Prenta hluta
20
Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin. Úrskurðir dómara og nefndarinnar
Tilgangur reglu: Regla 20 fjallar um hvað leikmenn ættu að gera þegar spurningar vakna um reglurnar á meðan umferð er leikin, þar á meðal ferlin (sem eru ólík í holukeppni og höggleik) sem gefa leikmönnum kost á að gæta réttar síns og að fá úrskurð síðar. Reglan fjallar einnig um hlutverk dómara sem er heimilað að úrskurða um staðreyndir og að beita reglunum. Úrskurðir dómara eða nefndarinnar eru bindandi fyrir alla leikmenn.
20
Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin. Úrskurðir dómara og nefndarinnar
20.1

Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin

20.1b(2)/1
Ósk um úrskurð þarf að bera fram tímanlega
Leikmaður á rétt á að vita alltaf stöðu leiks síns eða hvort eitthvað álitamál bíður úrskurðar. Ósk um úrskurð þarf að bera fram tímanlega til að koma í veg fyrir að leikmaður reyni að beita vítum síðar í leiknum. Hvort úrskurður verður veittur fer eftir því hvenær leikmanninum urðu ljósar staðreyndir málsins (ekki hvenær hann vissi að um víti var að ræða) og hvenær óskin um úrskurð var borin fram. Til dæmis lyftir leikmaður A bolta sínum á réttan hátt á fyrstu holu í holukeppni án dómara, til að athuga hvort boltinn sé skemmdur samkvæmt reglu 4.2c(1). Hann ákvarðar að boltinn sé skorinn og skiptir um bolta samkvæmt reglu 4.2c(2). Án vitneskju leikmanns A sér leikmaður B ástand upphaflega boltans. Leikmaður B er ósammála leikmanni A um að boltinn sé skemmdur. Leikmaður B nefnir það þó ekki við leikmann A heldur ákveður að líta fram hjá hugsanlegu reglubroti. Báðir leikmennirnir leika í holu og leika síðan frá næsta teig. Eftir leik á lokaholunni vinnur leikmaður A leikinn með 1 hola upp. Þegar leikmennirnir ganga af flötinni, þar sem nefndin er til staðar, skiptir leikmaður B um skoðun og segir leikmanni A að hann sé ósammála boltaskiptunum á fyrstu holu. Leikmaður B óskar eftir úrskurði nefndarinnar. Nefndin ætti að ákvarða að óskin um úrskurð hafi ekki verið lögð fram tímanlega þar sem leikmaður B vissi um staðreyndir málsins við leik á fyrstu holu og sló síðan högg á annarri holu (regla 20.1b(2)). Því ætti nefndin að ákveða að úrskurður verði ekki veittur. Úrslit leiksins standa, þ.e. leikmaður A vinnur leikinn.
20.1b(2)/2
Ef úrskurðað er eftir lok síðustu holu leiksins en áður en úrslit leiksins eru endanleg getur það leitt til þess að leikmenn haldi leiknum áfram
Ef leikmaður uppgötvar hugsanlegt brot mótherja síns á reglunum eftir að þeir töldu sig hafa lokið síðustu holu leiksins getur leikmaðurinn lagt fram ósk um úrskurð. Ef mótherjinn braut reglurnar getur leiðrétt staða leiksins leitt til þess að leikmennirnir þurfi að halda aftur út á völlinn og halda leiknum áfram. Til dæmis:
  • Í holukeppni milli leikmanns A og leikmanns B, leikmaður B vinnur leikinn 5 og 4. Á leið þeirra til baka í golfskálann og áður en úrslit leiksins eru endanleg kemur í ljós að leikmaður B var með 15 kylfur í golfpokanum. Leikmaður A óskar eftir úrskurði og nefndin úrskurðar réttilega að óskin hafi verið lögð tímanlega fram. Leikmennirnir þurfa að halda aftur út á 15. holu og halda leiknum áfram. Staða leiksins er leiðrétt með því að draga tvær holur frá leikmanni B (regla 4.1b(4)) og leikmaður B er þá 3 holur upp þegar fjórar holur eru eftir.
