máli í þeim leik.
15.3/1
Aðferðir við að færa bolta eða boltamerki sem aðstoða eða trufla leik
Þegar leikmaður færir boltann eða boltamerkið samkvæmt reglu 15.3, ætti að leggja hann til hliðar og mæla fjarlægðina með kylfu, svo sem með því að nota kylfuhausinn eða lengd kylfunnar. Þetta mætti gera með því að mæla beint frá boltanum, eða merkja boltann og mæla síðan þaðan. Eftirfarandi eru nokkur dæmi:
  • Leikmaðurinn mætti merkja staðsetningu boltans og færa síðan boltamerkið einn eða fleiri púttershausa til hliðar.
  • Leikmaðurinn má leggja kylfu eða kylfuhaus þétt við hlið boltans og færa boltann að hinum enda kylfunnar eða kylfuhaussins, eða setja boltamerki á þann stað.
Þegar boltinn eða boltamerkið er fært, ætti leikmaðurinn að miða stefnu kylfunnar við einhvern fastan hlut (svo sem galla í flötinni eða vökvunarstút) til að tryggja að þegar boltinn er lagður aftur, að framkvæmdin sé sú sama í hina áttina og boltinn verði lagður aftur á staðinn þaðan sem honum var lyft. (Nýtt)
SKOÐA FLEIRA