  • Í holukeppni milli leikmanns A og leikmanns B, leikmaður B vinnur leikinn 3 og 2. Á leið þeirra til baka í golfskálann uppgötvar leikmaður A að leikmaður B sló í sand í æfingasveiflu í glompu á 14. holu. Leikmaður B vann 14. holuna. Leikmaður A óskar eftir úrskurði og nefndin úrskurðar réttilega að ósk leikmanns A um úrskurð hafi verið lögð tímanlega fram. Leikmaður B tapaði 14. holunni þar sem hann tilkynnti leikmanni A ekki um vítið (regla 3.2d(2)). Leikmennirnir þurfa að halda aftur út á 17. holu og halda leiknum áfram. Þar sem leikstaðan er leiðrétt með því að breyta sigri leikmanns B á 14. holunni í tap er leikmaður B nú 1 holu upp þegar tvær holur eru eftir.
20.1b(4)/1
Að ljúka holu með tveimur boltum er ekki leyft í holukeppni
Að leika tveimur boltum á einungis við í höggleik vegna þess að í holukeppni skipta uppákomur sem verða í leiknum eingöngu máli fyrir leikmennina sem eru í þeim leik og leikmennirnir í leiknum geta gætt eigin hagsmuna. Hins vegar, ef leikmaður í holukeppni er óviss um hvernig eigi að fara að og lýkur leik á holu með tveimur boltum gildir skor upphaflega boltans alltaf ef leikmaðurinn og mótherjinn vísa málinu til nefndarinnar og mótherjinn hefur ekki mótmælt því að leikmaðurinn léki öðrum bolta. Hins vegar, ef mótherjinn mótmælir því að leikmaðurinn leiki öðrum bolta og óskar tímanlega eftir úrskurði (regla 20.1b(2)) tapar leikmaðurinn holunni fyrir að leika röngum bolta í andstöðu við reglu 6.3c(1).
20.1c(3)/1
Vítalaust að leika bolta sem var ekki í leik þegar tveimur boltum er leikið
í höggleik, þegar leikmaður er óviss um hvað eigi að gera og ákveður að leika tveimur boltum er það vítalaust ef annar boltinn sem var leikið er upphaflegur bolti leikmannsins og ekki lengur í leik. Til dæmis finnst bolti leikmanns ekki innan vítasvæðis eftir þriggja mínútna leit. Leikmaðurinn tekur þá lausn á réttan hátt úr vítasvæðinu samkvæmt reglu 17.1c og leikur skiptibolta. Þá finnst upphaflegi boltinn innan vítasvæðisins. Þar sem leikmaðurinn veit ekki hvað sé rétt að gera ákveður hann að leika upphaflega boltanum sem öðrum bolta áður en hann slær fleiri högg og velur að skorið með upphaflega boltanum gildi. Leikmaðurinn leikur í holu með báðum boltunum. Boltinn sem var leikið samkvæmt reglu 17.1c varð að bolta í leik og skorið með þeim bolta er skor leikmannsins á holunni. Skorið með upphaflega boltanum getur ekki gilt því upphaflegi boltinn var ekki lengur í leik. Hins vegar fær leikmaðurinn ekki víti fyrir að leika upphaflega boltanum sem öðrum bolta.
20.1c(3)/2
Leikmaður þarf að ákveða að leika tveimur boltum áður en næsta högg er slegið
Regla 20.1c(3) krefst að leikmaður ákveði að leika tveimur boltum áður en hann slær högg, til að ákvörðunin um að leika tveimur boltum eða hvor boltinn eigi að gilda litist ekki af högginu sem var verið að leika. Að láta bolta falla er ekki jafngilt því að slá högg. Eftirfarandi eru dæmi um hvernig þessari kröfu er fylgt:
  • Bolti leikmanns stöðvast á malbikuðum göngustíg á almenna svæðinu. Þegar leikmaðurinn tekur lausn lyftir hann boltanum, lætur boltann falla utan rétts lausnarsvæðis og leikur honum. Ritari leikmannsins segist hafa efasemdir um hvar boltinn var látinn falla og bendir leikmanninum á að hann kunni að hafa leikið af röngum stað. Þar sem leikmaðurinn er óviss um hvað hann eigi að gera vill hann ljúka holunni með tveimur boltum. Hins vegar er of seint að beita reglu 20.1c(3) því leikmaðurinn hefur þegar slegið högg og því verður hann að bæta almenna vítinu við skor sitt fyrir að leika af röngum stað (regla 14.7). Ef leikmaðurinn heldur að þetta geti verið alvarlegt brot á að leika frá röngum stað ætti hann að leika öðrum bolta samkvæmt reglu 14.7 til að forðast hugsanlega frávísun. Ef ritari leikmannsins hafði uppi efasemdir um hvar boltinn var látinn falla áður en leikmaðurinn sló högg að boltanum og leikmaðurinn var þá óviss um hvað hann ætti að gera hefði hann getað lokið holunni með tveimur boltum samkvæmt reglu 20.1c(3).
  • Bolti leikmanns liggur innan vítasvæðis sem er skilgreint með rauðum stikum. Ein stikanna truflar fyrirhugaða sveiflu leikmannsins og leikmaðurinn er óviss um hvort hann megi fjarlægja stikuna. Leikmaðurinn slær næsta högg án þess að fjarlægja stikuna. Þá ákveður leikmaðurinn að leika öðrum bolta eftir að hafa fjarlægt stikuna og fá úrskurð frá nefndinni. Nefndin ætti að úrskurða að skorið með upphaflega boltanum gildi því óvissan skapaðist þegar boltinn lá innan vítasvæðisins og truflun var vegna stikunnar. Leikmaðurinn hefði þurft að taka ákvörðun um að leika tveimur boltum áður en hann sló högg að upphaflega boltanum.
20.1c(3)/3
Leikmaður má lyfta upphaflegum bolta og láta hann falla, leggja hann eða leggja hann aftur þegar tveimur boltum er leikið
Regla 20.1c(3) krefst þess ekki að upphaflega boltanum sé leikið þar sem hann liggur. Yfirleitt er upphaflega boltanum leikið þar sem hann liggur og annar bolti settur í leik samkvæmt viðeigandi reglu. Hins vegar er einnig heimilt að setja upphaflega boltann í leik samkvæmt viðkomandi reglu. Til dæmis, ef leikmaður er óviss um hvort bolti hans liggi í óeðlilegum vallaraðstæðum á almenna svæðinu getur hann ákveðið að leika tveimur boltum. Leikmaðurinn getur þá tekið lausn samkvæmt reglu 16.1b (Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum) með því að lyfta upphaflega boltanum, láta hann falla og leika honum. Síðan getur leikmaðurinn lagt annan bolta þar sem upphaflegi boltinn lá á óvissa staðnum og leikið honum þaðan. Í slíkum tilvikum þarf leikmaðurinn ekki að merkja staðsetningu upphaflega boltans áður en hann lyftir honum, þótt mælt sé með því.
20.1c(3)/4
Skylda leikmannsins til að ljúka holu með öðrum bolta eftir að hafa tilkynnt að hann ætli að leika öðrum bolta og til að velja hvor boltinn eigi að gilda
Eftir að leikmaður hefur tilkynnt að hann ætli að leika tveimur boltum samkvæmt reglu 20.1c(3) og hefur annaðhvort sett bolta í leik eða slegið högg að öðrum boltanna er leikmaðurinn bundinn við ferlið í reglu 20.1c(3). Ef leikmaðurinn leikur ekki öðrum hvorum boltanum eða leikur honum ekki í holu og það er boltinn sem nefndin myndi ákvarða að ætti að gilda fengi leikmaðurinn frávísun fyrir að leika ekki í holu (regla 3.3c - Ekki leikið í holu). Hins vegar er það vítalaust þótt leikmaðurinn leiki ekki í holu þeim bolta sem ekki mun gilda. Til dæmis liggur bolti leikmanns í hjólförum. Leikmanninum finnst að merkja hefði átt svæðið sem grund í aðgerð. Hann ákveður að leika tveimur boltum og tilkynnir að hann vilji að seinni boltinn gildi. Leikmaðurinn slær síðan högg að upphaflega boltanum úr hjólförunum. Eftir að hafa séð hvernig það högg heppnaðist ákveður leikmaðurinn að leika ekki öðrum bolta. Í lok umferðarinnar tilkynnir leikmaðurinn málið til nefndarinnar. Ef nefndin ákvarðar að hjólförin séu grund í aðgerð fær leikmaðurinn frávísun fyrir að hafa ekki leikið seinni boltanum í holu (regla 3.3c). Hins vegar, ef nefndin ákvarðar að hjólförin séu ekki grund í aðgerð gildir skor leikmannsins með upphaflega boltanum og hann fær ekki víti fyrir að leika ekki öðrum bolta. Niðurstaðan yrði sú sama ef leikmaður leikur eitt högg eða fleiri högg að öðrum bolta en tekur hann svo upp áður en hann lýkur holunni.
20.1c(3)/5
Nota verður varabolta sem annan bolta ef óvissa er fyrir hendi
Þótt regla 20.1c(3) segi að annar bolti samkvæmt þessari reglu sé ekki sama og varabolti samkvæmt reglu 18.3 (varabolti) á hið andstæða ekki við. Þegar leikmaður ákveður að leika tveimur boltum eftir að hafa leikið varabolta og er óviss um hvort upphaflegi boltinn sé út af eða týndur utan vítasvæðis verður leikmaðurinn að meðhöndla varaboltann sem annan bolta. Eftirfarandi eru dæmi um að leikmaður megi nota varaboltann sem annan bolta:
  • Leikmaðurinn er óviss hvort upphaflegur bolti hans er út af svo hann lýkur holunni með upphaflega boltanum og varaboltanum.
  • Leikmaður veit eða er nánast öruggur um að upphaflegur bolti hans, sem hefur ekki fundist, er í óeðlilegum vallaraðstæðum en veit ekki hvað hann á að gera. Því lýkur hann holunni með varaboltanum og öðrum bolta þar sem hann tekur lausn samkvæmt reglu 16.1e.
20.1c(3)/6
Leikmaður má leika einum bolta samkvæmt tveimur ólíkum reglum
Þegar leikmaður er óviss um rétta aðferð samkvæmt reglunum er mælt með að hann leiki tveimur boltum samkvæmt reglu 20.1c(3). Hins vegar er ekkert sem hindrar leikmanninn í að leika einum bolta samkvæmt tveimur ólíkum reglum og óska svo eftir úrskurði áður en hann skilar skorkorti sínu. Til dæmis stöðvast bolti leikmanns á stað þar sem boltinn er ósláanlegur. Svæðið er ómerkt en leikmanninum finnst að það ætti að vera grund í aðgerð. Óviss um hvað hann eigi að gera og tilbúinn til að fá eitt vítahögg ef svæðið er ekki grund í aðgerð ákveður leikmaðurinn að leika einum bolta og láta hann falla á lausnarsvæði sem ákvarðast af reglunni um grund í aðgerð (regla 16.1) en um leið, gegn einu vítahöggi, innan lausnarsvæðisins sem ákvarðast af reglunni um ósláanlegan bolta (regla 19.2). Ef nefndin úrskurðar að svæðið sé grund í aðgerð fær leikmaðurinn ekki víti fyrir að dæma boltann ósláanlegan. Ef nefndin úrskurðar að svæðið sé ekki grund í aðgerð fær leikmaðurinn eitt vítahögg fyrir lausn vegna ósláanlegs bolta. Ef leikmaðurinn notaði framangreinda aðferð og boltinn stöðvaðist á stað þar sem truflun er vegna aðstæðnanna (þarf þá að láta boltann falla aftur samkvæmt reglu 16.1 en ekki samkvæmt reglu 19.2) ætti leikmaðurinn að fá aðstoð nefndarinnar eða leika tveimur boltum samkvæmt reglu 20.1c(3).
SKOÐA FLEIRA